Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Jack Willam Bradley vissi lítið um Ísland áður en hann kom hingað í lok árs 2019. Hann kann mjög vel við sig sem vinnumaður í Litlu-Hildisey. Áður en hann gerðist landbúnaðarverkamaður stefndi hann á starfsframa í breska
hernum.
Jack Willam Bradley vissi lítið um Ísland áður en hann kom hingað í lok árs 2019. Hann kann mjög vel við sig sem vinnumaður í Litlu-Hildisey. Áður en hann gerðist landbúnaðarverkamaður stefndi hann á starfsframa í breska hernum.
Mynd / ÁL
Líf og starf 9. desember 2022

Vörður drottningar í Landeyjum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Jack William Bradley ólst upp skammt frá Derby í Englandi og stefndi á feril í hernum. Heilsubrestur kom í veg fyrir frama á því sviði, en fyrrverandi kærasta kynnti hann fyrir kúm og hefur hann fundið sína hillu. Jack stundaði háskólanám í landbúnaðarfræðum og hefur alþjóðlega reynslu af bústörfum. Hann hefur komið með margar nýjar hugmyndir sem miða að betri velferð og hærri nyt kúa.

Jack kom fyrst til Íslands í desember 2019. Skömmu áður hafði hann auglýst eftir starfi á kúabúi í gegnum heimasíðuna 4xtrahands. com og var ekki með Ísland í huga. Jónatan Magnússon, sem þá var bóndi á Hóli í Önundarfirði, setti sig í samband við Jack mjög fljótlega eftir að auglýsingin birtist. Það kom flatt upp á hann að kúabóndi frá landi sem hann vissi ekkert um væri að bjóða honum vinnu – fyrsta hugsunin var sú að þetta væri einhver frá verslunarkeðjunni Iceland.

Eftir fyrstu komu Jack til landsins gaf hann sér þrjár vikur til að meta hvort hann vildi starfa hjá þeim til frambúðar. Sú reynsla gaf góða raun og flaug hann aftur heim til Bretlands að þeim tíma liðnum til að undirbúa flutninga. Hann sneri svo aftur akandi frá Derby í Önundarfjörðinn í byrjun árs 2020 og hefur verið hér síðan – fyrst á Vestfjörðum og núna á nýju heimili húsbænda sinna í Landeyjum.

Engin hefð er fyrir notkun vetrardekkja á heimaslóðum Jack og því reyndist bílferðin torsótt. Á leiðinni vestur keyrði hann suðurleiðina með viðkomu í Reykjavík. Þegar kom að akstrinum til Önundarfjarðar að sunnan var hann átján tíma á leiðinni – ferðalag sem tekur alla jafna fimm til sex tíma. Jack tók snjókeðjur með sér sem létu undan þegar nokkrar heiðar voru eftir. Snjóbylur gerði það að verkum að hann sá hvorki til hafs né fjalla og áttaði sig ekki á því hvar hann væri. Ekki fyrr en ári síðar fékk hann tækifæri til að sjá umhverfi leiðarinnar.

Þegar Jack flutti vestur á firði ók hann bíl sínum frá Bretlandi. Síðasti kafli leiðarinnar var þrautarganga þar sem hann var á sumardekkjum í snjóbyl. Mynd/Úr einkasafni
Þungur vetur og Covid

Þegar að Hóli var komið gerðist þungur vetur og því gáfust engin tækifæri til ferðalaga. Þegar leið að vori skall á heimsfaraldur og því var Jack bundinn á bænum meira og minna í tvö ár. Hann segist hafa verið heppinn að vera á Íslandi á meðan sóttin gekk yfir, þar sem sóttvarnaraðgerðir voru mildari hér en víðast annars staðar, en hins vegar reyndist erfitt að geta ekki stundað félagslíf, nema að mjög takmörkuðu leyti. Þegar tækifæri gafst lagði Jack sig fram við að kynnast fólkinu fyrir vestan, og er hann þakklátur fyrir hversu vel var tekið á móti honum.

