Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Jón Örn Ólafsson og Edda G. Ævarsdóttir hafa í tólf ár stundað holdanautabúskap og eru meðal annars eigendur fyrsta nauts af kyni Aberdeen Angus
sem fæddist hér á landi. Sá heitir Vísir og er að sögn eiganda sérlega geðgóður og kelinn með eindæmum.
Jón Örn Ólafsson og Edda G. Ævarsdóttir hafa í tólf ár stundað holdanautabúskap og eru meðal annars eigendur fyrsta nauts af kyni Aberdeen Angus sem fæddist hér á landi. Sá heitir Vísir og er að sögn eiganda sérlega geðgóður og kelinn með eindæmum.
Mynd / ghp & aðsendar
Líf og starf 29. júlí 2022

„Við vissum að þetta var draumurinn og létum vaða!“

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Eftir að hafa alið með sér þann draum að gerast bændur í allmörg ár ákváðu tölvunarfræðingurinn Jón Örn Ólafsson og bókarinn Edda G. Ævarsdóttir að venda kvæði sínu í kross og festa kaup á jörðinni Nýjabæ undir Eyjafjöllum. Þar stunda þau holdanautabúskap af miklum metnaði, við unga búgrein sem hefur farið ört stækkandi á síðustu árum.

Nýibær er falleg 260 hektara jörð undir Vestur-Eyjafjöllum, nánar tiltekið við Sandhólmaveg. Í þessum sendna jarðvegi finnst ekki steinn nema hann sé aðfluttur, jörðin er grasgefin og í góðri rækt, enda staðsett á einum jafnhlýjasta stað landsins, að sögn ábúenda, sem tóku við lyklunum að eigninni seinni part fagurs dags í marsmánuði árið 2010. Um fimm tímum síðar var sveitin rýmd vegna goss í næsta nágrenni, eða í Fimmvörðuhálsi, sem stuttu síðar færði sig enn nær, í Eyjafjallajökul. Nokkuð dramatískt upphaf búskapar.

Nú, tólf árum og þremur börnum síðar, hafa hjónin byggt upp myndarlegt holdanautabú með hátt í 400 nautgripi, þar af um 130 holdakýr auk þess að halda nokkrar kindur og hross. Uppbyggingin var átak, mikil vinna og fjárhagslega krefjandi.

En með velvilja vinnuveitenda, sem veitti sveigjanleika með fjarvinnu, hjálpsamri fjölskyldu hjónanna, sem mæta alltaf til að leggja hönd á plóg þegar mikið liggur við, og góðum sveitungum sem tóku þeim vel frá fyrstu stundu, hefur þeim Jóni Erni og Eddu tekist að byggja upp föngulegt bú.

Edda er Hólaskólagengin, enda mikil áhugamanneskja um hestamennsku, sem er því skemmtileg hliðarbúgrein fjölskyldunnar. Myndir / Aðsend
Fylgdu hjartanu

Jón Örn vann áður og fyrstu árin meðfram búskapnum í hugbúnaðardeild Íslandsbanka. Sveitin hefur að hans sögn þó alltaf átt hug hans allan. Í æsku naut hann sumardvalar í sveit, fyrst á bænum Túni í Flóa og síðar Vatnsskarðshólum í Mýrdal. Edda er Hólaskólagengin, enda hestakona í húð og hár. Þau deildu því áhuga sínum á dýrum og sveitinni og fundu sig best í einhverju vinnustússi úti við.

