Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Aðgerðirnar í loftslagsáætlun stjórnvalda stefna að sjálfbærum rekstri býla. Myndin er tekin á Jökuldal.
Aðgerðirnar í loftslagsáætlun stjórnvalda stefna að sjálfbærum rekstri býla. Myndin er tekin á Jökuldal.
Mynd / sá
Fréttir 6. september 2024

Atrenna að minni losun landbúnaðar

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Í uppfærðri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem kynnt var í vor og er nú í samráðsgátt stjórnvalda, eru ýmsir landbúnaðartengdir þættir.

Landbúnaðartengdur rekstur fellur undir svokallaða Samfélagslosun auk sjávarútvegs, samgangna, úrgangsmeðhöndlunar o.fl., og er ábyrgur fyrir um 22 prósentum. Áfangamarkmið Íslands hljóðar upp á um 40% samdrátt í Samfélagslosun árið 2030.

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir.

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, verkfræðingur og sjálfbærniráðgjafi, starfaði sem ritstjóri uppfærslu aðgerðaáætlunarinnar með starfshóp verkefnisstjórnar. Hún var spurð hvernig loftslagsáætlunin nú horfi í meginatriðum við íslenskum landbúnaði.

„Aðgerðirnar í áætluninni lýsa þeirri sýn að stefnt sé að sjálfbærum rekstri býla. Þær aðgerðir sem skilgreindar eru í áætluninni eru mjög sértækar og að miklu leyti byggðar á vinnu, greiningu og tillögum frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, RML,“ útskýrir Ragnheiður Björk.

Hafa þurfi í huga að um sé að ræða áætlun hins opinbera um hvaða breytum sé unnt að ná í kerfinu til að ýta undir hegðun sem hvetur til losunarsamdráttar. Í aðgerðum áætlunarinnar hafi verið lagt til grundvallar hvernig draga mætti úr losun landbúnaðarins án þess að matvælaframleiðslu, fæðuöryggi, og þar með þjóðaröryggi, væri ógnað.

Íblöndunarefni í fóður jórturdýra

Hvatt er í áætluninni til notkunar íblöndunarefna í fóður jórturdýra og bættrar framleiðni á mismunandi gripum. Stefnt er að íblöndun í fóður á 30 prósentum íslenskra kúabúa fyrir árið 2030. 

„Langstærsti hluti losunar innan landbúnaðarins er vegna iðragerjunar, þ.e.a.s. búfénaðar. Þar er úr vöndu að ráða því íblöndunarefni í fóður fela einungis í sér aukinn kostnað og geta verið allt að tvöfalt dýrari fyrir bændur,“ segir Ragnheiður Björk. Mikilvægt sé að horfa á tvær breytur: loftslagsávinning og framleiðni.

„Mismunandi tegundir íblöndunarefna hafa verið rannsakaðar víða um heim og við sjáum allt að þriðjung í samdrætti í losun með notkun sumra þeirra og á sama tíma engin neikvæð áhrif á framleiðni gripanna, og jafnvel aukin næringargildi. Þetta er mikilvægt og nákvæmlega það sem við erum að reyna að besta, þ.e. framleiðni pr. losunareiningu. Síðan eru til aðrar fóðurtegundir sem sýna mun meiri loftslagsávinning, draga kannski úr um allt að helming í losun, en draga að sama skapi úr framleiðni gripa. Því þurfum við að vera mjög varkár og mikilvægt að byggja á réttum upplýsinga- og rannsóknagrunni, sem er í bígerð en mætti hraða,“ segir hún.

Áburður og nákvæmnislandbúnaður

Gert er ráð fyrir að bændur séu studdir til aðgerða sem draga úr áburðarþörf.

„Ákveðið magn losunar kemur frá áburðarnotkun og styðja þarf bændur til aðgerða sem draga úr áburðarþörf,“ segir Ragnheiður Björk. Nota megi annars konar áburð og réttan búnað til að dreifa honum betur. Tæknibúnaður nákvæmnislandbúnaðar sé þó dýr fjárfesting fyrir einstaka aðila og því þurfi mögulega að hugsa í deilihagkerfi, t.d. samlögum eða verktakaþjónustu. Samdráttur í áburði og hagræðing í rekstri geti og eigi að farið saman.

