800.000 hektarar af skóglendi eldi að bráð
Gríðarlegir skógareldar geisa í kjölfar óvenjulegrar hitabylgju í Síberíu. Stjórnvöld í landinu beita stórum sem litlum herflugvélum í baráttunni við eldana sem þegar hafa lagt undir sig 800 þúsund hektara af skóglendi.
Rússneski herinn hefur undanfarnar vikur sent sérbúnar vatnsflutningaflugvélar, Ilyushin Il-76, í þúsundir leiðangra til að reyna að slökkva eldana auk þess sem þúsundir her- og slökkviliðsmanna berjast við eldana á jörðinni.
Þúsundir her- og slökkviliðsmanna auk óbreyttra borgara berjast við skógarelda í Síberíu.
Íbúar biðja um aukna aðstoð
Íbúar í Jakútíu-borg, sem er á túndru eða sífrera, hafa orðið hvað verst úti í eldunum og reyknum sem honum fylgir og segja að verkir í lungum séu algengir og óttast að skemmdir á lungum séu óendurkræfar og hafa beðið Pútín forseta að senda aukinn tækjabúnað og fleiri hermenn til að berjast við eldana.
Þurrkar í Jakútíu hafa aldrei verið meiri en það sem af er sumri og hitastig í borginni náði 30 ° á Celsíus í júní en að öllu jöfnu er borgin flokkuð með þeim köldustu í heimi.
Þiðnun sífrerans
Vísindamenn í Rússlandi og víðar um heim hafa lýst yfir áhyggjum sínum um að eldarnir í Síberíu geti valdið þiðnun í sífrera svæðisins og í kjölfarið muni mikið magn af koltvísýringi losna úr læðingi og um leið bæta enn frekar í ógnina sem nú þegar stafar af hlýnun jarðar. Auk þess sem aska sem leggst yfir snjó á nærliggjandi svæðum eykur á þiðnun. Hitabylgjur í Rússlandi undanfarin ár hafa slegið hvert hitametið af öðru og í júní síðastliðinn náði hiti í Moskvu 34,7 ° á Celsíus sem er mesti hiti sem mælst hefur í borginni í 120 ár.
Talið er að losun koltvísýrings vegna eldanna síðustu sex vikur hafi jafngilt árlegri losun Venesúela.