Áminningarbréf frá ESA
Eftirlitsstofnun ESA hefur sent íslenskum stjórnvöldum formlegt áminningarbréf um starfsemi blóðtöku úr fylfullum hryssum.
Þau kalla eftir því að EES-reglum um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni sé beitt rétt.
Áminningarbréfið kemur í kjölfar kvörtunar sautján félagasamtaka sem Eftirlitsstofnuninni barst í apríl árið 2022. Þar lýsa félagasamtökin að starfsemi blóðtökunnar hér á landi væri andstæð ákvæðum EES samningsins.
Bréfið er upphaf að hugsanlegri málsókn eftirlitsstofnunarinnar gegn íslenskum stjórnvöldum fyrir brot á ákvæðum EES samningsins. Íslensk stjórnvöld hafa tvo mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður stofnunin ákveður hvort málið verði tekið lengra.