Hvað varðar aðgerðir til að styðja við innleiðingu tækni í nákvæmnisdreifingarbúnaði segir Ragnheiður Björk að mögulega þurfi að slá á fjárfestingabyrði þegar komi að slíkri fjárfestingu.

Köfnunarefni af landi

Undir samfélagslosun heyrir líka framræst ræktarland, þ.e. losun köfnunarefna í landinu, en allt annað varðandi ræktarland skrifast á losunarbókhaldskerfið Landnotkun (LULUCF).

Ragnheiður Björk segir að horfa þurfi til að betrumbæta nýtingu framræsts ræktarlands og ígrunda hvað sé verið að rækta, hvort ræktað sé nóg eða auka eigi jarðrækt. Þá eru uppi hugmyndir um að jarðræktarstyrkir verði endurskoðaðir til að draga úr loftslagsáhrifum vegna ræktunar.

Endurheimt votlendis vandmeðfarin

Stærsti ávinningur í samdrætti losunar er talinn felast í endurheimt votlendis og heyrir það undir flokkinn Landnotkun (LULUCF), sem telur megnið af allri losun Íslands. Þar af kemur stærsti hlutinn frá framræstu votlendi. Í uppfærðu áætluninni er ekki farið jafn mikið á dýptina og í öðrum þáttum en fremur leitast við að leiðrétta stefnuna.

Ragnheiður Björk segir endurheimt votlendis af ýmsum orsökum vandmeðfarna.

„Ef við erum með réttan upplýsingagrunn, þ.e. réttar rannsóknir sem sýna okkur nákvæmlega hver losunin er, þá er það eitt og sér mjög gott. Hitt er annað að ef á að fara í átaksverkefni með endurheimt votlendis þá er gríðarlega mikilvægt að við gætum ákveðins meðalhófs og leggjum í það minnsta fram valmöguleika.“

Vitneskja þurfi að liggja fyrir um hvaða framræsta land henti vel til ræktunar og hvað ekki. „Hvað væri gott að endurheimta núna, hvað er gott til ræktunar o.s.frv. Hvar gætum við mokað endanlega ofan í og hvar væri hægt að endurheimta tímabundið. Samtalið við bændur verður að vera dýnamískt. Allt byggir þetta á að til sé góð grundvallarþekking og traust sem byggir á samtali,“ segir Ragnheiður Björk.

Víðtækt endurmat á losun ræktarlands

Jóhann Þórsson.

Í fyrra fólu matvælaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið Landgræðslunni, nú Landi og skógi, að endurmeta losun gróðurhúsalofttegunda frá ræktarlandi í losunarbókhaldi Íslands. Ekki var vanþörf á, því við útreikninga á hluta landbúnaðar í losunarbókhaldinu hefur verið stuðst við hálfrar aldar gamla rannsókn um losun og bindingu ræktarlands.

Jóhann Þórsson er vistfræðingur og fagteymisstjóri loftslags- og jarðvegs hjá Landi og skógi. Hann segir verkefnið unnið af Háskóla Íslands og hófst það á síðasta ári. „Árið í ár er fyrsta gagnasöfnunarárið og fyrir vikið liggja engar niðurstöður fyrir enn sem komið er. Það tekur síðan nokkurn tíma að vinna úr sýnum og öðrum mælingum en skv. verkáætlun þá eiga niðurstöður frá þessu ári að liggja fyrir snemma næsta vor,“ segir Jóhann.

Ræktarland, og þá aðallega tún í framræstu mýrlendi, er stór hluti heildarlosunar frá landbúnaði og breytileiki í losun mismunandi landsvæða og -flokka.

Jóhann segir að ætlunin sé að nota hin nýju rannsóknargögn til að uppfylla núverandi kröfur um gagnagæði gagnvart loftslagssamningnum skv. reglum Evrópusambandsins og Parísarsamningnum. Niðurstöðurnar verði því sérstaklega notaðar til að meta kolefnisforða og breytingar á honum í ræktarlandi og til að taka saman landsstuðla fyrir þessa þætti.

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...