Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki
Nýtt fyrirtæki vill koma sér fyrir á gasmarkaði á Íslandi og hefur hug á að útvega fljótandi koltvísýring til endursölu til garðyrkjubænda og annarra framleiðslufyrirtækja. Þó hefur það ekki gengið þrautalaust fyrir sig.
„Veldix stendur ekki til boða að kaupa hráefni í Evrópu til endursölu á Íslandi sem bendir til þess að fákeppnin nái lengra en til Íslands. Svo virðist sem tvö til þrjú fyrirtæki stýri nær öllum gasmarkaði á Vesturlöndum og skipti honum á milli sín,“ segir Ívar Örn Lárusson, framkvæmdastjóri Veldix, sem er nýtt fyrirtæki á gasmarkaði á Íslandi.
„Niðurstaðan varð því sú að Veldix framleiðir bæði hylki og flytur inn gas frá Asíu. Við sáum ekki leið fram hjá evrópsku einokuninni öðruvísi,“ segir hann. Í upphafi átti Veldix í viðræðum við birgja í Benelúx um innflutning á gasi. „En þegar erlendu birgjarnir komust að því að við vildum fá gámana senda til Íslands til endursölu þá hættu þeir fyrirvaralaust samningaviðræðunum.“
Flutningur dýrari en gasið
Tæp tvö ár eru síðan Ívar hóf undirbúning að rekstri Veldix en sala á fyrstu vörum fyrirtækisins, hlífðargas fyrir suðu, fór af stað fyrir örfáum vikum. „Fleiri vöruflokkar muni bætast við á árinu, til að mynda súrefni, asetýlen, CO2, nitro og fleira. Um mitt árið 2025 gerum við ráð fyrir að starfsemin verði komin á fullt skrið og allar vörur í boði séu lagervara,“ segir hann.
Ívar segir augljóst óhagræði fólgið í því að flytja gasið frá Asíu, enda flutningskostnaðurinn meira en tífalt dýrari en sjálft gasið. Þá hafi aðeins eitt flutningsfyrirtæki verið tilbúið til að flytja varninginn til Íslands hingað til.
Tilgangurinn sé þó að gera atlögu að því að skapa samkeppni hér á landi og meðal annars beina sjónum að fljótandi koltvísýringi. Viðvarandi skortur á framboði á honum hefur haft áhrif á garðyrkjuframleiðendur á Íslandi og hafa bændur gagnrýnt fyrirtækið Linde Gas fyrir að standa ekki við skuldbindingar sínar gagnvart þeim. Þar sem Linde Gas er eitt um að útvega kolsýru á Íslandi hafa þeir sem þurfa á fljótandi koltvísýringi að halda ekki getað leitað annað.
„Við erum tilbúin að taka þátt í því að búa til samkeppnishæfan markað með garðyrkjubændum og reka okkar fyrirtæki með lágmarks framlegð á þessu sviði. Í dag er Veldix að leita að innlendum koltvísýringi til vinnslu og endursölu en það er takmörkuð auðlind hér á landi sem ekki stendur öllum til boða að nýta,“ segir Ívar.
Hafa ekki fengið úthlutaðri lóð í Ölfusi
Ívar óskaði eftir því í maí síðastliðnum að Veldix fengi úthlutaðri lóð fyrir starfsemi sína í Þorlákshöfn, þar sem þau hyggjast reisa súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðju til að þjónusta m.a. landeldisfyrirtækin sem þar er verið að byggja upp.
„Við sendum inn formlega lóðaumsókn í vor til að setja upp verksmiðju en höfum ekki fengið nein svör um hvort af verði enn sem komið er. Ég fæ þau svör að þeir séu komnir í þá jákvæðu stöðu að það sé eftirspurn eftir lóðum og að mikilvægt sé að vanda til við lóðaúthlutun þannig að allir sitji við sama borð,“ segir Ívar. Hann furðar sig á því að þekkingarsetrið Ölfus Cluster sé fengið til að svara til um skipulagsmál fyrir hönd sveitarfélagsins Ölfuss.
Svo vill til að fyrirtækið Linde Gas varð stofnfélagi Ölfus Cluster árið 2022, um ári eftir að þekkingarsetrið var stofnað. Elliði Vignisson, sveitarstjóri Ölfuss, lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu þann 8. ágúst sl. að Linde Gas hyggist framleiða súrefni fyrir gróðurhús og fiskeldi í sveitarfélaginu og setti það á lista verkefna í vinnslu. Linde Gas hefur hins vegar ekki fengið úthlutaðri lóð í sveitarfélaginu og hvergi hefur verið minnst á Veldix í þessu samhengi.
Deiliskipuleggja ákjósanlegar lóðir
Páll Marvin Jónsson, framkvæmdastjóri Ölfus Cluster, segir að þekkingarsetrið hafi ekkert skipulagsvald innan sveitarfélagsins Ölfuss. „Við aftur á móti reynum að aðstoða þau fyrirtæki og frumkvöðla sem til okkar leita og vilja byggja upp sína starfsemi hér í Ölfusi. Eins og gefur að skilja þá eru það mjög oft spurningar sem snúa að skipulagsmálum.“
Hann segir tvö fyrirtæki hafa leitað til þeirra og rætt möguleikann á að byggja upp súrefnisframleiðslu. „Við höfum aðstoðað þessi tvö fyrirtæki eftir bestu getu og átt í góðum samskiptum við þau bæði. Við teljum mjög svo æskilegt að fá súrefnisverksmiðju á svæðið enda stefnir í að um 100 þúsund tonn af laxi verði þarna í eldiskerum.“
Hann segir að sveitarfélagið hafi sett af stað vinnu við að deiluskipuleggja land milli Laxabrautar 31 og 33 sem hann segir ákjósanlega staðsetningu fyrir slíka verksmiðju, enda á milli lóða tveggja landeldisfyrirtækja. „Mér skilst að þarna eigi að deiliskipuleggja allt að fimm lóðir og á að auglýsa þær til úthlutunar um leið og þeirri vinnu er lokið.“