Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Svona voru aðstæður við bæinn Björg í Útkinn á mánudaginn.
Svona voru aðstæður við bæinn Björg í Útkinn á mánudaginn.
Mynd / Landhelgisgæslan
Fréttir 7. október 2021

Bændur í Kinn og Útkinn komnir heim

Höfundur: smh

Bændur í Kinn og Útkinn eru komnir heim eftir að rýmingu var aflétt á þriðjudagskvöld. Allri mjólk tókst að bjarga á kúabúunum sex.

Eftir gríðarlega úrkomu á Norður­landi var hættustigi almannavarna lýst yfir í Kinn og Útkinn í Suður-Þingeyjarsýslu aðfaranótt sunnudags vegna skriðuhættu. Rýma þurfti tólf bæi í Útkinn og Kinn um helgina, en talið er að tugir skriða hafi fallið á svæðunum og nokkrir bæir urðu innlyksa.

Á þriðjudaginn var komið að þolmörkum hjá kúabændum varðandi geymslu mjólkur. Mjólkurbíll Auðhumlu sótti mjólkina á þriðjudaginn á öll sex kúabúin í Kinn og Útkinn, fyrir utan Björg en þangað var ófært. Ökuleið var svo rudd í gegn þangað í gær á miðvikudegi og mjólkinni bjargað.

Kýrnar kætast þegar bændur og björgunarsveitarmenn koma á bæinn.

Ræktarlönd á kafi í vatni og aurbleytu

Var þyrla Landhelgisgæslunnar notuð til að hjálpa til við rýmingu og fengu bændur aðstoð björgunarsveita til að komast í aðkallandi bústörf eins og mjaltir.

Samkvæmt upplýsingum frá Hermanni Karlssyni, aðalvarðstjóra í aðgerðarstjórn lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, var ekki tilkynnt um tjón á húsakosti né ollu skriður skaða á búfé bænda en ræktarlönd eru mörg hver á kafi í vatni og aurbleytu.

Mjólkurtjón ekki bætt

Jóna Björg Hlöðversdóttir, bóndi á Björgum og fyrrverandi formaður Samtaka ungra bænda, segir að fjölskyldan hafi haldið til á Húsavík frá aðfaranótt sunnudags og á meðan rýming stóð yfir. „Við fengum að fara heim í mjaltir í fylgd björgunarsveita, enda bannað að fara inn á svæðið. Systir mín og mágur sáu um mjaltir og gjafir en við fengum einnig að fara til að sækja föt og annað sem við þurftum á að halda. Undir venjulegum kringumstæðum hefði mjólkurbíll átt að sækja þriggja daga mjólk til okkar á þriðjudaginn, en það var ekki mögulegt því hér eru erfiðustu aðstæðurnar. Hefði mjólkurbíllinn ekki komist til okkar í dag hefði þurft að hella mjólkinni niður og það tjón hefði ekki verið bætt,“ segir Jóna, en hún telur að um þrjú þúsund lítrar hafi verið í stútfullum tankinum á Björgum þar sem 40 mjólkandi kýr eru.

Aurinn liggur á fjölda túna

Að sögn Jónu hafa aðstæður lítið breyst frá helginni, áfram hefur haldið að rigna eitthvað, þótt það sé mun minna en um helgina.

Jóna Björg Hlöðversdóttir, bóndi á Björgum, og sonurinn Hlöðver Þór Jónuson. Myndi / Aðsend

Hún segir að það hafi staðið frekar tæpt með eina skriðuna sem teygði sig mjög nærri bænum, en fólk var við mjaltir þegar sú skriða féll. „Sauðféð var úti – og er reyndar enn þá. En það var fjarri fjallinu og því ekki í hættu beinlínis af henni. Við höfðum hins vegar áhyggjur af þeim ef það myndi koma eitthvert flóð í Skjálfandafljóti. Hins vegar er mest allt á floti hjá okkur á túnunum, ýmist undir vatni eða aurbleytu og leðju. Aurinn og leðjan nær alveg yfir fjölda túna og svo eru slettur á öðrum.

Við erum hins vegar bjartsýn á framhaldið og engan bilbug á okkur að finna þegar við fáum loksins að fara heim. Tækin til að koma þessu í samt lag eru til þannig að það verður bara ráðist í verkin eins fljótt og hægt er. Tilfinningatjónið er hins vegar erfitt að bæta, því ásýndin umhverfis bæinn er auðvitað gjörbreytt.

Svo þarf að meta margt upp á nýtt varðandi hættusvæði og annað með tilliti til þess að það bendir ýmislegt til að veðurfar sé breytt í ljósi loftslagsbreytinga, með þessum óhemjumiklu rigningum.“ 

Skylt efni: aurskriður | skriður | Útkinn | Kinn | Björg

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...