Afstaða framboða til landbúnaðarmálefna
Viljir þú fræðast um áherslur framboðanna í landbúnaðarmálum ættir þú að leggja hlustir við þáttaseríuna Afstaða x21 á Hlöðunni, hlaðvarpi Bændablaðsins.
Íslendingar ganga að kjörborðinu þann 25. september næstkomandi og kjósa fulltrúa sína á Alþingi til næstu fjögurra ára. Afstaða stjórnmálaflokkanna til hinna ýmsu málefna sem snerta landbúnað er okkur hjá Bændablaðinu hugleikinn. Brugðum við á það ráð að bjóða einum fulltrúa frá hverju framboði að setjast niður með Guðrúnu Huldu Pálsdóttur, blaðamanni, í hljóðveri Hlöðunnar, hlaðvarpi Bændablaðsins og leggja fyrir þau spurningar sem varpa ljósi á áherslumál framboðanna þegar kemur að landbúnaði.
Öll serían er nú aðgengileg hér á vefsíðu Bændablaðsins og á öllum helstu streymisveitum, s.s. á Spotify og Apple Podcast.
Allir viðmælendur fengu sendan sama spurningalista. Svör þeirra endurspegla þær stefnur og skoðanir sem þau og þeirra flokkur ætla að beita sér fyrir á næsta kjörtímabili.
Hvaða leiðir sjá þau til að bæta afkomu bænda? Hvernig á fyrirkomulag opinbers stuðnings til landbúnaðar að vera háttað? Hvernig á ríkið að styðja við umhverfisstefnu bænda? Hver á stefna ríkisins að vera með búsetu á ríkisjörðum? Hvernig á að tryggja fæðuöryggi í landinu?
Svör við þessum spurningum og mörgum öðrum má finna í þáttaröðinni Afstaða x21.
Hér er listi yfir viðmælendur Guðrúnar Huldu en hægt er að nálgast hvern þátt með því að smella á nöfn viðmælenda.
- Flokkur fólksins: Ásthildur Lóa Þórsdóttir
- Framsókn: Sigurður Ingi Jóhannsson
- Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn: Guðmundur Franklín Jónsson
- Miðflokkurinn: Erna Bjarnadóttir
- Píratar: Magnús Norðdahl
- Samfylking: Valgarður Lyngdal Jónsson
- Sjálfstæðisflokkurinn: Haraldur Benediktsson
- Sósíalistaflokkurinn: Guðmundur Auðunsson
- Viðreisn: Axel Sigurðsson
- Vinstri græn: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir