Skugga-Sveinn hefur lifað með þjóðinni
Auðvelt er að ímynda sér að mýmörg leikhúsverk íslensk tengist lífi í sveit og landbúnaði á einhvern hátt.
Ýmis þekkt verk sem snerta á þessu hafa verið sett upp endurtekið hjá áhugaleikfélögum vítt og breitt um landið og sömuleiðis hafa stóru leikhúsin höggvið í þennan knérunn. Því til viðbótar eru útvarpsleikgerðir.
Dæmi um þetta er leikritið Skugga-Sveinn eftir þjóðskáldið Matthías Jochumsson, um einn þekktasta útlaga Íslands og baráttu hans við laganna verði. Verkið var fyrst sett á svið í Reykjavík árið 1862. Varla hefur nokkurt íslenskt leikrit verið leikið oftar hér á landi, mörgum kynslóðum til óblandinnar ánægju.
Fá verk eru sögð verðskulda betur að teljast til sígildra íslenskra leikbókmennta. Litríkar persónur þess, Grasa-Gudda, Gvendur smali og Ketill skrækur hafa lifað með þjóðinni og tekið sér bólfestu í hjarta hennar.
Verkið er alþýðlegur gamanleikur með söngvum og efnið hjátrú, ótti við hið ókunna, ást og hatur. Persónurnar eru dregnar skýrum dráttum og kallast greinilega á við margt af því sem talið hefur verið einkenna íslenska þjóð í gamni og alvöru. Söguþráðurinn rekur handtöku útlaga sem hafast við í óbyggðum. Inn í hann er fléttað ástarsögu bóndadótturinnar Ástu í Dal og Haraldar, ungs pilts sem er í slagtogi með útilegumönnunum en reynist saklaus.
Leikfélag Akureyrar setti Skugga-Svein á fjalirnar fyrir tveimur árum og fóru þá með hlutverk þau Jón Gnarr, Björgvin Franz Gíslason, Sunna Borg, María Pálsdóttir, Árni Beinteinn Árnason, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Vala Fannell og Vilhjálmur B. Bragason.
Hörður Sigurðarson hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga var innan handar við að tína ýmislegt til í leikritum tengdum sveit og sveitastörfum en segir það vera verk á stangli en alls ekki tæmandi lista. Stórt sé spurt þegar ná eigi yfirsýn yfir þetta efni. „Það eru auðvitað fjölmörg leikrit sem tengjast íslenskri sveit á einhvern hátt en mun færri sem tengjast landbúnaði, a.m.k. beint,“ segir hann.
Hér eru nokkur leikrit sem Herði komu til hugar:
- Útilegumennirnir (Skugga-Sveinn) eftir Matthías Jochumsson.
- Útilegumenn eftir Einar Loga Einarsson. Útvarpsleikrit fyrir börn.
- Hrútur stofnar til hjónabands eftir Guðmund Gíslason Hagalín. Útvarpsleikrit 1971. Fjallar um mæðiveikina.
- Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen, leikgerð Emil Thoroddsen.
- Bóndinn á Hrauni eftir Jóhann Sigurjónsson.
- Förunautar eftir Halldór Stefánsson. Útvarpsleikrit 1956.
- Grenið eftir Kjartan Heiðberg. Útvarpsleikrit 1978.
- Gegnum holt og hæðir eftir Herdísi Egilsdóttur. Leikfélag Kópavogs 1979.
- 39 og hálf vika eftir Hrefnu Friðriksdóttur. Frumsýnt hjá Hugleik 2008.
- Bjart með köflum eftir Ólaf Hauk Símonarson. Þjóðleikhúsið 2011.
- Anna frá Stóru-Borg eftir Jón Trausta. Frumsýnt hjá Leikfélagi Austur-Eyfellinga 2014.
- Feigð eftir Ármann Guðmundsson. Hugleikur 2016.