Yndislegt áhugamál að rækta býflugur
Svala Sigurgeirsdóttir líffræðingur hóf að rækta býflugur í fyrrasumar og árangurinn hefur ekki látið á sér standa, þrátt fyrir að hún hafi gert allt rangt til að byrja með að eigin sögn. Það sem af er sumri hefur hún fengið sextán kíló af hunangi.
„Ég fór á námskeið hjá Býflugnaræktarfélagi Íslands í fyrra og keypti mér einn pakka af býflugum eins og það kallast. Í einum pakka er um eitt og hálft kíló af flugum, eða um fimmtán hundruð flugur og ein drottning. Ég fékk flugurnar um mánaðamótin júní-júlí en þær eru fluttar hingað til lands frá Álandseyjum þar sem sjúkdómatíðnier lág og flugurnar þar lausar við maur sem leggst á þær víða annars staðar.“
Nágrannarnir taka flugunum fagnandi
Svala segist vera með búið í garðinum hjá sér og að hún eigi yndislega nágranna sem taki flugunum fagnandi og finnist ræktunin forvitnileg.
„Á námskeiðinu hjá Býflugnaræktarfélaginu lærir maður um líffræði býflugna, smíði hentugs húsnæðis og smíði ramma. Við komuna til landsins frá Álandseyjum er þessum nýbúum sturtað úr flutningskassanum ofan í hið nýgerða heimili. Drottningin kemur sér fyrir í litlu búri ásamt nokkrum þernum. Þetta búr er síðan opnað að hálfu, sett ofan í kassann og á um tveimur dögum sleppur drottningin úr búinu og hefur sína vinnu. Sem ein heild taka allar þernurnar við að undirbúa varp drottningarinnar, mötun ungviðis og söfnun hunangs og frjókorna.
Daginn eftir að ég setti flugurnar og drottninguna í búið drápu þernurnar búrdrottninguna og hentu henni út úr búinu.
Sem betur fer var önnur drottning í sendingunni og hún byrjaði fljótlega að verpa og er hörkudugleg.“
Flugunum fjölgaði hratt
Svala segir að flugunum hjá sér hafi fjölgað hratt og áður en hún vissi af var hún komin með fjóra kassa á fjórum hæðum. „Ég vetraði flugurnar á þremur kössum og vegna þess hvað haustið var gott verpti drottningin í törnum fram í október. Veðrið var flugunum líka hagstætt í vor og ég með fimm kassa. Í hverjum kassa eru tíu rammar og í hverjum ramma eru þúsund varpstæði.
Þegar maður er kominn með svona marga kassa er vinnan við umhirðu flugnanna orðin talsverð en skoða þarf hvern einasta ramma á um tíu daga fresti.
Fjölgunin í kössunum var reyndar svo mikil að flugurnar voru farnar að sýna tilhneigingu til að sverma. Sem þýðir að gamla drottningin flytur sig um set með hluta af vinnudýrunum með sér og leitar sér að öðru heimili. Ég dreif mig því í að smíða fleiri kassa og skipta búinu upp í tvígang.“
Sextán kíló af hunangi
Það sem af er þessu sumri hefur Svala fengið sextán kíló af hunangi sem hún setti á krukkur eftir kúnstarinnar reglum og eitthvað er eftir af fölu sumarhunangi sem er bæði gott ofan á brauð, út í te og einstaklega gott á bólur, segir Svala.
„Mér er sagt að ég eigi eftir að fá talsvert af hunangi í viðbót í sumar. Ég efast reyndar sjálf um að það verði önnur sextán kíló til viðbótar þar sem ég hef ekki fóðrað gamla búið með sykurlegi frá því í vor.“
Ól sjálf upp drottningu
Svala segir óvenjulegt að nýjar drottningar verði til hér á landi en að þernunum í einum kassanum hennar hafi tekist að ala upp eina slíka. „Hún náði síðan að fljúga út nokkrum sinnum og eðla sig í háloftunum við drunta úr öðrum búum hér á Selfossi. Býflugnadrottningar frjóvgast bara einu sinni á ævinni og það getur dugað þeim í allt að átta ár.“
Skemmtilegt áhugamál
„Ég hefði ekki getað trúað því hvað það er skemmtilegt að stunda býflugnarækt áður en ég fór út í hana sjálf. Helsti gallinn er að maður getur ekki farið marga daga í burtu í einu og hvað þá í langt ferðalag, nema að fá einhvern til að hugsa um búið fyrir mann á meðan,“ segir Svala Sigurgeirsdóttir, býflugnaræktandi á Selfossi.