250 milljón tonn af CO2
Andfætlingar okkar í Ástralíu hafa undanfarna mánuði barist við gríðarlega runna-, gresju- og skógarelda vegna mikilla þurrka. Reiknuð losun CO2 vegna eldanna eru 250 milljón tonn sem jafngildir um helmingi af árlegri losun álfunnar.
Eldarnir eru mestir í New South Wakes og Queensland og hafa logað síðan í ágúst. Samkvæmt útreikningum er losunin í New South Wakes um 195 milljón tonn og talsvert meiri en í Queensland þar sem losunin er áætluð um 55 milljón tonn. Áætluð heildarlosun í Ástralíu árið 2018 var 532 milljón tonn.
Um 2,7 milljón hektarar af landi hafa brunnið í New South Wakes með geigvænlegum afleiðingum fyrir dýralíf og íbúa svæðisins. Gert er ráð fyrir að eldarnir muni halda áfram þar sem ekki er gert ráð fyrir rigningu á svæðinu á næstunni.
Staðsetning helstu gróðurelda í Ástralíu.
Eldar á gresjum og runnagróðri eru ekki óalgengir þar sem þurrkar eru árlegir og jafnvel nauðsynlegir til að gróður nái að endurnýja sig. CO2 losun við slíka bruna binst yfirleitt fljótt aftur þegar gróðurinn tekur að vaxa á ný.
Öðru máli gegnir um skógarelda þar sem tré eru iðulega lengi að vaxa og getur endurheimt þeirra og binding CO2 í þeim tekið marga áratugi.
Einnig hefur verið bent á að vegna þurrkanna undanfarið hafi dregið verulega úr bindingu gróðurs í Ástralíu á CO2 þar sem vöxtur gróðurs er í lágmarki.