Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Hjónin Ólína Þóra Friðriksdóttir og Eiríkur Jónsson í fjárhúsunum í Gýgjarhólskoti.
Hjónin Ólína Þóra Friðriksdóttir og Eiríkur Jónsson í fjárhúsunum í Gýgjarhólskoti.
Mynd / smh
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauðfjárræktarinnar fyrir skemmstu, en búið hefur í níu ár af síðustu tíu verið það afurðamesta á landinu.

Hjónin Ólína Þóra Friðriksdóttir og Eiríkur Jónsson veittu Halldórsskildinum viðtöku af því tilefni, sem kenndur er við Halldór Pálsson, fyrrverandi búnaðarmálastjóra.

Eiríkur segir að viðurkenningin hafi að vissu leyti komið á óvart. „Já, þannig séð. Ég hafði í raun ekkert spáð í hvernig þetta væri metið.“

Heildarmat kynbótamats

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), kynnti val fagráðs í sauðfjárrækt þar sem fram kom að búið hefði trónað efst á þeim lista búa sem hafi uppfyllt skilyrði í valinu. Valið grundvallist á heildarmati kynbótamats, þar sem reiknuð er meðaleinkunn fyrir hvert bú fyrir ær fæddar á tímabilinu frá 2013 til 2022. Til þess að búið komi til álita þurfi það að uppfylla ýmsar kröfur, meðal annars um afurðir í takt við núgildandi ræktunarmarkmið og komast inn á lista yfir úrvalsbú sem tekinn er saman af RML ár hvert.

Nálgast ræktunina mjög tölulega

„Við hljótum að vera að gera eitthvað rétt,“ segir Eiríkur spurður frekar um viðurkenninguna. „Við höfum nálgast ræktunina mjög tölulega. Við setjum til dæmis mikið á eftir útreiknuðu kynbótamati og veljum sæðingahrúta mikið eftir kynbótamatinu á þeim. Við horfum ekkert sérstaklega á myndina af þeim, látum ekki glepjast af útlitinu. Við búum til formúlur, tökum mið af kynbótamati fyrir alla eiginleika sem við setjum tiltekið vægi á, sem og ómmælingu og stigun.

Út úr þessu fáum við svo einhverja meðaleinkunn sem við röðum eftir, en gerum ráð fyrir einhverjum örlitlum sveigjanleika í þessu. Ég hugsa að við séum miklu meira í þessari tölulegu nákvæmni heldur en flestir aðrir sauðfjárbændur. Til dæmis hef ég ekki það næmi sem þarf til að þukla hrúta og svoleiðis – og ekkert þjálfað mig í því. Ég læt ráðunautana um það og nota svo tölurnar sem koma út úr því. Annars er ég reyndar nánast hættur að fá að ráða nokkru,“ segir Eiríkur og vísar þar til þess að helmingur búsins er nú kominn í hendur á systurdóttur hans, Maríu Þórunni Jónsdóttur, og hennar manni, Mads Stub Jörgensen, sem búi á Gýgjarhóli. Þá hafi sonur hans, Jón Hjalti, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, komið af krafti inn í ræktunarstarfið á síðustu árum með mikla þekkingu.

Væn lömb í samanburði við landsmeðaltal

Að sögn Eiríks var framan af lögð mikil áhersla á ræktun gegn fitunni. „Kannski gengum við lengra í því en mjög margir. Lömbin hér hafa gjarnan verið væn í samanburði við landsmeðaltalið. En með nýjum áherslum í ræktun gegn riðu þá hafa komið hingað hrútar sem eru ekki eins fitulitlir og þeir sem við höfum haft, þannig að við förum aðeins til baka í því og nálgumst landsmeðaltalið í þeim eiginleika aftur. Það er í góðu lagi, af því að við vorum komin það langt áður.

Við lögðum líka sérstaka áherslu á frjósemi framan af, en það er farið að minnka núna. Það er komin alveg næg frjósemi í hjörðina.“

Tilfelli af Nor98

Í Gýgjarhólskoti var skorið niður vegna riðutilfellis árið 2004. Það var vegna afbrigðisins Nor98, en í þá daga voru viðbrögðin hin sömu og við hefðbundnu riðutilfelli, að allri hjörðinni var fargað. Í dag er hins vegar viðurkennt á alþjóðavísu að þetta afbrigði smitast ekki á milli kinda þannig að viðbrögð við slíkum tilfellum er að auka eftirlit með bænum og taka sýni úr öllum fullorðnum kindum sem lógað er eða slátrað í fimm ár á eftir.

