Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu
Ábúendurnir í Hafrafellstungu í Öxarfirði fengu nafnbótina Bændur ársins 2023 í Norður- Þingeyjarsýslu. Upphefðin var veitt af búnaðarsambandi sýslunnar.
Frá þessu er greint á vef Loftslagsvæns landbúnaðar, en Eyrún Ösp Skúladóttir og Bjarki Fannar Karlsson í Hafrafellstungu hafa verið þátttakendur í verkefninu síðan 2021. Þau reka sex hundruð og fimmtíu kinda sauðfjárbú og hafa unnið að því að auka afurðir samhliða því að bæta nýtingu tilbúins og lífræns áburðar og minnka olíunotkun.
Í umsögn Einars Ófeigs Björnssonar, formanns búnaðarsambandsins, segir að Hafrafellstunga sé fyrirmyndarbú.
Meðalþyngd sláturlamba hafi verið góð, með mikil kjötgæði og hæfilega fitu ásamt því sem þau hafi selt talsvert af líflömbum. Einar bendir einnig á að Eyrún Ösp og Bjarki Fannar hafi lagt mikinn metnað í innleiðingu arfgerða sem veiti vernd gegn riðu í sauðfé ásamt því að standa fyrir sýnatöku á arfgerðum í eigin hjörð.