Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Aðskilnaður í Héraði.
Aðskilnaður í Héraði.
Mynd / Stephan Stephensen
Menning 21. júní 2023

Vinnur með englanna urt

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Stephan Stephensen, ljósmyndari, myndlistar- og tónlistarmaður, undirbýr sýningar á verkum sínum annars vegar á Borgarfirði eystra nú í júní og á Höfn í Hornafirði á næsta ári. Hvannir og hreindýr eru meðal viðfangsefna. Hann langar í kjölfarið að fara um landið og ljósmynda bændur.

Stephan Stephensen.

En hver er maðurinn? „Hann er Hafnfirðingur, Parísarbúi, Lónmaður (nei, ekki Lónsmaður) og tilfinningasmiður,“ svarar Stephan sem segist hafa lært til stúdents í Verslunarskólanum og síðan farið hina hefðbundnu leið til Parísar í ljósmyndanám. „Eftir gjöful ár Parísar stefndi hugurinn í kvikmyndatöku við Den Danske Filmskole, en þar gripu örlögin í taumana, björguðu mér frá kónginum og fleygðu mér ósyndum út í ólgusjó Gusgus-hópsins og tónlistarbransans. Tuttugu ár úti um allan heim samfleytt var skemmtilegur tími en ég er meira fyrir lífræna heimaslátrun, svo ég sé alveg hreinskilinn.“

Aðspurður um helstu hugðarefni Stephans í tilverunni segist hann hugsa stanslaust um sjóinn og siglingar, Lónið, Fjallabakið og ekki síst Borgarfjörð eystri. „Svo ég minnist ekki á Hafnarfjörð ógrátandi. Ljósmyndun og tónlist eiga svo afganginn sem kjarnast núna í „Les Aventures de President Bongo“, þessu tíu ára myndlistarverkefni mínu til heiðurs Tinna-bókunum tuttugu og fjórum.

Hvönn og hreindýr

Sýning Stephans á Borgarfirði eystra verður í sýningarrýminu Glettu í Hafnarhúsinu við smábátahöfnina, opnar á þjóðhátíðardaginn 17. júní og stendur fram í miðjan ágúst. Titill hennar er „True Believer“ en hún felur í sér 12 ljósmyndir af hvönninni í Loðmundarfirði, sem Stephan segir vera rammgöldrótta. „Þetta vissu allir, nema ég auðvitað, en konan hans Kalla Sveins, sem ég man ekki alveg hvað heitir, sagði mér þetta í fyrra,“ segir Stephan og bætir við að hann skuldi reyndar Kalla enn þá kryppling fyrir hálft horn. „Á sýningunni gefur þó að líta eina mynd og eina flösku sem breyta öllu og útskýra allt, og texta eftir Ófeig Sigurðsson rithöfund sem feykir manni um aldingarða og alla leið til Ameríku.“ Stephan dvaldi í Loðmundarfirði í þrjá daga við ljósmyndun hvannanna.

Hvað fyrirhugaða sýningu hans í Listasafni Svavars Guðnasonar á Höfn í Hornafirði næsta sumar varðar er það enn umræddur krypplingur (lítil brennivínsflaska) sem þar kemur við sögu. „Krypplingurinn sem ég skulda Kalla Sveins er teppið sem límir þessa sýningu saman; „100 hjörtu á svæði 8“. Sýningin er óður til Austurlands fremur en heimildarljósmyndasýning, sem fer yfir æviskeið hreindýrsins á skotsvæði 8 (Lónsöræfin) en þessi titill er góður. Ég hef verið að mynda og hugsa í þrjú ár en núna er ár í sýninguna og ég kominn með nokkuð fallega sýn á endanlegt verk. Hér verður vínylplata nr. 12 (af 24) í langtímaverkefninu „Les Aventures de President Bongo“ kynnt ásamt ljósmyndum, kvikmynd, skúlptúr og innsetningu. Nema þetta breytist allt?“ spyr Stephan sjálfan sig og segir verkstæði tilfinningasmiðsins opna snemma og loka seint. „Við vinnum mikið, eins og bændur; alltaf á vakt,“ hnýtir hann við.

Vestrahorn úr Lóni.

Langar að ljósmynda bændur

Stephan langar að gera svarthvíta myndaseríu um íslenska bændur. „Það er allt Richard Avedon að kenna. Árin 1979-1984 ferðaðist hann um Bandaríkin og myndaði alls konar fólk,“ segir Stephan. „Richard tók það úr sínu daglega amstri og smellti af mynd. Síðan kom bókin út og ekki síst; fyrir mig – inn í mitt líf. Það var í París 1991. Ég hvet alla til að skoða þetta meistaraverk.

Kannski ég taki eintak með mér til að sannfæra bændurna um ágæti þessarar hugmyndar en í kjölinn er þetta hrein heimild um mannskepnuna; og hver vill ekki vera með í því gúmmelaði?“

Um það hvað Stephan ætlast fyrir að öðru leyti segist hann staddur í miðjunni á margumtöluðu langtímaverkefni sínu, LAPB. „Tólf plötur (vínylplata, ljósmyndasería, texti, kvikmynd og hugmynd) af 24 eru tilbúnar og ég er á tíma miðað við að sú fyrsta kom út 2018. Ætli ég stefni ekki á lokasýninguna 2031 um heim allan og tengi við hátíðarhöldin á 60 ára afmæli forsetans? Annars bara mæta á verkstæðið snemma í fyrramálið, eins og alla daga ársins,“ segir Stephan að lokum.

Sveinn skotmaður.

Englanna urt

Ég sá borg englanna um nótt í gleymdum draumi. Ég leit Los Angeles liggjandi í aftursætinu á þaklausum bíl sem ók eftir yfirgefnu breiðstræti og horfði upp á brunnin pálmatrén og sá að þetta voru hvannir úr öðru lífi. Urtir englanna sem sendiboði Guðs kom með um nótt til verndar og lækningar gegn plágunni. Síðan kom dygð urtarinnar úr höndum sendiboðans þessu villta blómstri í allflesta aldingarða sem mér sýndust brunnin pálmatré. Þeir aldingarðar eru að vísu horfnir og aðeins til í hverfulum draumum og frjósömu minnisleysi í yfirgefnum firði þar sem veröldin hefur snúist á hvolf. Glötuð þekking segir tempran hennar heita og sæta og safinn mótstríði öllum þeim meinum sem mönnum er á móti skapi. Sigtar burt eitrið með hita líkamans og leysir blóðið úr læðingi kvillanna. Frelsar andann, frelsar fegurðina, gerist sjálf sendiboði og verndarengill.

Þessar dygðir drógu mig að henni, harðneskju hennar og sætleika. Hún birtist mér sem frummynd okkar sjálfra, spegill og tilgangur. Ég sá inn um gyllta hliðið inn í raunværða vitund mannsins, inn í náttúruna, drauminn, frjóvgunina og framlag aldingarðsins til festingarinnar sem er bæði villt og stjórnlaus. Ég sá að plægð og mannvit kemur þar hvergi nærri eða herfuð slétta og sáning nema þá sem brunnin pálmatré.

Ég sá að urtin teiknaði upp af innra táknsæi togstreituna á milli nautnar og geldingar í blómunum en í rótinni togaðist á merkingin og röddin í lakanískum skilningi á jarðplógastarfsemi í sundurgreiningu sálarinnar. Ég sá að rótin var styrkur, stöngullinn þekking, laufin vernd og blómið var innblástur. Ég sá að hvert fræ var ósagt orð.

Svo vaknaði ég.

Ófeigur Sigurðsson

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...