Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Alþýðleg páskagleði
Fréttir 8. apríl 2022

Alþýðleg páskagleði

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Þá þorratunglið tínætt er
tel ég það lítinn háska:
næsta sunnudag nefna ber
níu vikur til páska.

Svo hljóðar ein elsta vísa um páskana, sem birst hefur víða á síðum prentmiðla og meðal annars í Almanaki Þjóðvinafélagsins árið 1914. Þar, samkvæmt útreikningum, er páskadagur fyrsti sunnudagur eftir fyrsta fulla tungl – eftir þorratungl, en þorratungl er heiti tunglsins sem birtist annan tunglmánuð á undan páskatungli. Var hefðin sú að telja níu vikur frá fullu tungli og reikna þannig út hvenær páskarnir hæfust.

Reglan sem vísan geymir, um samband þorratungls og páska, hefur þótt býsna áreiðanleg, þó ekki sé hún algild, enda rétt að hafa í huga að tunglgangur og staða er ekki alltaf óbrigðul. Fram kemur í Lesbók Morgunblaðsins árið 1950 að allt fram að þessu hafi útreikningurinn talist óyggjandi en í ár beri svo við að nú (29. janúar) sé staðan önnur og kenna því um að aldamótin 1900 hefði átt að vera hlaupár, sem var ekki. ... „Nú eru 10 vikur til páska frá 10 nátta þorratungli. Finnst sumum, einkum gömlu fólki, þetta undarlegt.

Skýringin á því, að þessi ágæta vísa bregst að þessu sinni, mun vera sú, að bæði hún og ýmsar aðrar rímvísur voru miðaðar við tímatalið fram að síðustu aldamótum, eða til ársins 1900. Hlaupár er 4. hvert ár og árið 1900 hefði átt að vera hlaupár, en var ekki, og við það raskaðist gildi hinna gömlu rímvísna. Þess má þó geta, að oftast nær hafa á þessari öld verið 9 vikur til páska, þegar þorratunglið var tíu nátta. En við og við getur þessi eini dagur, sem fell niður aldamótaárið haft þau áhrif, að þetta ruglast ...“

En páskarnir eru elsta og í raun mesta hátíð kristinna manna og eins og kunnugt er, haldnir í minningu um upprisu Krists. Ýmsir hafa þó lagt hönd á plóg er kemur að skemmtanagildi eða öðru miður skemmtilegu er tengist páskunum, öllu frá súkkulaðiverpandi páskakanínu til fjörutíu daga föstu þeirra heittrúuðu, lönguföstu svokallaðri. Svo við förum nú örlítið yfir óskemmtilegri partinn fyrst þá fylgdi sá siður blessuðu kaþólsku kirkjunni að samsvara sig til hins ýtrasta drottnara sínum og upplifa hvað helstar píningar sem píslarvottur á borð við Jesúm. Því hófst sá siður að fasta. Reyndar fólst fastan helst í því að ekki mátti neyta kjötmetis en á móti kom að í þrjá daga áður en fastan hófst var haldin kjötkveðjuhátíð. Slíkar hátíðir tíðkast víða í heiminum en þá oft í kjölfar vorkomu í suðlægari löndum.

Við Íslendingar höfum, kannski sumir í bland við þá hátíð, haldið heilagan bollu- og sprengidag – innandyra vegna veðurfars – þar sem tíðkast hefur að belgja sig vel út áður en skorið er niður. Öskudagur er semsé upphafsdagur lönguföstunnar, miðvikudagurinn í 7. viku fyrir páska, og getur dagsetning hans sveiflast á milli 4. febrúar til 10. mars.

Maskadagur Vestfirðinga í bland við trúarlegar hefðir

Áhugavert er að hér áður fyrr, eða fram til 1917 eða svo, höfðu bollu- og öskudagur hlutverk hvor annars eins og við þekkjum þá í dag. Bolludagur var lengi vel lögboðinn frídagur skólabarna og þótti við hæfi að þau ösluðu um í krapi kaldra vordaganna, íklædd grímubúningum og slægu köttinn úr tunnunni í hópi félaga sinna. Nú hefur þetta snúist við – nema reyndar á Ísafirði og nærliggjandi kaupstöðum, en þar er sá siður enn við lýði að grímubúa sig og syngja fyrir sæta mola – til viðbótar við bolluátið, og dagurinn reyndar betur þekktur sem maskadagur. Á öskudegi þar í bæ dunda íbúar sér svo einungis við að festa öskupoka á fórnarlömb sín ... þegar aðrir landsmenn hlaupa um skrúðklæddir, syngjandi og betlandi sælgæti í búðum.

