Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gunnar Gunnsteinsson, í leikstjórn höfundar á Sólrisuhátíð skólans 11. mars í Edinborgarhúsinu.
Í mars er hefð menntaskólans að halda lista- og menningarviku í umsjá nemenda, en hefur hún verið haldin árlega síðan 1975. Sérstök Sólrisunefnd sér um að skipuleggja viðburðina og mikill metnaður er lagður í þá. Á meðan á hátíðinni stendur má geta þess, að meðal annars er rekið útvarpið MÍ-flugan. (mixlr.com/flugan-2020/)
Á Sólrisu eru ýmsar uppákomur alla vikuna en hæst ber uppfærsla leikhóps MÍ sem frumsýnir leikrit í fullri lengd, en það hefur verið árviss viðburður frá árinu 1993.
Verkið „Ekki um ykkur” fjallar um vinahóp sem hittist út á landi í jarðarför eins æskufélaga þeirra – þó lítið sem ekkert samband hafi verið á síðan á unglingsárunum. Að jarðarför lokinni ákveða þau þó að skella sér saman í sumarbústað til að rifja upp gamla tíma en í verkinu er hoppað á milli tveggja tímaskeiða þar sem áhorfendur kynnast hópnum bæði í fortíð og nútíð. Hver kyssti hvern, hver var skotinn í hverjum og svo framvegis.
Alls eru um 20 leikarar í sýningunni, allir nemendur í Menntaskóla Ísafjarðar. Góð aðsókn hefur verið á sýningar en nú fer hver að verða síðastur því sýningum lýkur 19. mars.