Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kári Gautason.
Kári Gautason.
Fréttir 26. júlí 2021

Bændur standa frammi fyrir tvöfaldri vá

Höfundur: Kári Gautason

„Ég borga aldrei“, sagði bóndinn fyrir austan á hverju hausti þegar kaupfélagsstjórinn var búinn að útlista fyrir honum hvernig hann gæti gert upp við kaupfélagið.

Ekki kunni þessi afstaða góðri lukku að stýra, hvorki fyrir bóndann né kaupfélagið. Bændur standa nú frammi fyrir tvöfaldri vá, annars vegar ógn loftslagsbreytinganna sjálfra og svo hins vegar hugsanlegri ógn vegna vanhugsaðra ákvarðana stjórnvalda í loftslagsmálum. Þess vegna kann að vera ráð að borga stax, grípa til kostnaðarsamra ákvarðana og aðgerða þegar í stað, að því gefnu að það fáist metið í formi sanngjarnra mótvægisaðgerða.

Bændur í Danmörku óttaslegnir

Fyrirheit um að kolefnisjafna íslenskan landbúnað á næstu nítján árum er tröllaukið verkefni sem mun kosta mikið fé. Það fé mun bætast ofan á framleiðslukostnað íslenskra búvara svo að samkeppnishæfni þeirra mun minnka komi ekkert annað til. Íslenskir bændur gætu framleitt kolefnishlutlaust kjöt en það yrði svo dýrt að neytendur myndu í hrönnum kaupa ódýrara innflutt kjöt sem ekki væri framleitt með jafn ströngum kröfum.

Niðurstaða þeirrar jöfnu yrði hin versta fyrir þjóðarbúið, kolefnisútblástur minnkaði ekki neitt en afkomu íslensks landbúnaðar hefði verið kollvarpað. Íslenskir bændur eru ekki einir um að óttast slíka tvöfalda vá. Bændur í Danmörku horfa upp á það að ríkisstjórn krata hyggst leggja gríðarmiklar álögur á þarlendan landbúnað sem miða að því að draga úr kolefnisspori hans. Álögurnar eru með þeim hætti að ólíklegt verður að teljast að landbúnaðurinn í Danmörku þoli þær öðruvísi en að draga verulega úr framleiðslu og umfangi.

Grænir tollar til að vernda lífsviðurværi

Landbúnaðarráðherra Þýska- lands lýsti því á hinn bóginn yfir síðastliðinn vetur að nauðsynlegt yrði að setja græna tolla á innflutt matvæli til þess að verja lífsviðurværi bænda í Evrópu. Hið sama er upp á teningnum þar ytra og hér. Kolefnisjafna á þýskan landbúnað eigi síðar en 2050 – á meðan Íslendingar stefna að árinu 2040. Þjóðverjar gefa sér semsagt 10 árum lengri tíma en við Íslendingar. Leiðin sem þýski ráðherrann og fleiri hafa velt upp er að leggja vörugjöld á landamærum sem miða að því að jafna samkeppnisgrundvöll þýskra bænda og afurðastöðva, sem þurfa að standa straum af ákveðnum kostnaði við kolefnisjöfnun, og erlendra aðila sem þurfa þess ekki. Sé slík gjaldheimta rétt sett upp er talið að hún komist í gegnum nálarauga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

ESB-kaupfélagið

Í vikunni sem leið kynnti svo Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, aðgerðaáætlun ESB-kaupfélagsins í loftslagsmálum, „Í formi fyrir 55“, sem miðar að 55% samdrætti í útblæstri gróðurhúsalofttegunda 2030. Ein aðgerðanna er sú að setja upp slík vörugjöld á innflutt stál, sement, ál og raforku. Innflytjendum yrði gert að greiða andvirði kolefniseininga fyrir hvert tonn af stáli sem framleitt er með lakari umhverfisaðferðum heldur en tíðkast í ESB. Það kaupfélag hræðist ekki tolla og gjöld til að jafna metin og Íslendingar eru á félagssvæði þess gegnum Evrópska efnahagssvæðið, EES.

Samhliða vörugjöldunum á að flýta fyrir því að fækka kolefniseiningunum sem í umferð eru innan ESB hverju sinni. Það mun hækka á þeim verðið (verðið á einingu, tonni af CO2 er rúmar 50 evrur í dag). Gjald á kolefnisútblástur er þegar til staðar hvað iðnað varðar í Evrópu. Það er hins vegar ekki fyrir hendi í landbúnaði. Til þess að leggja kolefnisgjald á landbúnað þarf að leggja mat á kolefnisspor búvöru. Þar er um að ræða mikinn frumskóg. Og sitt sýnist hverjum um það hvar eigi að draga mörkin utan um rammann sem reiknaður er. Hér á landi hefur til að mynda munað býsna miklu í útreikningum sama fyrirtækis á kolefnisspori nautakjöts.

Sömu kröfur til erlendra sem innlendra matvæla

Að mínu viti er eina leiðin til þess að koma í veg fyrir að kostnaður við að kolefnisjafna búvörur hefti íslenskan landbúnað sú, að drífa í boðuðum verkefnum og ná árangri sem fyrst. Jafnframt þyrfti að setja fram það eðlilega og ófrávíkjanlega skilyrði gagnvart íslenskum stjórnvöldum að sömu kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla og þeirra sem framleidd eru hérlendis.

Eitt ber þó að hafa í huga, að verði íslenskur landbúnaður ekki loftslagsvænni en sá sem við keppum við – þá mun þessi aðferð ekki virka. Því þarf að kappkosta að ná forskoti í loftslagsmálum, það er einfaldlega lífsspursmál fyrir innlendan landbúnað. Sé ekki hugsað stórt og af framsýni í þessum efnum með því til dæmis að auka framleiðni og afurðasemi gripa, koma á fót kolefnissamlagi, tryggja orkuskipti, innleiða græna tækni og gervigreind munu margar sveitir verða eins og býli bóndans sem nefndur var í byrjun, eyðibýli.

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...