Á eftir bolludegi og á undan öskudegi ef talið er á þá vísu, kemur sprengidagur. Orðið sem talið er koma frá þýska orðinu Sprengtag þýddu Íslendingar snarlega sem sprengidag og stunduðu át sitt samkvæmt því. Sterkur möguleiki er þó á því að þeir þýskættuðu tengdu frekar við þann kaþólska sið að blessa kirkjugesti sína með því að stökkva á þá vígðu vatni – en sögnina „sprengen“ má meðal annars þýða á þá vegu. Og á í raun betur við ef litið er til sögu kirkjunnar.

Öskudagur hér áður var, eins og áður sagði, upphafsdagur föstunnar, þá mætti fólk til kirkju og fékk á ennið öskusmurðan kross. Enda er aska talin búa yfir hreinsandi krafti hins nýja upphafs. Þessir þrír dagar eru upphafsdagar páska og fjörutíu daga langafastan tími íhugunar og góðrar eftirbreytni. Síðasta vikan þessa tímabils þekkist alla jafna sem dymbilvika (af sumum djarfari kölluð píningarvika) en hún hefst á pálmasunnudegi. Er það dagurinn er Jesús var hylltur sem konungur og frelsari mannkyns. Skírdagur, eða fimmtudagurinn í dymbil/píningarvikunni, fær nafn sitt í kjölfar þess að Jesús stóð fyrir persónulegum fótaþvotti á lærisveinum sínum (skír=hreinn) jafnvel grunandi það að einn þeirra yrði hans bani.

Svo kom á daginn – daginn eftir, en föstudagurinn langi, eins og sá dagur nefnist, fær nafnbót sína vegna þess að þá var Jesús handsamaður og krossfestur og var dauðastund hans löng eins og gefur að skilja. Ekki leið þó á löngu áður en enn frekari uppákoma átti sér stað – tveimur dögum seinna, á sunnudeginum sem þekkist nú sem páskadagur, en þá kom í ljós að lík Jesú fannst ekki í gröfinni og trúðu nærstaddir því að líklegast hefði hann risið upp frá dauðum.

Fjörutíu dögum síðar var enn fremur talið að nú hlyti Jesús að hafa stigið upp til himna og var sá dagur nefndur uppstigningardagur. Er sá dagur tíu dögum fyrir aðra kristna hátíð, hvítasunnuna, sem er talin marka þann dag er heilagur andi kom yfir lærisveina og aðra fylgjendur Jesú, er átti að verða þeim og öðrum haldreipi í lífinu.

Hafði Jesús séð þetta fyrir er hann var meðal lifenda og hvatti eftirlifendur sína til dáða er kom að því að segja sögu hans og rækta þá trú er hann hafði boðað. Fyrsti sunnudagur eftir hvítasunnu kallast svo trínitatis, eða
þrenningarhátíð, hátíðis- dagur til heiðurs heilagri þrenningu – birtingu Guðs sem skapara, Jesú og heilags anda, fyrirskipaður af Jóhannesi páfa 22. á 14. öld.

Páskahérar í hreiðurgerð

En aftur að sætindum. Nú myndu margir telja að súkkulaðieggin sem við Íslendingar þekkjum svo vel og njótum komi upphaflega frá súkkulaðihænum. Raunin er ekki sú heldur voru páskaegg lengi talin afurð páskakanínunnar/hérans sem fer á stjá um þetta leyti árs og var til að mynda auglýstur í dagblöðum hérlendis um áraskeið sem sætindaglaður vorboði. Hefur verið í umræðunni að þær upplýsingar megi rekja til Þjóðverja sem státuðu sig af hinum eina sanna Oster-hase, þótt sumir telji hann augljóslega ekki héra heldur kanínu.

