Ágreiningur um ágang
Stofnstærð álfta og heiðagæsa hefur stækkað töluvert og bændur verða varir við mikla ásókn stórra hópa geldfugla á tún og akra sem eru þeim til ama.
Í sumar sótti Hákon Bjarki Harðarson, bóndi á Svertingsstöðum 2 í Eyjafjarðarsveit, um undanþágu frá verndarlögum að skjóta allt að fimm fugla í þeim tilgangi að fæla frá þaulsetinn álftahóp en fékk höfnun. Hann sér lítinn tilgang í að sækja um styrk vegna tjóns af völdum ágangs því ef tjónabætur eru samþykktar fellur jarðræktarstyrkur niður á móti og sama upphæð fæst vegna tjóns.
Eiríkur Egilsson, bóndi á Seljavöllum í Nesjum, segist heldur ekki sækja um tjónabætur enda liggi kostnaðurinn í efni og vinnu við að afstýra búsifjum frekar en að verða fyrir tjóni.
Fjórum sinnum í röð hefur verið lögð fyrir Alþingi þingsályktunar- tillaga um tímabundið leyfi til veiða en málið hefur ekki fengið brautargengi.
Bent hefur verið á að veiðar séu ekki lausnin og geti í raun haft þveröfug áhrif. Ýmsar aðrar leiðir séu fyrir hendi sem gætu stemmt stigu við ágang og nýjasta tækni gæti þar reynst haukur í horni.
Sjá nánar fréttaskýringu á bls. 20–22 í nýútkomnu Bændablaði.