Áfengur rjómadrykkur úr íslenskri mjólk
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Verkefnið gengur ótrúlega vel, allar tilraunir og allt sem fylgir svona nýjung hefur komið ótrúlega vel út. Ef allt gengur að óskum þá vonast ég til að drykkurinn geti farið á markað eftir nokkra mánuði,“ segir Pétur Pétursson mjólkurfræðingur.
Hann er að þróa 18% rjómalíkjör úr íslenskri mjólk með ethanol úr íslenskri ostamysu á markað. Pétur fékk styrk frá verkefninu „Mjólk í mörgum myndum“ á síðasta ári við að vinna að hugmynd sinni. Verkefnið er á vegum Auðhumlu og Matís sem veitir nýsköpunarstyrki til að þróa nýjar vörur úr mjólk. Drykkur Péturs heitir Jökla sem yrði fyrsti íslenski rjómalíkjörinn unninn úr íslenskri mjólk og með ethanol úr íslenskri ostamysu frá Heilsuprótein ehf.
„Jökla er alfarið hugmynd mín þar sem hann nýtir sérþekkingu mína á sviði mjólkurframleiðslu og áratuga reynslu af sölu á landbúnaðarvörum til bænda,“ segir Pétur stoltur og ánægður með nýja rjómalíkjörinn.