Ef væri ég gullfiskur!
Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf. Biskupstungna var frumsýndur þann 25.mars sl. en þar kynntust áhorfendur eiganda gullfiskabúðar, honum Pétri sem áætlar að láta sig hverfa að næturlagi með fúlgur illa fengins fjár. Sú áætlun gengur þó ekki sem skyldi vegna þess að synir hans uppkomnir, ákveða að kíkja í heimsókn til hans á örlagatíma auk þess sem hinar ýmsu persónur flækjast í málið.
Blaðamaður var boðinn á þessa fyrstu sýningu sem kitlaði hláturtaugarnar sannarlega og má ekki annað segja en að leikararnir hafi allir saman átt stórleik. Þau Hildur María Hilmarsdóttir og Böðvar Þór Unnarsson blómstruðu í hlutverkum Binna og Öldu, Aðalheiður Helgadóttir kom inn á sviðið eins og eldibrandur í hlutverki Stínu og parið Dóri og Eyvi ( Sindri Mjölnir Magnússon og Þórarinn Valgeirsson) voru uppspretta mikils hláturs fyrir túlkun sína.
Leikmynd var fagurlega uppsett, allt frá litavali veggjanna til snúrusíma húseigenda, og mætti reyndar segja að símsvarinn hafi sýnt stórleik og persónulegan þátt í skemmtanagildi sýningarinnar sem fyrir var þó fyllt upp í topp.
Bráðfyndið og lifandi leikrit sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara og greinilega mikil ánægja í gangi hjá áhorfendum sem fylltu salinn.
Miðasala er á tix og við innganginn en hér má næstu sýningar sem áætlaðar eru, en stefnan er sett á 12 sýningar alls.
2. sýning 27. mars Kl 17
3. sýning 30. mars Kl. 20
4. sýning 1. apríl kl. 20
5. sýning 2. apríl kl. 20
6. sýning 3. apríl kl. 17