Annars eru bæði dýr auðvitað jafnvinsæl enda skiptir víst ekki höfuðmáli hvaðan glaðningurinn berst.
Segir sagan þó að tilvist páskahérans sé upprunnin í Þýskalandi þar sem hann brá sér í hlutverk Grýlu eins og við þekkjum hana best – og máttu þá börn sitja á strák sínum ef þau sáu fyrir sér að fá eitthvað gott í munninn.

Nú, geta hans – eða kanína – til að verpa súkkulaðieggjum er talin koma frá þeirri staðreynd að þessar dýrategundir standa í hreiðurgerð þegar þau eiga von á ungum, sem svo skjóta upp kollinum í hreiðrunum. Enginn hefur auðvitað smakkað héra- eða kanínuegg og því upplagt að ímynda sér að þeir verpi súkkulaðieggjum sem þeir deili svo gjarnan um páskaleytið eftir vel lukkað súkkulaðivarp í hreiðrum sínum.

Hvað varðar hugmyndir um páskahéra versus páskakanínu er rétt að minnast á þýskættuðu vor-og frjósemisgyðjuna Ostara í því samhengi. Nokkrar sögur má finna af henni og ekki allar þær sömu. Fyrsta vitneskja um hana er talin skjóta uppi kollinum í frumkristinni heimild, einu af ritum enska kirkjumannsins Bede, en þar er hún nefnd Eostre og er nafn hennar talið afbökun á enska orðinu Easter eða páskar. Eostre er gyðja vors og frjósemis auk þess að tengjast anda kanínunnar sem af mörgum var lengi talin tvíkynja vegna þess hve hún fjölgar sér fljótt. Samkvæmt listfræðum gengu fyrstu vestrænu kristnu mennirnir meira að segja svo langt að telja kanínur geta fjölgað sér án snertingar og tengdu kanínuna hinni óspjölluðu Maríu mey – og má því finna ýmis málverk, bækur og annað þar sem María og kanína eru í forgrunni.

Sumir vilja meina að sögu Ostara sé alls ekki að finna í kristinni trúarbragðafræði heldur fyrst og fremst í þýskum þjóðsögum og þá heiðinni trú. Hún hafi meðal annars breytt hérum í fugla og þeir launað henni með því að verpa marglitum skrauteggjum sem hún notaði við hátíðarhöld tileinkuð vorinu. Þar sem sagan er heiðin, hentaði bandarískættuðum bókstafstrúuðum almenningi ekki að gleðja sjálfa sig eða aðra með henni sem skyldi og breyttu því héranum í kanínu. Því er páskakanínan þekktari á þeim slóðum á meðan hérinn heldur velli annars staðar.

Páskaegg á öll borð!

Svona fyrir vantrúaða á héra/kanínuvarp, komu páskaegg á borð Íslendinga í kringum aldamótin 1900, þá innflutt, fyllt sælgætisegg eða úr súkkulaði – þóttu mikið nýnæmi og nokkuð var gert veður yfir „rándýrum súkkulaðieggjum sem eru á boðstólum“ á síðum dagblaða. Hérlendis var Björnsbakarí víst fyrst til að framleiða páskaegg sem gerð voru úr súkkulaði eða marsípani, í kringum 1920, og ekki leið á löngu þar til mátti sjá slíkt hið sama á boðstólum hjá Nóa & Síríusi, svo og hjá sælgætisgerðinni Víkingi sem þá var til. Árið 1966 hóf sælgætisgerðin Móna þá nýbreytni að framleiða einnig súkkulaðihænur og unga sem í var sett sælgæti á borð við það sem mátti finna í eggjunum. Í dag eru bæði Víkingur og Móna komin undir hatt sælgætisgerðarinnar Freyju sem landsmenn þekkja vel.

Sælgætisgerðin Góa var svo stofnuð í ársbyrjun 1968 og má finna hjá þeim eina hvíta súkkulaðiegg landsins, sem þykir jafn heillandi í munni og á að horfa.Nú til dags er framleiðsla á páskaeggjum í raun vertíð þar sem hundruð tonna af súkkulaði eru notuð, en um er að ræða á aðra milljón eggja ef ekki meira. Sannarlega nóg á íslenskan markað myndi maður ætla.

Gleðilega páska!

Skylt efni: Páskar

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...