Hann segir nokkurn menningar­ mun milli Íslendinga og Breta og þegar hann náði að sætta sig við það fór hann virkilega að njóta sín. Í samanburði við það sem hann er vanur er andrúmsloftið hér mun afslappaðra. „Hér er allt gert á morgun eða hinn, á meðan í Englandi eru hlutirnir afgreiddir strax,“ segir Jack.

Elti kærustuna í fjósið

Fyrstu kynni Jack af landbúnaðar­ störfum voru í gegnum þáverandi kærustu hans. Hún var búsett á kúabúi ásamt foreldrum sínum og faðir hennar fór fram á að Jack kæmi í mjaltir ef hann ætlaði að eiga í sambandi við dótturina. Þarna var Jack orðinn 22 ára og hefur landbúnaður farið með stórt hlutverk í lífi hans þau níu ár sem eru síðan þá – þó svo að áðurnefnd kærasta sé orðin fyrrverandi.

Staða nýliðunar í breskum landbúnaði er samkvæmt Jack þannig að annaðhvort fæðist fólk inn í bændafjölskyldu eða endar í búskap fyrir slysni. Þó hann langi til að fara í búskap á heimaslóðunum, býst hann ekki við því að það gangi eftir. Ólíkt Íslandi þá eru bújarðir ekki seldar í heilu lagi í Bretlandi, því þyrftu nýliðar að kaupa jörðina og búpeninginn hvort í sínu lagi, sem flækir alla fjármögnun.

Aðspurður segist hann gjarnan vilja hefja búskap hér á landi.

Síðasta kúabúið sem Jack vann á áður en hann kom til Íslands er það stærsta á Bretlandseyjum, eða með 2.400 kýr. Á því búi voru framleiddir á hverjum degi 85.000 lítrar af mjólk, en til samanburðar er meðalstærð íslenskra kúabúa, haustið 2022, 52 kýr og innlögð mjólk að meðaltali 292.400 lítrar á ári. Þar sá hann um uppeldi og aðbúnað kálfanna, meðfram því sem hann var í fullu námi í hjarðstjórnun mjólkurkúa (e. dairy heard management).

Háskólanámið bætti litlu við

Árið 2019 var Jack á þriðja ári við Háskólann í Chester. Áður en hann fór í háskólann hafði hann farið á námskeið annars vegar í kúasæðingum og hins vegar í klaufsnyrtingu. Einnig var hann búinn að klára diplómu í landbúnaðarfræðum. Hann segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með námið þar sem hann lærði ekki margt nýtt með alla þá reynslu og menntun sem hann var þegar kominn með.

Á næsta ári stefnir hann að því að ná sér í réttindi til að fangskoða kýr og hryssur. Með því vonast hann til að geta skapað sér aukavinnu við það, ásamt klaufsnyrtingu og sæðingum. Á meðan hann var fyrir vestan leysti hann oft af sæðingamanninn á svæðinu.

Umfangsmikið stuðningsnet breskra bænda

Stuðningsnetið og ráðgjafaþjónustan sem breskum bændum býðst er mun stærri en hér á Íslandi og er landbúnaður í Bretlandi mjög framarlega þegar kemur að aðbúnaði og velferð gripa.

Þar í landi eru mismunandi sérfræðingar á hverju sviði og aðgangur að þeim góður, á meðan Jack segir að á Íslandi séu örfáir ráðgjafar sem þurfa að sinna fleiri sviðum en þeir hafa sérþekkingu í.

Íslenskir bændur sem glíma við hin og þessi vandamál á sínum búum enda því oft á að lifa með því og venjast erfiðleikunum alla sína búskapartíð.

Í Bretlandi tíðkast það sem Jack kallar „bændafundir“ þar sem teymi sérfræðinga kemur á fund bóndans og greinir stöðuna nokkrum sinnum á ári. Þetta eru þá héraðsdýralæknir, fóðurfræðingur og fleiri.

