Aðgerðaáætlun gefin út
Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir landbúnaðarstefnuna sem samþykkt var á Alþingi í júní 2023
Landbúnaðarstefnan gildir til 2040 og veitir framtíðarsýn stjórnvalda fyrir íslenskan landbúnað.
Áætlunin samanstendur af tíu eftirtöldum efnisköflum og mismörgum aðgerðum undir hverjum þeirra en alls eru aðgerðirnar 28 talsins; fæðuöryggi, loftslagsmál, líffræðileg fjölbreytni, landnýting og varðveisla landbúnaðarlands, hringrásarhagkerfi, alþjóðleg markaðsmál, neytendur, nýsköpun og tækni, menntun, rannsóknir og þróun og fyrirkomulag stuðnings við landbúnað.
Sjálfbær þróun
Meginmarkmið stefnunnar eru að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Í tilkynningu matvælaráðuneytisins kemur fram að áætluninni sé ætlað að ná yfir þau verkefni landbúnaðarstefnunnar sem eru á forræði matvælaráðuneytisins og verða í forgangi á tímabilinu. Aðgerðirnar séu ekki settar fram í forgangsröðun heldur er uppröðun aðgerðanna í samræmi við uppbyggingu landbúnaðarstefnunnar sjálfrar.
Tillögur að nýjum aðgerðum
Drög að áætluninni voru í opnu samráði frá 29. febrúar til 2. apríl á þessu ári og bárust alls 15 umsagnir. Þar komu fram tillögur að mörgum nýjum aðgerðum, meðal annars um hringrásarhagkerfið, merkingar matvæla og líffræðilega fjölbreytni.
Í tilkynningunni kemur enn fremur fram að við gerð áætlunarinnar hafi verið lögð áhersla á að setja fram afmarkaðar og tímasettar aðgerðir með raunhæfri tímaáætlun.