Bætir fjórðung af fjárhagstjóni svínabænda
„Þær fjárhæðir sem spretthópurinn leggur til að fari til svínaræktarinnar mun bæta okkur um fjórðung af því fjárhagstjóni sem greinin hefur orðið fyrir á undanförnum misserum og munar vissulega um minna.
Það gleður okkur þó mest að sjá að greinin gleymist ekki alfarið eins og oft hefur verið þegar stjórnvöld hafa orðið að bregðast við krísuástandi í landbúnaði,“ segir Ingvi Stefánsson, formaður Deildar svínaræktar hjá BÍ.
„Einnig er mjög ánægjulegt að sjá tillögur um að auknum fjármunum verði varið í jarðræktarstyrki. Það er auðvitað lykillinn í því að efla fæðuöryggið. Síðast en ekki síst líst okkur mjög vel á þær aðgerðir sem spretthópurinn leggur til að verði komið á til lengri tíma litið. Allar eiga þær það sammerkt að stuðla að auknu fæðuöryggi sem hlýtur að vera lykilatriði í íslenskum landbúnaði á 21. öld.“