Bændur ættu að sæða sjálfir

Eitt sem Jack nefnir í þessu samhengi er klaufsnyrting. Þeir sem bjóða upp á slíka þjónustu eru fáir sem þýðir að langur tími líður á milli heimsókna. Því er ekki hægt að bregðast við vandamálunum um leið og þau koma. Jack segir að fleiri bændur ættu að sameinast um að eiga klaufskurðarbás og fleiri ættu að kunna handbragðið. Hann er líka gagnrýninn á að dýralæknar séu of fáir og að þeim séu ætluð verkefni sem auðvelt væri fyrir aðra að leysa.

Í Bretlandi tíðkast að bændur sæði kýrnar sjálfir, í staðinn fyrir að panta sæðingamann. Þar er allur þar til gerður búnaður á búunum, sæði geymt í frysti og bændur fara á þar til gerð námskeið. Jack segir að miklu betra væri ef íslenskum bændum væri gefinn valkostur á því sama, sem myndi auka fanghlutfall til muna. Hann hefur oft orðið vitni að því að pantaður hafi verið sæðingamaður þegar kýrin er yxna, en vegna mikilla anna kemur hann oft of seint og þá er hámark egglossins liðið.

Æskuslóðirnar

Jack lýsir heimaslóðum sínum þannig að tækifæri ungs fólks séu afar fá. „Ýmist kemur þú þér í burtu, lendir í óreglu eða ferð í fangelsi,“ segir hann um Burton upon Trent, sem er skammt suðvestan af Derby. Á árum áður var borgin miðstöð bjórframleiðslu á Englandi með mörg stærstu brugghús landsins. Undanfarna áratugi hefur brugghúsunum bæði fækkað og störfin horfið vegna aukinnar sjálfvirknivæðingar.

Nú eru helstu vinnuveitendur borgarinnar stór vöruhús í eigu verslunarkeðja og netverslana, enda er Bruton upon Trent staðsett í miðju Englands. Einnig eru nokkrar verksmiðjur í nágrenninu, eins og frá JCB og Toyota.

Sá tækifæri í hernum

Þar af leiðandi sá hann tækifæri til að skapa sér starfsferil og komast í burtu með því að skrá sig í herinn. Afi Jacks, sem hann leit mjög upp til, var hermaður í seinni heimsstyrjöldinni og langaði Jack frá unga aldri að feta í fótspor hans.

Um leið og Jack var orðinn fimmtán ára, sem er aldurslágmarkið til að skrá sig í herþjálfun, lagði hann fram sína fyrstu umsókn. Við heilsufarsskoðun kom á daginn að hann glímdi við óreglulegan hjartslátt og var honum ekki hleypt inn fyrr en hann var orðinn sautján ára. Eftir fyrstu sex mánuðina sleit hann liðband í hné og þurfti frá að hverfa.

Draumur Jack var að gerast atvinnuhermaður. Hann stundaði herþjálfun í nokkur ár, en þurfti frá að hverfa vegna heilsubrests. Mynd/Úr einkasafni

Á 21. aldursári gerði hann aðra tilraun við herinn og var hleypt inn. Eftir eins og hálfs árs herþjálfun fótbraut hann sig og var hann aftur leystur frá störfum. Árið 2016, þegar Jack var á 25. aldursári, gerði hann enn aðra tilraun, en eftir að hafa greinst með síþreytu var honum sagt upp enn einu sinni. Ákvað hann því að láta gott heita og stefna á starfsferil innan landbúnaðargeirans, eftir samtals þrjú og hálft ár í hernum.

Jack segir að full herþjónusta sé 20 ár, og hefði hann viljað stefna þangað. Að þjónustu lokinni býðst hermönnum að fara á eftirlaun frá ríkinu, en hins vegar er mjög algengt að menn endist ekki svo lengi. Herþjónustu fylgir gífurlegt líkamlegt álag og því er sú staða sem Jack lenti í, að þurfa að hætta snemma vegna veikinda eða óhapps, alþekkt.

