Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Hús leikhússins var vígt sem samkomuhús árið 1936 en hefur verið í eigu
Kómedíuleikhússins síðan árið 2005.
Hús leikhússins var vígt sem samkomuhús árið 1936 en hefur verið í eigu Kómedíuleikhússins síðan árið 2005.
Mynd / Aðsend
Menning 29. maí 2024

Kómedíuleikhúsið

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Í Haukadal í Dýrafirði halda hjónin Marsibil G. Kristjánsdóttir og Elfar Logi Hannesson úti atvinnuleikhúsi nokkru sem ber nafnið Kómedíuleikhúsið.

Hjónin og listamennirnir Marsibil G. Kristjánsdóttir og Elfar Logi Hannes- son eru þekkt fyrir skemmtilegar sýningar sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Í dalnum, þar sem íbúatala er engin samkvæmt viðmælendum, er þó blómleg sumarhúsabyggð og hafa gestir fengið að njóta sérstaks sumarleikhúss Kómedíuleikhússins; leiksýninga, tónleika og sagnaskemmtana svokallaðra. Hjónin, sjálfstæðir listamenn síðan um aldamótin, hafa vakið athygli fyrir verk sín sem eiga það sameiginlegt að vera afar lífleg og listræn.

Segja þau Marsibil og Elfar dagskrá sumarleikhússins í ár vera afar ríka. Leiksýning ársins ber heitið Ariasman og er byggð á samnefndri bók finnska skáldsins Tapio Koivukari sem búsettur hefur verið hérlendis. Fjallar sýningin um einhverja myrkustu sögu Vestfjarða þegar um þrír tugir baskneskra hvalveiðimanna voru myrtir á hrottalegan hátt við strendur landsins. Verða sýningar alla fimmtudaga í júlí og fyrsta fimmtudaginn í ágúst klukkan 20.

Öllu léttara efni er í sýningunni Lífið er lotterí sem verður einnig á fjölum sumarleikhússins í sumar, en þar er á ferðinni söngdagskrá tileinkuð listaskáldinu Jónasi Árnasyni, sýnd miðvikudaginn 10. júlí, föstudagana 12. og 26. júlí svo og laugardaginn 27. júlí kl. 20. Í september verður William Shakespeare tekinn fyrir í þýðingu þriggja Vestfirðinga. Samkvæmt dagskrá verður að deginum til boðið upp á fyrirlestra um Shakespeare, en dagskráin er í samstarfi við safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Áætlað er að gestir færi sig yfir í Kómedíuleikhúsið er fer að kvölda, og hlýði á leiklestur úr verkum skáldsins í vestfirskum þýðingum.

Nokkrir tónleikar verða haldnir í leikhúsinu í sumar, t.a.m. sá fyrsti í höndum vestfirska söngvaskáldsins Svavars Knúts þann 15. júní og um verslunarmannahelgina nk. gleður tónlistarmaðurinn Magnús Þór Sigmundsson nærstadda. Síðar í ágúst heimsækir Sirrý Arnardóttir, fyrirlesari og fjölmiðlamaður dalinn, bæði með fjölskyldustund, svo og fræðslu í tengslum við bók sína, „Þegar kona brotnar“. Einnig er von á dýrfirska skáldinu Margréti Höskuldsdóttur, sem býður upp á sagnaskemmtun. Það gerir einnig sveitungi hennar, Bjarni Guðmundsson frá Kirkjubóli í Dýrafirði, sem ætlar að vera með erindi um sögu Haukadals. Enn annar sagnameistari með dýrfirskar rætur er rithöfundurinn Einar Kárason sem býður upp á sagnaleikinn Heimsmeistarinn.

Sögugöngur verða einnig í boði í sumar, Fransí Biskví þar sem verður farið um slóðir franskra sjómanna sem voru árlegir gestir í Haukadal í um tvær aldir. Síðast en ekki síst verður Gísla Súrssonar-gangan sívinsæla í boði fyrir gönguhrólfa.

Frekari upplýsingar eru á Facebook-síðu Kómedíuleikhússins, auk þess sem miðasölu viðburða má finna á síðunni midix.is.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...