„Við fórum svo í fjárskipti eftir niðurskurð og það kemur nýtt fé hingað árið 2006. Við fengum ágætis fé og það gekk nokkuð hratt að byggja upp nýja hjörð. Ég fékk nú eiginlega seljendurna bara til að velja féð fyrir mig. Mest kom það af Ströndunum, Hólmavíkurhreppi; einum sjö bæjum á svæðinu.

Spurður út í hvernig hann hugsi sér nánustu framtíð í Gýgjarhólskoti, segir Eiríkur að ekki standi annað til en að halda bara sínu striki. „Við höfum lengi verið með ásett hér sama fjölda og dagar eru í árinu. En um tíma var þó færra hér fyrir margt löngu og fór niður í 300 í kringum 1990–en fór svo upp í það sem áður var þegar slakað var á varðandi framleiðslutakmarkanir.“

Gýgjarhólskot í Biskupstungum

Áhersla á afurðasamt fé

Í máli Eyþórs Einarssonar á fagfundinum kom fram að afurðirnar í Gýgjarhólskoti væru gríðarlega miklar í samanburði við landsmeðaltal, voru á síðasta ári 47,1 kíló eftir hverja á en landsmeðaltalið um 28 kíló. Eiríkur segir að auðvitað hafi verið lögð áhersla á afurðasamt fé. „Síðan skiptir máli að það hafi góða beit og haustbötun. Við sendum lömbin líka mjög seint til slátrunar, þetta flokkast ágætlega hjá okkur orðið þannig að við fáum ásættanlega greitt fyrir okkar afurðir miðað við allt.

Það er mikilvægt að það sé á góðri beit alveg til enda. Sérstaklega með hrútlömbin, að það komi ekki hrútabragð til dæmis sem hætta væri á ef beitin myndi minnka,“ segir Eiríkur.

Framleiðslurútína vegna endurræktunarmála

Hann segist beita fénu á haustin álandþarsemhannsémeðtúní endurræktun og hann sé með kál á því landi. „Það er mikið grjót í túnum hérna, þannig að við þurfum að taka nokkur ár í endurræktun þeirra. Á fyrsta ári stendur grjót upp úr öllu og þá er ekkert hægt að slétta það að neinu ráði en lömbin geta alveg bitið í kringum steinana. Við fórum í raun út í þessa framleiðslurútínu vegna þessara endurræktunarmála.

Á fyrsta ári plægi ég þetta og fer kannski með herfi yfir eða ekki og sái svo bara káli í þetta. Næsta ár er þá kannski bara herfað og sáð aftur káli í. Á þriðja árinu er plægt aftur og þá er torfið eða grasrótin orðin svo fúin að ég get rakað saman grjóti án þess að raka torfi saman við það líka. Svo er gott að nýta skítinn í flögin, til að flýta fyrir því að þeim sé lokað.“

Kállömbin eru dýrindis hráefni

Eftir réttir eru lömbin sem fyrr segir sett á kál til áframhaldandi bötunar. „Það er talsvert af fólki sem trúir því að kjöt af káli sé eitthvað verra en annað kjöt,“ segir Eiríkur.

„Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið rannsakað sérstaklega, sumsé munurinn á bragðgæðunum. Vafalaust er einhver munur á eiginleikunum en það er ekki okkar reynsla að þetta sé eitthvað verra kjöt. Ég hef stundum bent á að jafnvel fólk borðar kál og þykir gott. Menn tengdu slíka beit líka við fitusöfnun, en við erum með féð á góðum haga og það er í raun ótrúlega lítil fitusöfnun sem verður í þessari bötun miðað við hvað skrokkarnir eru orðnir stórir.“

Ólína skýtur inn í samræðurnar að hún hafi flutt í Kotið árið 2018 full af fordómum um „kállömbin í Kotinu“. Hún hafi hins vegar þurft að éta þá ofan í sig, því þetta hafi reynst vera hinn besti matur.

„Við tökum heim, látum velja fyrir okkur í sláturhúsinu ákveðinn flokk og svo fáum við bara þverskurðinn af því sem við erum að selja. Við borðum þetta allan ársins hring með bestu lyst og ég elda þetta á allan mögulegan máta. Þetta er mikið dýrindis hráefni.“

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...