Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Sigurður Halldórsson, fram­kvæmdastjóri Pure North Recycling, hefur reynt ýmislegt í endurvinnslumálum á Íslandi. Hann segir að erlendis sé þessi iðnaður ört vaxandi. Enda neyðist þjóðir heims nú til að fara að sjá um sitt rusl sjálfar eftir að Kínverjar
Sigurður Halldórsson, fram­kvæmdastjóri Pure North Recycling, hefur reynt ýmislegt í endurvinnslumálum á Íslandi. Hann segir að erlendis sé þessi iðnaður ört vaxandi. Enda neyðist þjóðir heims nú til að fara að sjá um sitt rusl sjálfar eftir að Kínverjar
Mynd / HKr.
Fréttir 1. júní 2018

Bændur standa sig vel í skilum á heyrúlluplasti

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Pure North Recycling er áhugavert endurvinnslufyrirtæki í Hveragerði sem sérhæfir sig í dag á endurvinnslu rúlluplasts frá bændum og plastkassa frá matvinnslufyrirtækjum. Eftir mikla þróunarvinnu hefur fyrirtækið verið að komast á skrið en hefur svo þurft að glíma við mikla verðlækkun á afurðaverði í kjölfar ákvörðunar Kínverja um að hætta að taka við plasti til endurvinnslu. 
 
Sigurður Halldórsson fram­kvæmdastjóri er enginn nýgræð­ingur á sviði endurvinnslu og hefur gert ýmsar tilraunir til endurvinnslu á fjölmörgum efnum í gegnum tíðina. Reyndar byrjaði fyrirtækið í Hveragerði á að framleiða viðarkurl úr timbri sem undirburð undir hesta og annað. Það hefur nú einbeitt sér að endurvinnslu á plasti sem hefur verið vandamál á Íslandi alla tíð síðan plast kom til sögunnar. 
 
Hófu starfsemi 2009
 
„Við hófum hér starfsemi árið 2009 við endurvinnslu á timbri og framleiðslu á timburkurli. Við seldum svo hluta af þeirri starfsemi til Furu í Hafnarfirði og fórum svo að köggla ýmis efni eins og hrossatað, járnsvarf fyrir Elkem á Grundartanga, skreið fyrir útgerðina og fleira. Við hófum svo uppsetningu á þessari plastendurvinnslulínu árið 2015. Þá byrjuðum við á heyrúlluplastinu, einkum vegna þess að það er til í töluverðu magni og að því er gott aðgengi. Þetta er reyndar eitt erfiðasta efnið til að endurvinna því plastfilman er svo þunn. Það er því mikið yfirborð sem þarf að hreinsa fyrir hvert kíló af endanlegu hráefni.  
 
Rúllubaggaplastið að koma úr þurrkaranum eftir þvott og á leið í tætara. 
 
 
Harðplastið eins og er í kössunum sem koma frá matvælageiranum er mun auðveldara að eiga við, en það kurlum við niður í plastsalla sem síðan er sekkjaður til útflutnings.“
 
Segir Sigurður að næsta skref þeirra í endurvinnslu á heyrúlluplasti verði að setja upp vél til að framleiða úr því „pellettur“ eða eins konar töflur eða kúlur. Það eykur verðmætið og stækkar mjög hóp mögulegra viðskiptavina en í því formi er hægt að nota efnið í hvaða plastframleiðslu sem er, bæði á Íslandi og erlendis. 
 
Úr endurvinnslustöð Pure North Recycling.
 
Aðalstuðningurinn hér er klapp á bakið
 
„Vonandi gerist það á þessu ári, en allt er þetta háð fjárfestingum. Það eru ekki margir sem eru tilbúnir að koma inn í svona áhætturekstur og hér er ólíku saman að jafna við það sem er að gerast í Austur-Evrópu. Þar er verið að fjárfesta gríðarlega mikið í endurvinnsluiðnaði og kemur ríkið þar að með 60% framlag af öllum vélbúnaði. Á móti kemur að fyrirtækin mega ekki afskrifa nema 40% af kostnaði svo viðkomandi ríki fær þá framlagið til baka í gegnum skatta af starfseminni. Þetta auðveldar gífurlega frumfjárfestingu í þessari grein. Hér er ekkert slíkt kerfi til staðar og ekkert nema kannski klapp á bakið.“  
 
 
Haugur af rúlluplasti frá eyfirskum bændum. Endurvinnslustöðvar vilja helst fá hvítt plast því það er verðmætara en mislitt og hægt að endurnýta á margvíslegan hátt. Starfsmenn Pure North Recycling verða því að handflokka alla plasthaugana sem þangað berast til að ná sem mestum verðmætum út úr vinnslunni. Ef hugsað væri út í endurvinnslumöguleika við innflutning á rúlluplasti, þá væri að sjálfsögðu ekki keypt annað en hvítt plast. 
 