„Við vorum á ferð í uppsveitum Suðurlands, vissum af þessari jörð í sölu og fyrir einhverja skyndihugdettu ákváðum við að taka á okkur smá krók og kíkja hér við. Veðrið var frábært og við féllum algjörlega fyrir útsýninu til Vestmannaeyja og upp á Eyjafjallajökul,“ rifjar Jón Örn upp um fyrstu kynni af Nýjabæ. „Við hugsuðum kaupin ekkert um of eða reiknuðum dæmið til enda. Við vissum að þetta var draumurinn og létum bara vaða!“

Ekki hafði verið ábúð á jörðinni í um tvö ár þegar þau tóku við. Því var þar hvorki bústofn né vélakostur en áður hafði þarna verið rekið kúabú af miklum myndarskap. Húsakostur var í misgóðu ástandi en tún í góðri rækt og heyjuð af sveitungum í millitíðinni. Það var því allmikið átak að koma upp bústofni, heyforða, vélakosti og að aðlaga húsakost að nýrri framleiðslu.

Nautakjötsframleiðsla varð fyrir valinu. Aðstaðan sem var til staðar miðaðist við nautgripi en þar sem búnaður til mjalta og framleiðsluréttur var ekki á búinu lá beinast við að láta reyna á að sérhæfa sig í nautakjötsframleiðslu. Jón Örn þekkti til slíks búskapar frá sveitadvöl sinni í æsku.

Jörðin Nýibær er um 260 ha af stærð, en auk þess hafa hjónin bætt við sig landi og hafa því um 350 hektara af
grónu svæði auk sandfjöru. Á búinu eru nú hátt í 400 nautgripir, þar af um 130 holdakýr.

Velgengni með nýju erfðaefni

Árangur bændanna á Nýjabæ hefur vakið athygli en þau hafa átt eina þyngstu og vaxtarmestu nautgripi landsins síðustu ára samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur birt. Kjötið frá Nýjabæ hefur einnig fallið vel í kramið hjá matgæðingum en það má m.a. nálgast í gegnum vefsíðu þeirra, sveitabær.is, og í Litlu bændabúðinni á Flúðum.

Nýjar dyr opnuðust þegar innflutningur á erfðaefni af nautgripum af holdanautakyni voru leyfðar að nýju eftir um 25 ára hlé, sem gerði kleift að fara að rækta upp hjarðir af holdagripum, en aðeins var einblendingsrækt raunhæf fram að því.

„Með tilkomu nýja Angus erfðaefnisins vaknaði með okkur mikill ræktunaráhugi. Við keyptum Angus-nautið Vísi árið 2019, sem hefur skilað miklum umbótum í okkar hjörð en einnig höfum við verið dugleg að notast við sæðingar úr öllum þeim gripum sem hafa verið í boði með góðum árangri. Á þessu ári eru allir fæddir kálfar hjá okkur komnir af nýja erfðaefninu,“ segir Jón Örn. Metnaðurinn og áhuginn leynir sér ekki þegar þessi mál eru rædd en þessu til viðbótar keyptu Jón Örn og Edda kvígu og naut á nýliðnu uppboði hreinna Angusgripa.

Vísir er naut úr hópi fyrsta árgangs Aberdeen Angus gripa sem fluttir voru inn sem fósturvísar frá Noregi og komið fyrir í kúm á einangrunarbúinu að Stóra-Ármóti, þar sem kálfarnir verja fyrsta ári sínu í einangrun áður en þeir eru seldir í hjarðir bænda. Vísir er stærðarskepna, sótsvartur og vegur um 1.300 kíló. Við nánari kynni er hann, ótrúlegt en satt, nokkuð kelinn.

„Vísir er geðbesti gripur sem ég veit um. Hvort sem hann er í stíu eða úti í haga með kúm, þá geng ég að honum til að taka létt spjall og klappa honum aðeins, en hann hallar fram og vill láta klappa sér og klóra eins og hundur. Þótt hann sé óhræddur þá virðir hann mann algjörlega,“ segir Jón Örn og bætir við að þrátt fyrir að mörgum hafi brugðið við það verð sem borgað var fyrir hann í upphafi hafi það verið góð fjárfesting. Enda eru áhrifin á hjörð þeirra hjóna mjög jákvæð, flest naut undan Vísi hafa verið seld á aðra bæi sem þarfanaut og eftirspurn er eftir kvígum sem þau hafa þó hingað til að mestu haldið sjálf.

