Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hve mikið af t.d. olíu, vatni og náttúrugæðum fer í að framleiða, neyta og farga þessari vöru?
Hve mikið af t.d. olíu, vatni og náttúrugæðum fer í að framleiða, neyta og farga þessari vöru?
Mynd / BBL
Fréttir 30. nóvember 2015

300 lítrar af olíu fyrir eitt kíló kjöts

Höfundur: Ari Trausti Guðmundsson
I Í verksmiðjukenndum stórbúum Bandaríkjanna segja fjölmiðlar að 300 lítra af olíu og nokkur tonn af vatni þurfi til að koma einu kílógrammi af „prime beef“-nautalund til neytanda í New York. Ég hef engar forsendur eða leiðir til að sannreyna upplýsingarnar. Ef þær eru nærri lagi, jafnvel aðeins til hálfs, verður að telja litla glóru í svona búháttum. En hvað þá með okkur hér heima á Fróni? Vitum við hvað þarf mikið af olíu eða vatni til þess að framleiða eitt kílógramm af vinsælustu íslensku kjöttegundunum? Eða af agúrkum og byggi? Nei. Til þess er þá kominn tími. Ein leiðanna er sú að greina hvern þátt framleiðslunnar og meta fjölþætt umhverfisáhrifin sem hlutlægast. Í umhverfisverkfræði og meðal þeirra sem sinna hönnun eða framleiðslu eru til hugtök eins og vistspor, kolefnisspor og vistferilsgreining – life cycle assessment (LCA) á ensku.
 
II Ef gerð er vistferilsgreining  (LCA) á þorskveiðum með botnvörpu og handfærum er fyrirfram augljóst hvor aðferðin hefur stærra vistspor. Engu að síður er gagnlegt að sjá stærðina/muninn, eða öllu heldur umhverfisafleiðingar veiðanna, hvað sem nokkurri og eðlilegri óvissu í mati og útreikningum líður. Visferilsgreiningar eru sem sé notaðar til að meta umhverfisáhrif vöru, framleiðsluferils eða þjónustu „frá vöggu til grafar“. Markmiðið er m.a. að meta hvar í ferli hverrar vöru, ferils eða þjónustu mestu neikvæðu umhverfisáhrifin verða og hvernig megi haga hönnun vörunnar og framleiðslu þannig að þau séu lágmörkuð. Svona greiningu má t.d. nota til þess að bera saman mismunandi valkosti; segjum framleiðslu á repju eða annarri jurt til að framleiða lífdísil. Aðferðafræðin felur í sér skilgreiningu á markmiði, aðgerðareiningu og svokölluðum kerfismörkum. Hún felst í útreikningum á notkun auðlinda og losun efna til andrúmslofts, vatns og jarðvegs og að endingu túlkun niðurstaðna og næmnigreininga. Aðferðir geta verið nokkuð ólíkar og til er hugbúnaður til að vinna með. Að greiningu lokinni eru niðurstöður túlkaðar og settar fram eftir skilgreindum reglum svo ljóst sé öllum hverjar niðurstöður eru. Langi einhvern að skoða nokkuð stutta skýrslu um LCA á plasti má benda á þessa: http://www.urvinnslusjodur.is/media/skyrslur/Visferilsgreining_fyrir_umbudir_-_lokaskyrsla_18_04_2006.pdf
 
III Heildræn hugsun eins og sú sem liggur að baki vistferilsgreiningu er fremur ný af nálinni. Þegar mengun lofts í þéttbýli, svo eitthvað sé nefnt, skortur á hreinu vatni og eyðing efna með urðun í stað endurvinnslu tók að valda mönnum bæði áhyggjum og fjártapi, var LCA þróuð. Við gerð lífsferilsgreiningar eru ýmis álitamál og erfitt getur verið að meta hlutlægt einhvern greiningarþátt eða mörk sem einhverju matskerfi eru sett, einfaldlega vegna vafa eða tvímælis. Vistspor eða kolefnisspor eru aftur á móti metin/ákvörðuð eftir því hversu mikið af náttúrugæðum eru notuð við að búa til og nota tiltekna vöru og hversu miklum úrgangi eða mengun skilað er út í umhverfið við notkun hennar eða neyslu. Vistspor geta varðað bara einn þátt, t.d. vatnsnotkun, líkt og kolefnisspor, en vistspor er einnig hægt að ákvarða með fleiri breytum.
 
IV Ef ætti að kanna vistferil landbúnaðarvöru, t.d. íslensks camembert-osts, er að mörgu að hyggja. Hvar byrjum við? Reynum að ímynda okkur langan lista: Ferill mjólkurkýr frá kálfi til mjólkandi dýrs, framleiðsla og flutningur fóðurs, fóðrunin sjálf, mjaltir, fjósadvöl, umsýsla með kúnni, vatnsöflun og neysla, mjaltir, geymsla mjólkur, mjólkurflutningar, mjólkurvinnsla við ostagerð, ostagerðin sjálf, pökkun, flutningur vörunnar o.s.frv. Svo mætti vinna það sama fyrir sam­bærilegan franskan ost, bæði heima fyrir og hingað kominn. Hvor ætti sér umhverfisvænni vistferil? Ef íslensk agúrka og hollensk væri tekin svona „í bakaríið“, hvað ætli þá kæmi út? Í sumum tilvikum er vistferilsgreining mun flóknari en ella. Til dæmis væri því eflaust þannig varið þar sem frjáls afréttarbeit sauðfjár og umhverfisáhrif hennar, auk smölunar væri tekin með í reikninginn.
 
V Væntanlega myndu vistferilsgreiningar fyrir margar af lykilvörum íslensks landbúnaðar ekki aðeins vera forvitnilegar heldur og mikilvægar til samanburðar á þeim og innfluttum vörum. Þar koma oft langar flutningsleiðir og orkufrekur flutningur til sögu. Framlögð slík greining eða upplýsingar um vistspor eða kolefnisspor nokkurra vara hefðu skýr áhrif á umræðu um innflutning landbúnaðarvara í einn stað og heimafenginn bagga í annan. Útilokað er að skella skollaeyrum við umhverfistengda gagnrýni á innflutning landbúnaðarvöru. Ástæðan er einföld: Það er í hag almennings að vinna gegn umhverfisvá af völdum kolefnislosunar, ekki síður en það er honum hagfellt að geta keypt erlenda og innflutta matvöru á hagstæðu verði. Þá er einmitt meira falið í orðinu „hagstæðu“ en allsberar krónur og jafn berstrípaðir aurar. Í orðinu leynist ávinningur af því að reiða ekki fram nautakjötið sem nefnt var hér að ofan með ókjörum af dísilolíu, og losun gróðurhúsagasa, misgrænni raforku, korni, vatni, metanlosun og plastförgun, heldur nærtækari og umhverfisvænni vöru. Allt leiðir þetta hugann að svokölluðu grænu bókhaldi helstu fyrirtækja í framleiðslu, innflutningi og sölu landbúnaðarafurða á Íslandi. Best að auglýsa eftir því.
Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...