Átti ekki von á því að ég myndi gerast vínbóndi
Höfundur: smh
Á dögunum kom hingað til lands Alessandro Monni, ítalskur vínbóndi frá Sardiníueyju, í þeim tilgangi að skoða möguleika á því að rækta vínvið undir berum himni á Íslandi. Ræddi hann við nokkra íslenska bændur og að lokum sættust Ingólfur Guðnason og Sigrún Elfa Reynisdóttir, garðyrkjubændur á Engi í Laugarási, á að leyfa honum að gera nokkrar tilraunir í landi þeirra.
Alessandro og Ingólfur fara yfir málin; hvernig farsælast sé að planta græðlingunum. Tveir þriðju hlutar sprotans eru settir niður, eða þannig að aðeins eitt brum sé ofan jarðar.
Alessandro er 38 ára gamall og lærði vínfræðin, bæði víngerð og vínviðarræktun, í Pisa í Toskana-héraði Ítalíu. Hann er sjálfur frá bænum Lollove á Sardiníu. Þar rekur hann lítið vínframleiðslufyrirtæki og er framleiðslan nokkur þúsund flöskur á ári sem hann selur í heimabæ sínum. Alessandro leitar nú hófanna til að hagnýta sér þekkingu sína og menntun – og hluti af þeirri leit er að gefa Íslandi gaum sem vínframleiðslulandi. Telur hann að það þurfi að ganga úr skugga um það með tilraunum, að sú viðtekna skoðun sé rétt, að ræktun vínviðar undir berum himni á Íslandi sé vonlaus. Hann telur að það gæti verið auðveldara að rækta vínvið á Íslandi en epli, perur og annað í þeim dúr. Veigamestu rökin fyrir því að þetta geti verið mögulegt sé sú staðreynd að það séu sólarstundirnar sem vegi í raun þyngra en sjálft hitastigið. Þannig að hinir löngu íslensku sumardagar munu gagnast vínviðnum vel vel við að þroska aldin sín.
Margt líkt með eyjunum
Hann segist hafa orðið heillaður af Íslandi eftir að hafa kynnt sér sögu landsins og landbúnaðinn sem hér er stundaður. Hann hafi líka séð ýmis líkindi með eyjunum tveimur, til að mynda varðandi sauðfjárrækt og fiskveiðar. Hann hafi lesið sér til um að ræktun á vínviði utan dyra væri talin óhugsandi og það hafi verið honum enn frekari hvatning til að reyna slíkt. Hann hafi því ákveðið að heimsækja landið og í leiðinni að athuga þennan möguleika á að fá að gera nokkrar tilraunir hjá bændum.
Syrha-græðlingar á Engi
Ingólfur og Sigrún á Engi tóku Alessandro vel og sýndu honum hvaða landkostir væru í boði hjá þeim. Ingólfur segist ekki hafa átt von á því að gerast vínbóndi á Íslandi. „Alessandro hefur tröllatrú á að hér sé hægt að rækta vínvið. Það brýtur að vísu gegn skoðunum flestra. Í Danmörku er sums staðar fengist við ræktun vínviðar, á völdum svæðum og eftir miklar tilraunir. Árangurinn þar er misgóður en gengur sem sagt á allra bestu stöðum. Sama er að segja um Suður-England. Alessandro kemur frá þeim ódáinsakri Sardiníu þar sem meira að segja næturfrost eru óþekkt fyrirbæri, svo ég geri mér ekki miklar vonir. Þegar við vorum að leita að frostlausum bletti í görðunum hér í slyddu og einni gráðu yfir frostmarki upp úr miðjum apríl var hitinn 24 gráður heima hjá honum. En hann sótti þetta fast og ég ákvað að leyfa honum að gera þessa forathugun.
Ingólfur og Alessandro athuga ástandið á jarðveginum á Engi – en þar var enn frost í jörðu.
Við settum græðlinga af Syrah-þrúgum í óupphitað plasthús og síðan er ætlunin að setja niður græðlinga utanhúss þegar frost fer úr jörðu. Hann virðist ekki hafa unnið mikla heimavinnu hvað varðar veðurfarið hér, seina vorkomu, kaldan mýrajarðveg, næturfrosthættu og stutt, rysjótt sumur. En við sjáum hvað setur. Hann bendir á að hér eru ekki þeir sjúkdómar sem þarf að kljást við sunnar í álfunni og það mun vera rétt hjá honum. Tilraunir með fleiri yrki, einkum frá norðlægum slóðum, gæti hugsanlega leitt til jákvæðrar niðurstöðu með tíð og tíma,“ segir Ingólfur.