Vilja veðurstöð í Vík í Mýrdal
Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur samþykkt samhljóða að leggja það til við Veðurstofu Íslands að komið verði upp veðurstöð í Vík.
Í greinargerð með mállinu segir meðal annars að nákvæmari veðurmælingar gætu eflt til muna öryggi á svæðinu.
„Umferð um svæðið hafi margfaldast á síðustu árum og því er mikið í húfi að geta spáð fyrir veðri með sem nákvæmustum hætti.“
Þorpið í Vík er mjög útsett fyrir stormum og hvassviðri með tilliti til sandfoks úr Víkurfjöru. Veður verður þess enn fremur oft valdandi að loka þurfi þjóðvegi 1 í gegnum þorpið. Sveitarstjóra Mýrdalshrepps hefur verið falið að fylgja erindinu eftir.