Umgekkst konungsfólk
Drottningarvörður Mynd/Úr einkasafni

Á þeim tíma sem Jack gegndi herþjónustu var hann einungis við þjálfun á Bretlandseyjunum. Ungum hermönnum er oft falið það hlutverk að standa heiðursvörð um konungsfjölskylduna samfara þjálfuninni – rauðklæddu hermennirnir með háu loðhattana. Hann hitti því drottninguna nokkrum sinnum og fjölskyldu hennar. „Þau eru hið yndislegasta fólk,“ segir Jack.

Aðspurður um hvernig það hafi verið að standa vörð um höllina þá segir Jack að á stundum hafi verið óþolandi að vera í raun ekkert annað en aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Aginn í herþjálfuninni sé mikilvægur til að gera mann kláran fyrir þetta starf. Þar er fyrirkomulagið þannig að ef upp kemst um fíflaskap, þá er hermönnum refsað með fjársektum eða með aukinni vinnuskyldu um helgar.

Þegar Elísabet var borin til grafar núna í haust þá var einn kistuberinn sá sem þjálfaði Jack sem nýliða í hernum.

Stytti tíma í mjöltum

Í sumar fluttu húsbændur Jacks frá Hóli í Önundarfirði með allan sinn bústofn. Eftir flutningana stóðu mjaltirnar í Litlu-Hildisey í hvort mál yfir í fjóra tíma, enda mjög margar kýr á bænum. Þar kom reynsla og þekking Jack að góðum notum. Hann áttaði sig á því að kýrnar væru stressaðar og eftir mikla yfirlegu áttaði hann sig á að það væri vegna þess að þær fengu örlítið raflost þar sem vantaði jarðtengingu.

Kýrnar voru líka settar í tvær hjarðir – önnur með hánytja kúm og hin með lágnytja. Með því að þurfa ekki að bíða eftir að hámjólka kýrnar klára á meðan lágnytja eru löngu búnar, sparast nokkrar mínútur í hverjum umgangi í gegnum mjaltabásinn. Þar sem umferðirnar eru 30, þá munar strax um hvert smáatriði.

Þegar jarðsambandið var komið í lag og hópunum var skipt eftir nyt náðist að stytta tímann sem fór í að mjólka 125 kýr niður í tvo tíma og 40 mínútur í hvort mál.

Húsbændur Jack fluttu í sumar frá Hóli í Önundarfirði til Litlu-Hildiseyjar í Landeyjum

Kom í veg fyrir júgurbólgu

Við mjaltir voru notaðar blautar tuskur til að þrífa spenana, sem er viðtekin venja. Jack var fljótur að benda á að með því væri mikil smithætta þar sem bakteríur lifa vel í röku umhverfi. Í staðinn lagði hann til að fyrir mjaltir væri þar til gerðu efni úðað á spenana sem væri svo hreinsað í burtu með þurrum klút. Fyrir þessar breytingar var júgurbólga tíð en er nánast horfin núna.

Einu sinni var Jack að fylgjast með háttalagi kúanna og sá að þær voru tregar til að drekka vatn úr vatnstroginu. Hann skoðaði þá trogið og sá að það var farið að ryðga, en það gefur vatninu vont bragð. Um leið og sett var nýtt vatnstrog jókst ágangurinn í vökva og nytin jukust í kjölfarið.

Einnig hefur Jack lagt áherslu á að kálfar hafi aðgang að vatni, en vömbin þroskast betur ef þeir drekka ekki einungis mjólk. Hann segir algengt að fólk láti mjólkina duga, enda er hún vökvi, en það sé ekki besta aðferðin. Fyrir Jack skipta fyrstu stundirnar í lífi kálfsins mjög miklu máli ef ætlunin er að gera hann að góðri mjólkurkú.

Jack er mikill talsmaður notkunar á forðastautum og eftir að hann fékk húsbónda sinn til að nota þá í meira mæli hefur tíðni doða og súrdoða minnkað.

