Aukið virði framleiðslunnar
Í nýlegum gögnum Hagstofu Íslands er áætlað að heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins á Íslandi hafi aukist um átta prósent á milli áranna 2022 og 2023, sem rakið er til hærra afurðaverðs.
Heildarframleiðsluvirðið er áætlað 89 milljarðar króna fyrir síðasta ár, var 82 milljarðar árið 2022 en 72 milljarðar árið 2021. Áætlunin byggir á lokaúttekt á afkomu búgreina fyrir árið 2022 og fyrirliggjandi upplýsingum um magn- og verðbreytingar á landbúnaðarvörum á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að um 65 prósent framleiðsluvirðisins teljist til búfjárræktar en um 27 prósent til nytjaplönturæktar.
Í uppgjöri Hagstofunnar er áætlað að aðfangakostnaður fyrir síðasta ár hafi verið 56 milljarðar króna, árið þar á undan nam hann 54 milljörðum króna en þá varð mikil aukning, eða 16 prósent, frá 2021 vegna innrásar Rússlands inn í Úkraínu.