Ágúst Torfi Hauksson nýr framkvæmdastjóri Norðlenska
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Ágúst Torfi Hauksson verkfræðingur hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Norðlenska. Hann mun taka við starfinu af Sigmundi E. Ófeigssyni sem lætur nú af störfum eftir 14 ára starf.
Ágúst Torfi lauk B.Sc. gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1999 og M.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá University of British Columbia, Kanada árið 2001.
Ágúst Torfi Hauksson.
Ágúst Torfi hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja bæði sem forstjóri, framkvæmdastjóri og sem stjórnarmaður. Á árunum 2005–2011 var hann framkvæmdastjóri hjá Brim hf., er sneri að stjórnun á umsvifum félagsins við Eyjafjörð. Á árunum 2011–2012 var hann forstjóri Norðurorku hf., á Akureyri. Á árinu 2012 var hann forstjóri Jarðborana hf., en hefur frá árinu 2013 verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi í verkefnum tengdum sjávarútvegi og orkumálum. Þá hefur hann setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, lífeyrissjóðs og félaga.
Heiðrún Jónsdóttir, stjórnarformaður Norðlenska, segir mikinn feng af því að hafa fengið Ágúst Torfa til Norðlenska. Stjórn félagsins telur reynslu hans úr fyrirtækjarekstri og stjórnun, þá ekki síst í matvælaiðnaði, nýtast félaginu vel í þeim verkefnum sem fram undan eru hjá félaginu. „Við teljum hann henta vel til að vinna með fjölmennum hópi eigenda og samhentum hópi stjórnenda og starfsmanna. Við hlökkum til samstarfsins,“ er eftir Heiðrúnu haft í tilkynningu frá félaginu.
Ágúst Torfi, verðandi framkvæmdastjóri félagsins, segir það afar spennandi verkefni að takast á við rekstur Norðlenska, kynnast eigendum félagsins og sterkum hópi starfsmanna. „Norðlenska er öflugt félag í matvælaframleiðslu, leiðandi á ýmsum sviðum og með mikla möguleika til að vaxa og dafna á komandi árum. Það verður gaman að fá að taka þátt í þeirri vinnu sem framundan er hjá félaginu.“
Ágúst Torfi mun hefja störf í byrjun október. Hann er kvæntur Evu Hlín Dereksdóttur verkfræðingi og eiga þau tvær dætur.
Norðlenska var stofnað á grunni Kjötiðnaðarstöðvar KEA árið 2000 er hún var sameinuð Kjötiðjunni á Húsavík. Í kjölfarið keypti félagið þrjár kjötvinnslur Goða hf. Á Akureyri eru höfuðstöðvar fyrirtækisins, stórgripasláturhús og kjötvinnsla, á Húsavík er sauðfjársláturhús og kjötvinnsla, á Höfn er sauðfjársláturhús og í Kópavogi er söluskrifstofa. Eigandi Norðlenska er Búsæld, félag kjötframleiðenda í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og á Austur- og Suðausturlandi. Ársvelta Norðlenska árið 2014 var um 5.200 m.kr. Hjá fyrirtækinu eru um 195 stöðugildi að meðaltali.