Það þarfanaut sem Jón Örn og Edda héldu eftir undan Vísi er það eina sem þau hafa slátrað undan honum. Fallþyngd þess var 502,3 kíló við 21,7 mánaða aldur og uppskar kjötið gæðaflokkun sem áður var óþekkt á Íslandi, í U+ flokk fyrir þá sem þekkja til holdfyllingaflokka nautakjöts. Þetta sýnir, að sögn Jóns Arnar, þau gæði og miklu vaxtargetu sem nýja erfðaefni Aberdeen Angus gripa frá Noregi gefur kost á og segist sjálfur stefna á að stytta vaxtartímann í 14 mánuði með 320 kg meðalfalli.

„Norðmenn leggja áherslu á mæðraeiginleika og léttan burð í ræktunarstarfi sínu á Angus gripum. Burðarþungi er litlu hærri en hjá íslenska mjólkurkúakyninu. Því liggja í þessu tækifæri fyrir mjólkurframleiðendur að nýta þær kýr sem þeir þurfi ekki kvígur úr til að fá úr þeim Angusblending. Eftirspurn er eftir slíkum gripum til kaups ef þeir vilja ekki ala sjálfir.“

Af rekstrarskilyrðum

Afkoma nautakjötsframleiðslu kemur til tals. „Nautakjöt hérlendis er nær eingöngu framleitt á innlendu fóðri, mest grasi og byggi sem framleitt er heima á bæjum. Allir innviðir eru til staðar: framleiðsluaðstaða, vélar til fóðuröflunar, flutningstæki, framleiðsluvilji bænda, afurða- stöðvar, hæft og menntað kjötiðnaðarfólk, söluleiðir og neytendur, sem vilja meira af vörunni en framleitt er. Út frá þessu hefði maður haldið að hér væri búgrein í blóma en sú undarlega staða er uppi að afkoma hjá meðaltalsbændum í þessari grein hefur verið neikvæð síðustu 5 ár samkvæmt skýrslu RML, svo mjög að framleiðendur hafa að meðaltali greitt 412 kr. með hverju framleiddu kílói á síðasta ári,“ segir Jón Örn.

Hann telur að sexföldun tolllausra innflutningsheimilda á nautakjöti sem gefið var eftir til að liðka fyrir útflutningi á lambakjöti og skyri hafi verið nýtt til að þrýsta niður verði til nautakjötsframleiðenda. Samræmist það staðhæfingu í nýlegri skýrslu spretthóps matvælaráðherra um að frá árinu 2018 hafi afurðaverð til bænda lækkað um 10% á meðan almennt verðlag hafi hækkað um rúm 18%.

„Þörfin til að finna eitthvað nýtt virðist oft yfirsterkari því að halda í það sem er að virka. Þarna var lagður steinn í götu atvinnugreinar sem var að virka. Nú þarf að finna leiðir til að endurheimta það ástand.“
Fyrirsjáanlegt sé að slíkt muni taka tíma en bregðast þurfi strax við. „Bændur hafa brugðist við með hagræðingu á sínum búum en greinilega má sjá á launalið í bókhaldi bænda að lengra verður vart gengið í hagræðingu hjá þeim sjálfum. Takmarkað rými tel ég vera til verðhækkana til neytenda enda hafa þessi utanaðkomandi áföll sem á okkur hafa dunið síðustu rúmu tvö ár komið hart niður á flestum heimilum. Ef vilji er til þess að halda þessari framleiðslu og þeim störfum sem henni tengjast beint og óbeint í landinu, þá þarf að verða hér mikil breyting sem hefst strax og lýkur ekki síðar en í endurskoðun búvörusamninga á næsta ári, 2023,“ segir Jón Örn.

