Safaríkar nautasteikur svíkja engan
Höfundur: Bjarni Gunnar Kristinsson
Grillvertíðin er í hámarki þessar vikurnar og tilvalið að leyfa sér smá munað. Allir elska steik, toppaða með smjörsteiktum sveppum og nýjum kartöflum.
Íslensku jurtirnar sem hægt er að tína úti í náttúrunni geta gefið grillsteikinni alveg nýtt bragð – sem þó er kunnuglegt. Prófið blóðberg, kerfil og birkilauf næst þegar þið eldið safaríkar steikur. Gamla góða bernaise-sósan fær smá upplyftingu með kerfli. Í lokin er kókoskúluuppskrift sem er gott að eiga í handraðanum þegar íslensku hindberin eru fáanleg.
T-bein steik
Hráefni
- 4 stk. t-bein nautasteikur
- 475 ml nautakjötskraftur (vatn og kraftur)
- 225 g sveppir, sneiddir eða skornir í tvo hluta
- 100 ml rjómi
- 2 matskeiðar smjör
- salt og pipar eftir smekk
Aðferð
Hitið grillið á háan hita. Bræðið smjörið á pönnu yfir miðlungshita. Bætið í sveppum og eldið þar til mesti vökvinn er farinn úr pönnunni. Bætið nautakjötsseyði og hrærið. Sjóðið þar til vökvinn fer að þykkna. Bætið í rjóma og lækkið hitann.
Kryddið t-bone steikur með salti og pipar eftir þörfum. Setjið á grillið og eldið í um 2 mínútur á hlið. Færið síðan á kaldari stað á grillinu.
Haldið áfram að grilla í 5 til 7 mínútur eða þar til steikurnar ná tilætluðum hita, setjið undir álpappír til að kjötið nái að hvíla fyrir skurð um (55–58°C í kjarna).
Þegar steikurnar eru tilbúnar, toppið hverja steik með sveppum og framreiðið með kartöflum. Ef einhver er að rækta vatnakarsa þá væri hann fullkominn með eða bragðmikið klettasalat.
Nauta ribeye með íslenskum jurtum
Hugmyndin er að láta kjötið „hvíla“ í hrúgu af íslenskum jurtum og kryddi til að gefa kjötinu ferskt bragð. Safinn af elduðu kjötinu blandast saman við bragðið af ferskum jurtunum. Þetta gæti verið langbesta steik sem þú átt eftir að gera og það með íslenskum jurtum út náttúrunni.
Hráefni
- 1 stykki þykkur ribeye
- Salt og ferskur malaður pipar
- Ferskur kerfill
- Nokkur birkilauf
- Ólífuolía
- 1 búnt ferskt blóðberg
- Nokkrir sprotar af brumi af barrtré
- Ferskt rautt chili
- 3 hvítlauksgeirar
- 1/2 sítróna
Hitið pönnu eða grill á háan hita. Kryddið steikina rækilega með salti og pipar á öllum hliðum.
Dragið blóðbergið af stilkunum og nuddið inn laufin inn í kjötið. Leyfið kjötinu að hvíla. Fínskerið kerfil, chili og hvítlauk. Setjið á trébretti eða fat.
Kreistið sítrónusafa og smá ólífuolíu yfir jurtirnar. Blandið saman.
Setjið steikina á pönnu eða grill og ekki snúa of oft. Snúið við eftir um 2–3 mínútur og brúnið hina hliðina í aðrar 2–3 mínútur. Látið svo á kaldan stað á grillinu eða lækkið hitann í 80°C á ofninum (þar til hiti nær 57°C ).
Flytjið kjöt á fatið með öllum jurtunum og kryddinu. Látið kjöt hvíla í um 5 mínútur.
Nuddið kryddið inn í kjötið áður en það er skorið og framreitt með meðlæti að eigin vali, til dæmis heimalagaðri bearnaise-sósu sem búið er að setja kerfil í stað extragons.
Kerfill bearnaise
Hráefni
3 stk. eggjarauður
300 ml brætt smjör
1 msk. dijon-sinnep
2 msk. bearnaise kryddlögur (bearnaise essens) eftir smekk
1/2 búnt ferskur kerfill
Eftir smekk salt og pipar
Eftir smekk kjötkraftur
Bræðið smjörið, þeytið eggjarauðurnar og bætið smjöri varlega út í eggjarauðurnar og þeytið vel á meðan. Kryddið með bernaise-essens (kryddlegi), dijon-sinnepi, sítrónusafa, kerfli og salti og pipar eftir smekk.
Fersk íslensk hindber og kókoskúlur
Ef fólk vill hollari kókoskúlur er hægt að vinna saman döðlur og hnetur í stað sykursins. Það gæti þurft að róa vandláta gesti sem eru vanir þessum gömlu góðu, líka er hægt að vera með grófari kókos til að fá skemmtilegt útlit á kúlurnar.
Hráefni
- 2 öskjur fersk hindber
- 100 g smjör
- 1 dl sykur
- 3 dl haframjöl
- 2 msk. kakó
- 1 tsk. vanilludropar
- 1/2 tsk. salt
- (döðlur og hnetur) má sleppa
- kókosmjöl
Öllu hráefninu er blandað saman og hnoðað í skál. Síðan eru mótaðar litlar kúlur, sem að lokum er velt upp úr kókosmjöli. Hver kúla skreytt með fersku hindberi.