480 milljónir króna í sekt vegna markaðsmisnotkunar
Landsdómur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Mjólkursamsölunni beri að greiða ríkinu 480 milljónir króna í sekt vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu. MS mun áfrýja til Hæstaréttar.
Sektin er til komin af því að Mjólkursamsalan seldi keppinautum sínum hrámjólk á hærra verði en til tengdra aðila og dótturfélaga. Mjólkursamsalan mun áfrýja málinu til Hæstaréttar, að sögn Elínar M. Stefánsdóttur, stjórnarformanns MS.
MS mun áfrýja til hæstaréttar
Elín M. Stefánsdóttir, stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar, segir í svari til Bændablaðsins vegna fyrirspurnar um niðurstöðu Landsdóms að hún komi sér á óvart.
„Þessi niðurstaða kemur á óvart, enda telur fyrirtækið sig hafa farið að öllu leyti að lögum við framkvæmd á samstarfi til að hagræða og lækka verð á mjólkurvörum til neytenda. Við teljum að túlkun Landsréttar á ákvæðum búvörulaga skapi mikla óvissu um heimildir afurðastöðva í mjólkuriðnaði til að hagræða og lækka vöruverð með verkaskiptingu.
Slík verkaskipting fæst ekki staðist nema með jöfnun framlegðar á milli þeirra aðila sem í henni taka þátt og það þarf að vera óháð því hversu háa framlegð einstakar vörur gefa af sér.
Við lítum því ekki á þetta sem endanlega niðurstöðu í málinu og munum leita eftir heimild til áfrýjunar til Hæstaréttar.“
Úr dómi Landsréttar
Í dómi Landsréttar segir meðal annars að varðandi fjárhæð sektarinnar er litið til þess að brot aðalstefnanda er alvarlegt og stóð í langan tíma og að brotið varðaði vinnslu á mikilvægri neysluvöru og voru aðgerðir aðalstefnanda fallnar til að skaða samkeppni og neytendur með alvarlegum hætti. Þá er litið til þess að um ítrekað brot er að ræða, samanber úrskurð áfrýjunarnefndarinnar 14. desember 2006 í máli nr. 8/2006. Samkvæmt samkeppnislögum getur sekt numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarár þeirra sem aðild eiga að brotinu.
Mun heildarvelta aðalstefnanda árið 2015 hafa verið um það bil 26,7 milljarðar króna. Sekt gagnstefnanda nemur um það bil 1,6% af veltunni, sem telja verður hóflegt þegar litið er til heimildar. Verður aðalstefnanda því gert að greiða 440 miljónir króna í sekt.