 
Kínverjar ollu uppnámi
 
Sigurður segir að sú ákvörðun Kínverja að loka fyrir innflutning á úrgangsplasti frá öðrum heimshlutum um síðustu áramót til endurvinnslu í Kína hafi sett alla endurvinnslu á plasti í uppnám á Vesturlöndum. Umfjöllun um þetta í Bændablaðinu 12. apríl vakti líka mikla athygli. Verulegur hluti af plasti sem til hefur fallið í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar, hafði þá verið sent í endurvinnslu til Kína um árabil. Við lokun á þeirri leið hefur plast hlaðist upp og fátt annað í stöðunni en að setja plastið í urðun og landfyllingar. Það er þvert á yfirlýst markmið eins og hjá Evrópusambandinu, þar sem aðildarþjóðum þess sem og þjóðum EES-samningsins verður gert óheimilt að urða meira en 10% af sínu sorpi frá og með 2030. 
 
Kurlaðir plastbakkar á leið í endur­vinnslu í Bretlandi. 
 
 
Segir Sigurður að ákvörðun Kínverja hafi verið reiðarslag fyrir flestar þjóðir og Evrópuþjóðir séu komnar mislangt í að endurvinna sjálfar það plast sem til fellur hjá þeim. 
 
„Þjóðir eins og Svíar og Þjóðverjar eru komnar mjög langt í endurvinnslumálum. Í kjölfar ákvörðunar Kínverja eru öll skilaboð frá Evrópu mjög skýr um að hver þjóð þurfi að bera sjálf ábyrgð á sínum endurvinnslumálum. Auðvitað á þetta að vera þannig og ekki síst er það mikilvægt fyrir okkur með allt þetta kolefnisspor vegna flutninga til og frá landinu. Samkvæmt áætlun EES verður urðun á sorpi skattlögð eftir 2030. Það er því algjör tímaskekkja að vera að urða plast með öðru sorpi uppi í Álfsnesi,“ segir Sigurður.
 
Tala minna og framkvæma meira
 
Hann bendir á að mikill tvískinnungur sé ríkjandi í þessum málum og blekkingum óspart beitt. 
„Við hér á Íslandi erum mjög aftarlega á merinni hvað varðar endurvinnslu. Þótt margar skýrslur segi annað og að við státum af því að standa við loforð sem við höfum gefið. Samkvæmt skýrslu umhverfisráðuneytisins eigum við nú að endurvinna 20,5% af því plasti sem fellur til hér á landi. Það er kannski kominn tími til að endurvinna allar þessar skýrslur, tala minna og framkvæma meira.“ 
 
Kolefnislosun Íslendinga frá sorpi jókst um 41,64%
 
Sinnuleysi stjórnvalda á Íslandi gagnvart endurvinnslumálum er í raun með ólíkindum, sér í lagi ef skoðuð er hávær umræða um kolefnislosun. Samkvæmt tölum World Recource Institute (WRI) þá jókst kolefnislosun frá sorpi á Íslandi um 41,64% frá 1990 til 2014. Á sama tíma dróst kolefnisútlosun frá sorpi í Þýskalandi saman um 79,71%, í Hollandi var samdrátturinn 59,40% og 34% í Noregi. Danir eru nokkrir eftirbátar þessara þjóða með aukningu á kolefnislosun frá sorpi upp á 1,39% sem er þó hátíð miðað við Ísland. 
 
Plastpoki sem framleiddur var í Bretlandi úr 100% rúlluplasti frá Íslandi. 
 
