90.000 krónur á mánuði með hverju barni
Mýrdalshreppur greiðir sérstakar heimagreiðslur til forráðamanna barna sem bíða eftir leikskólavist í sveitarfélaginu.
Einstæðir foreldrar eiga rétt á heimagreiðslu þegar barn nær 9 mánaða aldri en foreldrar í hjúskap eða sambúð þegar barn nær 12 mánaða aldri. Heimagreiðslur eru kr. 90.000 á mánuði með hverju barni. Greiðslur þessar eru endurskoðaðar árlega.
„Nú eru sex börn á biðlista á leikskólanum. Við starfrækjum forskóla við grunnskólann, sem varð til þess að létta nokkuð á biðlistanum og ég er vongóður um að geta saxað á hann á næstu vikum og mánuðum, en það eru þó líkur til þess að það bætist líka fleiri börn við,“ segir Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri.
Samband íslenskra sveitarfélaga er ekki með stefnu hvað varðar heimagreiðslur til foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi fyrir barn sitt. „Fá sveitarfélög eru með slíkar greiðslur en ég veit að þetta er eitt af því sem mörg þeirra eru að skoða.
Fleiri leggja áherslu á að byggja upp leikskóla og sum sveitarfélög geta boðið leikskóla frá 9 mánaða aldri og allmörg frá 12 mánaða en þetta er risaverkefni,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður sambandsins, aðspurð um málið.