Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
„Þetta var mjög góður tími”
Mynd / HG
Líf&Starf 30. júní 2016

„Þetta var mjög góður tími”

Höfundur: Hulda Guðmundsdóttir
Fyrir 60 árum vann fjöldi ungmenna af flestum bæjum í Skorradal að gróðursetningu sitkagrenis, rauðgrenis og furu­trjáa á Stálpastöðum.   
 
„Þetta var eins konar unglingavinna hér í dalnum á þessum tíma,“ segja systurnar Hanna og Hjördís Hannesdætur frá Sarpi og Haukur Engilbertsson á Vatnsenda, sem voru meðal ungmennanna í Skorradal sem fengu vinnu við gróðursetningu hjá Skógræktinni fyrir 60 árum.  
 
Langir vinnudagar
 
,,Þetta var heilmikil og erfið vinna. Við byrjuðum kl. 8 á morgnana og unnum til kl. 7 á kvöldin og til hádegis á laugardögum. Það þurfti að byrja á því að fella allt birkið sem fyrir var. Það var skipun frá Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra en Daníel Kristjánsson, sem þá var verkstjóri hér á Vesturlandi, leyfði okkur samt að skilja eftir stærstu birkitrén,“ segja þremenningarnir og þeim kemur saman um að gott hafi verið að vinna undir stjórn Daníels.  Hópnum var skipt í grisjunarflokk og gróðursetningarflokk og voru 6 strákar í fyrrnefnda hópnum. Þeir söguðu og klipptu birkið og þá kom að gróðursetningarflokkurinn að draga hrísið í lanir. „Við vorum stundum heilu dagana að draga hrís og það var erfitt því við þurftum að stafla því vandlega upp til að lanirnar mynduðu skjól fyrir litlu plönturnar,“ segja þær systur. 
 
Var sárt að sjá birkið fellt?
 
Fyrstu ár gróðursetninga á Stálpastöðum var hlíðin svartröndótt tilsýndar, á meðan birkið var að fúna niður og það sígræna að vaxa upp og víst er að ekki þótti öllum Skorrdælingum það góð umskipti. En ætli unga fólkinu hafi þótt erfitt að fella birkið?
 
,,Við hugsuðum ekki svo mikið um það,“ segja þau Hanna, Hjördís og Haukur. ,,Þetta var í fyrsta skipti sem við sáum pening á ævinni og svo losnuðum við aðeins  undan foreldravaldinu, svo líklega höfum við bara verið eins og unglingarnir í dag – ekkert svo mikið að spá í verkið, heldur meira að hafa gaman af félagsskapnum og ánægð með aurinn.“  Oft var gróðursett í akkorði á þessum árum og fengu ungmennin nokka aura fyrir hverja plöntu. 
 
,,Það var stundum keppst um hver gróðursetti mest,“ segir Haukur, sem segist hæst hafa komist í um 1.950 plöntur á dag.  Notaðir voru hakar við verkið og lengd milli plantna miðaðist við lengd hakaskaftsins. 
 
,,Það kom fyrir að það varð aðeins styttra á milli þegar kappið varð sem mest, enda var búist við því að mikið myndi drepast af plöntunum, en svo lifði þetta bara allt,“ segja þremenningarnir.
 
Ekki spöruð sporin
 
,,Þær urðu margar ferðirnar, upp og niður hlíðina með plöntubúntin, en 50 stykki voru í hverju búnti,“ segja Hanna og Hjördís. En auk þess að þramma alla vikuna upp og ofan hlíðina, sem er býsna brött á köflum, þurftu þær að ganga heiman að frá sér á sunnudagskvöldum og heim eftir vinnu á laugardögum, 12 km hvora leið.
 
,,Manni þótti þetta ekkert tiltökumál,“ segja systurnar. ,,Við vorum vanar að ganga oft milli bæja til að sinna heyskap og ýmsu öðru. Það var allt farið meira og minna gangandi á þessum árum, enda var slóðinn fram dalinn varla meira en kerrutroðningur.“ Þeir sem bjuggu neðar í dalnum komu þó keyrandi og Þórður bóndi í Haga reri á báti sínum yfir Skorradalsvatnið kvölds og morgna þegar hann vann við skógræktina á Stálpastöðum.
 
Sváfu í hlöðunni
 
Aðstaðan sem unga fólkið hafði til gistingar þætti tæpast boðleg í dag. Þröngar kojur voru settar upp í hlöðunni, alls 16, og má enn sjá nokkrar þeirra. 
 
,,Það voru búin til tvö herbergi og forstofa fyrir útifötin. Í öðru sváfu strákarnir og stelpurnar í hinu.“  
Þeir sem líta inn í gömlu hlöðuna á Stálpastöðum munu eflaust furða sig á því að þar hafi verið hægt að koma fyrir svona mörgum, en þremenningarnir segja að það hafi bara farið vel um hópinn, enda komu flestir frá mannmörgum heimilum þar sem búið var við þrengri húsakost en nú gerist. 
 
Þeir sem leggja leið sína um Skorradalinn ættu að staldra við á Stálpastöðum og ganga 150 m upp að gamla bæjarstæðinu. Þar er hægt að skoða hlöðuna sem nú er dulúðlega umlukin hávöxnum skógi sem skorrdælsk ungmenni gróðursettu fyrir 60 árum.
 
Í sumar hefur hlaðan líka fengið það hlutverk að vera að hluta til umgjörð ljósmyndasýningar sem ber heitið Eyðibýli í Skorradal allt árið. Það er ung kona, Kristín Jónsdóttir á Hálsum í Skorradal, sem sýnir þar myndir sínar sem eru, eins og nafnið gefur til kynna, teknar af eyðibýlum í dalnum, því á meðan trén hafa vaxið og dafnað hafa bæirnir lagst í eyði, hver af öðrum. 
Hulda Guðmundsdóttir

3 myndir:

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...