Á Íslandi er mikið talað um kolefnislosun frá bílum, sem talin er 7–18% allt eftir því hver setur tölurnar fram. Í einni skýrslu er talað um að losunin frá umferðinni í heild geti numið allt að 31%. Í nýjustu skýrslu Umhverfisstofnunar sem gefin var út 16. apríl sl. eru vegasamgöngur sagðar losa 19,5%. Þar er líka sagt að urðun úrgangs losi 4,6%, en samkvæmt skýrslu WRI nemur heildar kolefnislosun Íslendinga frá úrgangi 8% og hefur verið að vaxa hröðum skrefum. 
 
Þetta gengur ekki lengur
 
„Heimildamyndin Dirty Business, sem sýnd var á SKY-sjónvarpsstöðinni í Bretlandi fyrir nokkru, lýsir mjög vel hversu flutningsmiðaðar þjóðir eru orðnar og að við þurfum að vera ábyrgari í meðferð úrgangsefna og getum sýnt fram á að það sem sagt er fara í endurvinnslu endi ekki í ruslahaug einhvers staðar í Asíu. Þá skortir hvata til að gera betur, en menn hafa komist upp með þetta og hafa nýtt sér það. Menn hafa þannig verið að ýta vandanum yfir á aðrar þjóðir og það er ekkert öðruvísi á Íslandi en hjá öðrum þjóðum. Ég held að menn séu þó að átta sig á því hér heima að þetta gengur ekki lengur. 
 
Hráefni úr hvítu baggaplasti frá bændum á leið í skip. 
 
Við höfum mjög gott kerfi varðandi endurheimt á gosdrykkjaumbúðum sem byggir á skilagjaldi sem sett er á þær við innflutning. Við hefðum viljað fá slíkt á öll endurvinnanleg hráefni. Lykillinn að þessu liggur í því að ganga mikið lengra en gert er við flokkun á úrgangi.“  
 
Plastið er ekki versti óvinurinn heldur maðurinn sjálfur
 
„Ég hef oft verið spurður út í þessi mál og ég segi þá gjarnan að plastið sé ekki endilega versti óvinurinn. Það erum fremur við sjálf og hvernig við höfum umgengist plastið. Plastið er í sjálfu sér gott efni og oft nær ómissandi í nútíma samfélagi. Menn reka t.d. vart heilbrigðisstofnun eða nokkuð annað án þess að plast komi ekki þar við sögu. Málið er bara hvað við gerum svo við plastið sem við þurfum ekki lengur á að halda.“ 
 
Hvert tonn af endurunnu plasti sparar 1,6 tonn af olíu
 
„Hjá stöð eins og okkar snýst málið um að fá eins vel flokkað og hreint úrgangsplast inn til okkar og hægt er. Þeim mun auðveldari verður eftirleikurinn við að koma þessu plasti í það form að hægt sé að nýta það aftur til að búa til nýja hluti. Það sparast 1,6 tonn af olíu fyrir hvert tonn af plasti sem er endurunnið.“
 
Plast af umhverfisástæðum?
 
Annars bendir Sigurður á að yfirlýsingagleðin, tvískinnungurinn og hræsnin leynist víða. Menn rjúki til og stökkvi úr einum öfgunum í aðrar. Þannig hafi menn tekið plastið á sínum tíma opnum örmum m.a. af umhverfisástæðum. Það hafi verið vegna þess að menn vildu að fólk hætti að nota bréfpoka til að minnka pappírsnotkun sem sögð var vera að útrýma  skógunum. Sömu fullyrðingu var beitt gagnvart prentmiðlum áratugum saman og mikillar notkunar pappírs í dagblöð, tímarit og síðan tölvupappírinn fræga undir lok síðustu aldar. Að vísu var gengið mjög á hina fornu skóga í Evrópu á átjándu og nítjándu öld. Þegar kom fram á þá tuttugustu áttuðu menn sig á þessu og fóru að snúa við blaðinu. Frá seinni heimsstyrjöldinni voru einnig settar í gang miklar áætlanir um að græða upp skóga. Pappírsframleiðendur hófu líka þá vegferð að planta skógum sem nýta átti til pappírsgerðar.
 
Sigurður með endurunnið hráefni úr heyrúlluplasti frá íslenskum bændum sem nýtt verður aftur í nýjar plastafurðir í Bretlandi. 
 
