Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Lífið, bæði blítt og strangt ...
Menning 19. júlí 2023

Lífið, bæði blítt og strangt ...

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Hjálmari Jónssyni, kenndum við Bólu.

Hann fæddist á Hallandi í Eyjafirði árið 1796. Hjálmar ólst upp hjá vandalausum og síðar föður sínum, fluttist 1920 að Silfrastöðum í Skagafirði og kynntist þar konu sinni, Guðnýju Ólafsdóttur, en þau voru systrabörn. Eftir viðkomu á Bakka í Öxnadal og Nýjabæ í Austurdal, Skagafirði, fluttu hjónin árið 1829 að Bólu (Bólstaðargerði) í Blönduhlíð, hjáleigu frá Uppsölum. Var Hjálmar eftir það kenndur við Bólu en fór þaðan laust fyrir 1840 eftir ákæru, og sýknu, um sauðaþjófnað. Hann var í húsmennsku eftir að Guðný lést 1845, lengst í Minni-Akragerði í Blönduhlíð og síðar í Grundargerði í nágrenninu. Hjálmar var ágætlega sjálfmenntaður, ekki síst í fornfræðum. Hann var hefðbundið rímnaskáld, fljúgandi hagorður og myndvís, en orti einnig hvassyrt og af íþrótt um eigið líf, samtíð sína og samferðamenn, stjórnvaldið og almættið. Skáldskapur hans var mjög á skjön við þann rómantíska þjóðfrelsisanda sem samtímaskáld hans sum iðkuðu. Listfengur var hann og oddhagur og hafa varðveist eftir hann fagrir útskurðargripir. Hann var jafnan bláfátækur og stóð í stöðugu stríði við allt og alla, jafnt guð og menn. Hann lést í beitarhúsum frá Brekku í Seyluhreppi í júlímánuði 1875. Gröf hans er á Miklabæ, við hlið Guðnýjar. Minnismerki er um Bólu-Hjálmar í minningarlundi við Bólu, frá árinu 1955.

Beinróa

Beinróa heitir partur af túninu á Ökrum. Þar var Hjálmar að slá í sólskini og þurrk, og beit illa.

Beinróa, þú grýtt og glær,
gnagi þig djöfla tennur.
Bölvi þér allt, sem andað fær,
einkanlega sá þig slær,
þar til stálhörð þú til kola brennur.

Raupsaldurinn 1875

Kveðið til gamans í ellinni til að hlæja að.

Lífið, bæði blítt og strangt,
ber nú menjar sínar;
upp að telja ei er langt
íþróttirnar mínar.

Telgdi eg forðum tré með egg,
teygði járn og skírði,
Fjölnis brúðar skóf af skegg,
skeið á vatni stýrði.

Tætti eg ull og bjó úr band,
beitti hjörð um vetur,
heitum kopar hellti í sand,
hjó á fjalir letur.

Dró eg fisk úr veiðivök,
vanur að keipa færi,
streitti oft við steinatök,
þó sterkur ekki væri.

Sneið úr jörðu þarfleg þök,
þrýsti veggjum saman,
ýmsra sagna rakti rök,
rekkum þótti gaman.

Kælandi innlegg í sumarblíðuna þegar smjör drýpur af hverju strái:

Hestarnir í harðindum

Jarpur fyllir svangan sarp,
setur höm í norðanhret,
skarpur drifta veikir varp,
vetur sig ei buga lét.
Hringur lötrar húsin kring,
hanga lætur tóman svang,
bringustór með bógnasting
bangar fold á uslagang.
Hastur fær af hungri köst,
hristir af sér élin byrst,
kastar hóf um klakaröst,
kvistar hjarn af matarlyst.
Skjóni jörkum skefur frón,
skeinum flumbrar brædda hlein,
hrjónur mylur hófa ljón,
hrein í svellum dauðakvein.
Fífill skafla kannar kaf,
krofið er sem grindahrof,
dýfir sér í dauðans haf,
dofinn stendur upp í klof.
Rauður klaka rastir hrauð,
riðar út á fellis hlið,
dauðans vök er orðin auð,
iðar fjör við takmarkið.
Ljáðu, faðir, lýðum ráð,
leiðin bjargar verði greið,
gáðu að þörfin brauðs er bráð,
breiðist móti landi neyð.

Heimild: Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900, Kristján Eiríksson tók saman, Reykjavík 2003. Hjálmar Jónsson frá Bólu, Ritsafn I, Ljóðmæli, Ísafoldarprentsmiðja, 1965.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...