Jón Örn hefur látið til sín taka í félagsmálum, situr m.a. í stjórn NautÍs og Bændasamtakanna. Þótt staða nautabænda sé erfið í dag segir hann að með nýju erfðaefni Aberdeen Angus búi miklir möguleikar til að efla nautakjötsframleiðslu. Það sýndi sig ekki síst þegar kálfur úr framleiðslu hjónanna varð sá fyrsti til að hljóta áður óþekkta gæðaflokkun hér á landi.
Lætur til sín taka í félagsmálum

Samhliða búrekstrinum hefur Jón Örn látið til sín taka í félagsmálum bænda. Vorið 2021 var hann skipaður sem fulltrúi Landsambands kúabænda í stjórn NautÍs, sem á og rekur einangrunarstöð fyrir nautgripi að Stóra-Ármóti. Á síðasta Búnaðarþingi var hann kosinn í stjórn Bændasamtaka Íslands.

„Ég hef mikla ánægju af því að beita mér fyrir hönd bænda. Góður andi ríkir í nýrri stjórn Bændasamtakanna. Við komum úr ólíkum búgreinum en brennum fyrir landbúnað í heild, við eigum hreinskiptin samskipti, horfum til framtíðar og erum fólk framkvæmda.“

Jón Örn telur það mikið gæfuspor að allar búgreinar hafi kosið að sameinast undir merkjum Bændasamtaka Íslands – sameinuð rödd bænda sé sterkari. „Landbúnaður er ein mikilvægasta stoð hvers samfélags. Þeir tímar sem við lifum sýnir okkur að það er ekki jafn sjálfsagt og við vorum farin að venjast að ganga að öllu því sem hugurinn girnist þegar okkur hentar,“ segir Jón Örn

Hann hefur mikla reynslu í gagnavinnslu og gagnagrunnum úr fyrri störfum sínum sem tölvunarfræðingur. Hann sér mikil tækifæri felast í að greina þau gögn sem bændur hafi safnað í gegnum árin með skýrsluskilum svo þau nýtist í búrekstri. „Góð gögn skila meiri skilvirkni og hagkvæmni við framleiðsluna og eru sterkt vopn í hagsmunabaráttu bænda.“

Börn þeirra Jóns Arnar og Eddu una sér vel í sveitinni. Haukur Ingi (11 ára), Dóra María (8 ára) og Arnar Bjarni (6 ára) sækja skóla á Hvolsvelli.

Lausnir með loftslagsvænum landbúnaði

Þegar talinu víkur að loftslagsmálum segist hann takast jákvæður á við þau verkefni sem þeim tengjast. Hann hafi fundið samhljóm með aðilum sem standa að verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður hjá RML, þar sem hans bú er meðal þátttekanda.

„Verkefnin snúa að bættri bústjórn í öllum skilningi og þessi umræða, sem og þær áskoranir sem við tökumst á við í dag með aðföng, ýtir okkur upp úr hjólförum vanans og til að hugsa alla þætti rekstrarins. Það kemur manni á óvart hvað það má oft finna lausnir sem bæði eru jákvæðar fyrir reksturinn og umhverfið,“ segir Jón Örn og nefnir áhuga sinn á að tekin verði upp tækni sem kyngreinir nautasæði hérlendis sem dæmi um slíkt verkefni sem verið er að skoða. Á Nýjabæ eru verkefni eins og bætt beitarstjórnun, stytting á tíma opinna flaga, skjólbeltarækt, uppgræðsla og meiri meðvitund um eldsneytisnotkun meðal verkefna.

Jón Örn segist vera kominn í stjórn Bændasamtakanna til að vinna að hagsmunum landbúnaðarins alls. „Auðvitað er dýpsta þekking mín í þeirri búgrein sem ég stunda en ég hitti formenn búgreinadeilda á vikulegum fundum og hef kynnt mér niðurstöður búgreinaþinga allra deilda. Einnig er ég spenntur að hitta bændur og heyra hvað á þeim brennur á fundum á hringferð stjórnar og starfsfólks BÍ 22.–26. ágúst næstkomandi.“

Skylt efni: holdanaut

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...