Samkvæmt úttekt í World Views sem birt var í desember 2014 hafði orðið gríðarleg aukning í vexti skóga um alla Evrópu frá árinu 1900, þvert á hástemmdar fullyrðingar nær alla síðustu öld. Skógarþekja í Bretlandi hafði t.d. aukist úr 2–3% af flatarmáli í 10–12%. Víða hafði aukningin verið enn meiri. Helsti gallinn við þessa nútímaskóga er einsleitni viðartegunda sem orsakast fyrst og fremsta af nýtingargildi, m.a. fyrir pappírsiðnaðinn. 
 
Mikil sérstaða á Íslandi
 
Hiti er mikilvægur þáttur við endurvinnslu á plasti og því eru Íslendingar í mikilli sérstöðu á heimsvísu með allt sitt jarðhitavatn og hreinu raforku. Flestar aðrar þjóðir verða að verulegu leyti að framleiða þá orku sem til þarf við endurvinnsluna með kolum, olíu, gasi eða kjarnorku. Meira að segja Svíar og þjóðverjar sem standa þó einna fremst í endurvinnslumálunum. Í Svíþjóð er t.d. umtalsverðu magni af sorpi brennt og sú orka nýtt til að framleiða hita og raforku.   
 
„Okkar sérstaða í orkumálum með okkar jarðhitamöguleika hefur líka leitt til þess að við höfum orðið að fara aðrar leiðir en aðrir við endurvinnsluna. Við erum búnir að vera í tvö og hálft ár að ná tæknilegum tökum á þessu því við gátum ekki leitað til annarra um hvernig svona verksmiðja ætti að líta út. Á móti kemur að við getum gert þetta með hagkvæmari hætti en hægt er erlendis en höfum aftur á móti ekki aðgang að því magni sem aðrir hafa. 
 
Á meðan erlendar endur­vinnslustöðvar eru kannski að taka 40 til 50 þúsund tonn af plasti í gegnum sig á ári, þá falla hér til í kringum 2.000 tonn af heyrúlluplasti á ári. Við megum ekki heldur flytja inn notað heyrúlluplast til endurvinnslu samkvæmt búfjárlögum og vegna smithættu,“ segir Sigurður.
 
Bændur standa sig vel í skilum
 
Sigurður segir að íslenskir bændur séu farnir að standa sig vel við að skila til þeirra heyrúlluplasti. Þannig fái  Pure North í Hveragerði til sín megnið af öllu slíku plasti sem til fellur á landinu. Búið er að rúlla í gegn í kringum 1.500 tonnum frá því endurvinnslan hófst af krafti í fyrra. 
 
Bændur fái viðurkenningu fyrir að standa sig vel
 
„Bændur sem hafa komið og skoðað okkar starfsemi átta sig betur á um hvað málið snýst. Í framhaldinu hugsa þeir betur um plastið, skila því hreinna inn og flokka það betur. Við viljum ganga ennþá lengra. Þannig að þau bú sem flokka til endurvinnslu og skila inn hreinu og góðu plasti fái vottun og að það verði hluti af þeirra gæðavottunarferli. Þetta eru jú matvælaframleiðendur og meðferð úrgangsefna á að vera sjálfsagður hluti af öllum pakkanum. Ef við ætlum að gera hlutina af einhverju viti, þá þurfum við að umbuna þeim sem eru fremstir í flokki,“ segir Sigurður.
 
Endurskoða þyrfti flutningsjöfnunarkostnað
 
Vandinn sem þar er helst við að glíma er misvægi í flutningsjöfnun. Þar er að sögn Sigurðar miðað við að fjármunir til flutningsjöfnunar skerðist eftir því sem bændur eru nær útflutningshöfn. Tvær hafnir á Íslandi eru skilgreindar sem útflutningshafnir, þ.e. Reykjavík og Akureyri. Því verður ávinningur bænda t.d. við Eyjafjörð nánast enginn annar en ímyndarlegur af því að skila plasti um langan veg til vinnslu í Hveragerði. 
 