Nýliðun forsenda framfara

Jack segir að þar sem nýliðun hér á landi gangi treglega komi nýjar hugmyndir og nálganir ekki eins hratt í greinina og æskilegt sé. Hann er ekki með nákvæma tölfræði á hreinu, en telur að meðalaldur kúabænda í Bretlandi sé undir 40. Hann er ánægður með Jónatan, sem er opinn fyrir nýjum hugmyndum frá Jack, sem getur svo útskýrt af hverju betra er að gera hlutina á hinn eða þennan hátt vegna sinnar menntunar og reynslu.

Íslenskar kýr frábærar

Jack segir að íslenska kúakynið sé mjög gott í samanburði við það sem hann hefur kynnst í Bretlandi og Nýja-Sjálandi. Þær eru einstaklega harðgerðar, með gott heilbrigði og nytin alls ekki til að kvarta yfir. Hann hefur heyrt af umræðunni um að flytja inn erlend kúakyn, en hann telur að lítið ávinnist með því. Frekar ætti að flytja inn þekkingu og leggja orku í bættan aðbúnað og fóðrun.

„Kýr er ekki bara kýr! Þér verður að vera eins umhugað um hana og hægt er. Þú vilt ekki gera neitt til að koma henni úr jafnvægi, heldur viltu stuðla að því að hún verði eins hamingjusöm og hægt er,“ segir Jack, en samkvæmt honum mjólka hamingjusömustu kýrnar best. Lífsgleði kúnna hefur áhrif á sálarlíf bóndans og öfugt – vansælar kýr þýða vansælir bændur.

Kjörhitastig kúa eru tvær til þrjár gráður. Lægsta hitastig sem þær þola eru mínus 17 gráður og það hæsta 17 gráður yfir frostmarki. Jack hefur hvatt húsbónda sinn til að vera með geldkýrnar eins mikið úti og hægt er. „Þetta eru í grunninn villt dýr – þær fara í vetrarfeld og þú getur haft þær úti svo lengi sem þær komast í nóg af fóðri og vatni.“

Jack segir íslensku kýrnar einstaklega harðgerðar. Hann hefur kynnst nokkrum kúakynjum og segir það íslenska búa yfir miklum möguleikum.

Mjaltaþjónar út af þjóðarsálinni

Áður en Jack kom til Íslands taldi hann að kýrnar sem hann hafði umgengist á Nýja-Sjálandi væru þær hamingjusömustu í heiminum, þar sem þær eru alltaf utandyra. Síðan kom hann hingað og sá að íslenskar mjólkurkýr í fjósum með mjaltaþjónum eru líklegast þær lukkulegustu sem hann hefur séð. Með því að geta stjórnað sinni rútínu sjálfar eru þær eins og blómi í eggi.

Kýrnar hjá Jónatan leika við hvurn sinn fingur, enda eru alls engin þrengsli á þeim, alltaf nægt fóður og þær stjórna því sjálfar hvenær þær fara í mjaltir. Á Hóli í Önundarfirði voru mjaltaþjónar og var verið að vinna við uppsetningu þeirra í Litlu- Hildisey þegar Bændablaðið bar að garði.

Í Bretlandi eru mjaltaþjónar ekki með eins mikla dreifingu og hér á Íslandi. Jack er með þá kenningu að munur í þjóðarsál þessara tveggja þjóða skýri þennan mun.

„Íslendingar virðast vilja gera auðvelt fyrir sér – fjölskyldan skiptir miklu máli og þeir meta gott jafnvægi milli vinnu og heimilis. Í Bretlandi er þér sagt að þú eigir að vinna mjög mikið allt þitt líf – ef ekki, þá ertu einskis virði. Núna kann ég að meta íslenska lifnaðarháttinn vegna þess að hann er þægilegri – mjaltaþjónarnir minnka vinnuálagið,“ segir Jack

Skylt efni: Kúabændur

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...