Alþjóðlegu landbúnaðarsýningarnar snúa aftur
Eins og flestir kannast við þá var hætt við helstu mannamót víða um heim þegar Covid-19 breiddist út og það átti svo sannarlega líka við um landbúnaðarsýningar í Evrópu.
Nú snúa hins vegar aftur tvær af þeim þekktari á meðal íslenskra bænda, þ.e. EuroTier í Þýskalandi og Agromek í Danmörku. Sú fyrrnefnda verður haldin á sínum stað, í Hanover, dagana 15. til 18. nóvember nk. og Agromek sýningin, sem haldin er í Herning á Jótlandi, verður haldin 29. nóvember til 2. desember nk. Nú þegar eru helstu véla- og tækjaframleiðendur innan landbúnaðar búnir að tilkynna þátttöku sína á þessum frægu sýningum sem er einkar góðs viti, en báðar þessar sýningar, sem venjulega eru haldnar annað hvert ár, hafa ekki verið haldnar í fjögur ár eða síðan árið 2018. Reiknað er með að hina þýsku EuroTier sýningu muni um 150–200.000 manns sækja og að um 40–50.000 gestir mæti á Agromek.