Framleiðslan var komin á ágætis ról hjá okkur í haust og í takti við fjárhagsáætlanir. Þetta Kínastopp olli okkur síðan svakalegu höggi og Evrópa er nú að fyllast af úrgangsplasti vegna ákvörðunar Kínverja um að hætta móttöku. Því hefur orðið um 60% lækkun á verði á endurunnu plasti til áframvinnslu. Við þurftum því bæði að spila vörn og sókn á sama tíma og fara í að auka enn meira gæðin á því plasti sem við sendum frá okkur til að toga verðið upp aftur fyrir okkar afurðir. Við bættum inn í línuna þvottavél sem skilar okkur mun meiri gæðum. Eru nú að fara frá okkur fyrstu sendingar af þessu efni.“
 
Sigurður segir að stærsti hluti af þeirra plasthráefnisútflutningi fari til Bretlands, en annað til Hollands. 
„Þar fer þetta mikið í plastpokagerð. Við höfum svo fengið til okkar stóra plastpoka frá verksmiðju í Bretlandi sem framleiddir eru að 100% hluta úr íslensku heyrúlluplasti.“
 
Framleiðendur verði ábyrgir fyrir að varan sé endurvinnanleg
 
Það þarf að hugsa alla þætti meðferðar hinna ýmsu efna upp á nýtt að mati Sigurðar. 
 
„Það er spurning um meðferð þeirra efna sem notuð eru. Þar eru aðallega tveir þættir sem þarf að huga meira að. Í fyrsta lagi er það framleiðendaábyrgðin og að þeir séu ekki að búa til vörur sem eru óendurvinnanlegar. Þar er mikið verk fram undan. Sem dæmi erum við með gosflöskur sem eru úr þremur tegundum af plasti. Það er PET í flöskunni sjálfri, polyethelin í tappanum og LTPE borði utan um flöskuna. Allt eru þetta mjög verðmæt plastefni, en eiga ekkert sameiginlegt í endurvinnslu. Í dag eru engar vélar sem geta endurunnið þetta plast á Íslandi og því þarf að flytja það úr landi til endurvinnslu. Þar er þetta tætt niður og þessar ólíku plasttegundir svo flokkaðar eftir á með flóknum og dýrum búnaði. Ef flaskan, tappinn og miðinn væri bara úr einni plasttegund, þá væri mun einfaldara að endurvinna efnið, líkt og þekkist með endurvinnslu á áldósum. 
 
Við þurfum að fara að skoða þetta betur. Sama á við um fiskikerin sem hér hefur verið framleitt mikið af. Í þeim er urethan plastefni í millilagi sem þýðir að körin eru óendurvinnanleg. Íslenskir framleiðendur hafa reyndar brugðist við þessu og eru farnir að framleiða kerin með millileggi úr sama efni og ytra byrði kerjanna. 
 
Til viðbótar þessu þarf að efla endurvinnslu af öllum toga og taka upp hvetjandi kerfi líkt og er varðandi gosflöskurnar. Þeir sem ráða ferðinni tala mikið um þetta, stofna nefndir, láta búa til skýrslur, setja falleg markmið, en svo gerist ekkert meira. Það er m.a. ástæðan fyrir því að Pure North er eina plastendurvinnslan á landinu í dag. 
 
Íslendingar gætu tekið algjöra forystu í plastendurvinnslunni og hér eru allar forsendur til þess. Það vantar bara að stjórnvöld ýti þessu áfram, fari að framkvæma í stað þess að tala endalaust um hlutina.“
 
Mikið talað um smáatriði en ekki minnst á stóru málin
 
Sigurður segir stjórnmálamenn afar upptekna við að ræða mál sem þeir telji líkleg til vinsælda í þessum efnum. Þannig sé mikilli orku eytt í að ræða hvort banna eigi sogrör og eyrnapinna úr plasti, nokkuð sem skiptir sáralitlu í heildarsamhenginu. 
 
„Á meðan þessi umræða er í gangi um algjör smáatriði þá er ekki minnst einu orði á öll veiðarfærin sem ganga úr sér og enginn veit hvar enda. Það er ekkert eftirlit með og enginn veit hvað mikið fellur til af veiðarfærum á Íslandi. Enginn veit hvert þau fara og menn hafa enga yfirsýn yfir hvort þau skili sér yfirleitt í land, eða endi í hafinu. Samt byggjum við alla okkar útgerð á hreinni ímynd um veiðar í hreinum sjó. Þarna er mikið tækifæri fyrir Íslendinga að taka forystuna og ganga lengra en ætlast er til.“
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...