Heilsusamlegri húðflúr?
Sögu húðflúra má rekja endalaust aftur, enda ævagömul skreytilist menningar á heimsvísu.
Elsta þekkta dæmi þessarar listar er frá árinu 1991 þegar þýskir ferðamenn gengu fram á lík karlmanns í klakaböndum, við ferðalag sitt í Ölpunum.
Húðflúr á svæðum nálastungu
Kom í ljós að þarna var um ríflega 5.000 ára líkfund að ræða, og eftir nákvæma rannsókn talið að líkið hafi frosið strax eftir dauðann.
Saga mannsins frá bronsöld, (sem fékk nafnið Ötzi) er lengri og merkilegri en einn áhugaverðra punkta er að hann bar hvorki meira né minna en 61 húðflúr, öll í formi lína eða krossa. Ólíkt nútíma húðflúrum voru þau ekki gerð með nál heldur voru þetta fínir skurðir sem muldum viðarkolum var nuddað í. Húðflúrin eru staðsett nálægt rifbeinum hans og mjóhrygg, á úlnlið, hné, kálfa og ökkla og virtust ekki hafa verið gerð til skrauts.
Töldu vísindamenn að þau hafi frekar þjónað læknisfræðilegum tilgangi enda staðsett á stöðum líkamans þar sem bar á töluverðu sliti sem líklega var sársaukafullt.
Því er talið að húðflúrin hafi verið gerð í því skyni að sefa sársauka. Þessi kenning er studd af staðsetningu húðflúranna á nálastungulínum sem eru enn notaðar í dag.
Óðir Íslendingar
Í gegnum tíðina hefur saga húðflúra þróast auðvitað frá bronsöld og muna margir eftir sjóurum í denn sem fengu sig flúraða í höfnum erlendra borga.
Dagblaðið Vísir frá árinu 1982 segir frá Helga nokkrum Aðalsteinssyni sem opnaði fyrstu húðflúrstofu landsins, þá í Hafnarfirði. Var stöðugur straumur á stofu Helga sem hafði vart undan að sinna viðskiptavinunum. Segir Helgi frá því að listina hafi hann lært í Seattle í Bandaríkjunum, en einnig hafði hann setið í spænsku fangelsi og dundað sér þar við að flúra meðfanga sína með afar frumstæðum verkfærum.
Með opnun húðflúrstofu sinnar hérlendis setti Helgi fordæmi fyrir jákvæðri upplifun fólks á húðflúrum, en fram að því voru landsmenn mishrifnir af slíkum skreytingum. Skreytti hann landsþekkt fólk á borð við Björk, KK og Bubba en húðflúræði Íslendinga hófst fyrir alvöru á tíunda áratugnum.
Blekið bannað
Innihaldsefni húðflúrbleks hefur frá upphafi oftast verið gert úr aukaafurðum úr dýrum svo og þungmálmum sem geta valdið alls kyns áhættu.
Eins og staðan er í dag hefur t.d. FDA (Food and drug administration í Bandaríkjunum) enn ekki samþykkt að fullu notkun bleks sem notað er til flúrunar vegna ýmissa alvarlegra aukaverkana og sýkinga.
Í Evrópu (2022) hefur Evrópusambandið lagt bann á þúsundir litarefna sem hugsanlega innihalda krabbameinsvaldandi efni, þar á meðal Blue 15:3 og Green 7, ein helstu tvö blekin í 70% húðflúra.
Þessi tvö litarefni búa til bláan lit, grænan, rauðan, fjólubláan, gulan og hluta af hvítum blæ húðflúra. Þetta kemur eðlilega illa við marga sem telja ESB vera með tvískinnung, enda mun fleiri krabbameinsvaldandi efni til sem leyfð eru.
Náttúrulegri aðferðir endurvaktar
Vegan húðflúrblek á sér tiltölulega nýlega sögu, þar sem fyrsta veganblekið var kynnt í kringum 1980.
Þetta markaði upphafið að breytingu í átt að siðferðilegri og umhverfismeðvitaðri aðferðum til húðflúrunar enda með aukinni eftirspurn urðu örar framfarir í þróun jurtabundinna litarefna fyrir veganblek. Á 21. öldinni jukust vinsældir veganhúðflúra svo jafnt og þétt þar sem æ fleiri einstaklingar leituðu að umhverfis- og siðgæðisvænni valkostum í takt við víðtækari samfélagsbreytingu á heimsvísu.
Lykilmunurinn á venjulegu og vegan húðflúrbleki er í innihaldsefnum þeirra, áhrifum á ofnæmi, auk þess sem hið síðarnefnda er umhverfisvænna og fyrir mörgum í mun meira samræmi við siðferðileg gildi.
Til viðbótar er vegan-blek talið öruggt fyrir húðina og telja margir það ólíklegra til að valda ofnæmisviðbrögðum. Að auki þykir það gefa þéttari lit sem hefur tilhneigingu til að endast lengur.
Vegan húðflúrblek er leið nútímamenningar segja sumir ... en erum við mannkynið ekki enn eina ferðina að nýta okkur aðferðir fyrri tíma? Að minnsta kosti hefur notkun jurtalitar í húðflúr stungið upp kollinum oftar en einu sinni.
Sögur segja að einhvern tíma fyrir kristnitöku hafi Rómverjar staðið í því að húðflúra kappa sína með bláum lit gerðum úr laufum plöntunnar Woad (Isatis tinctoria) sem vex víða um Evrópu og Vestur-Asíu. Með það í huga má minnast sortulyngsbleks sem notað var á Íslandi allt fram á 20. öld, þá m.a. við skrif í skinnbækur. Spurning hvort hægt væri að nota það við húðflúr?