Baráttu Covid líkt við „Guttavísur“
Enn og aftur er Covid að stríða okkur og eflaust verður það svo um einhvern tíma til viðbótar, jafnvel ár (vonandi ekki því ég, ólærður maðurinn, þarf svo mikið að lesa og fræðast til að koma svona pistlum um málefni sem ég veit ekkert um skammlaust frá mér að það er mér erfitt og tímafrekt).
Fyrir réttum tveim árum var fyrsta Covid-19 smitið greint (17. nóvember 2019 í Kína), en aldrei í sögulegum heimildum hefur nokkur pest farið eins hratt um allan heim eins og Covid-veiran.
Þegar faraldur dreifist út fyrir landamæri lands, þá verður sjúkdómurinn opinberlega að heimsfaraldri. Sé saga heimsfaraldra og smitpesta skoðuð þá er fyrsta heimildin frá Aþenu um 430 fyrir Krist, pestin dreifðist, sem er talin hafa verið taugaveiki, náði til nálægra ríkja og felldi nálægt 2 af hverjum þrem sem fékk sjúkdóminn.
Reglulega hafa komið upp skæðar farsóttir með hærri dánartíðni
Séu heimsfaraldrar skoðaðir þá voru margir þeirra svo skæðir að verstu farsóttir felldu 9 af 10 sem fengu pestirnar. Sennilega er versta heimildin frá 1492 eftir komu Spánverja til Karíbahafsins sem smituðu frumbyggja af bólusótt, mislingum og kýlapest. Lögðu þessir sjúkdómar frumbyggja í rúst, þar sem allt að 90 prósent dóu um alla Norður- og Suður-Ameríku. 1665 til 1666, pestin í London sem felldi 20% íbúa í London. Pestin, sem var kölluð „gubbuplágan“, var fyrst talin hafa breiðst út með hundum og köttum, en í seinni fræðum er talið að orsökin hafi verið óþrifnaður, mengað vatn og saurmengun. Spánska veikin 1918 er enn sem komið er mannskæðasta pest allra tíma, leiddi til 50 milljóna dauðsfalla um allan heim, byrjaði 1918 í Evrópu, Bandaríkjunum og hlutum Asíu áður en hún dreifðist hratt um heiminn. Á þeim tíma voru engin áhrifarík lyf eða bóluefni til að meðhöndla þennan dráps-flensustofn.
Baráttan við Covid-19 hvergi eins og misjöfn á milli landa
Íslendingum gekk vel allt þar til nú í nóvember að forðast smit. Virðist nú svo komið fyrir okkur að sjúkrastofnanir og sóttvarnir séu að fara í þrot og við blasi neyðarástand.
Fólk tók vel leiðbeiningum framan af ári og „flestir“ fóru eftir þeim sóttvarnarráðum sem gefnar voru til að forðast smit. Bólusetning gekk vel og gaf vonir um að gefa mætti eftir í sóttvörnum, en því miður virðist þessi veira ná að læða sér inn í gegnum bólusetta einstaklinga.
Það góða við bólusetninguna er að þeir einstaklingar veikjast mun vægar en þeir óbólusettu sem sýnir að bólusetningin er að virka. Þess vegna er nú boðað til örvunarskammts af bóluefni sem er að mati fræðinga það sem þarf til að ná því sem kallast „hjarðónæmi“.
Fyrir mér ólærðum manni um smit og læknisfræði tel ég að mér beri að fara eftir ráðleggingum fræðimanna í læknavísindum enda ekki með lærdómsgráðu til að andmæla þeirra ráðleggingum. Furða mig oft á ummælum fólks með enga læknisfræðilega þekkingu sem er að gaspra um læknisfræði. Tökum okkur nú saman og klárum þetta í sameiningu svo við getum haldið jólin með þeim hefðum sem við þekkjum.
Líkja mætti Covid-baráttu Íslendinga við Guttavísur Stefáns Jónssonar
Ef rifjað er upp í huganum Guttavísur Stefáns Jónssonar og kveðskapurinn settur í huganum sem barátta Íslendinga við Covid þá er hægt að brosa að öllu saman:
Þórólfur, Alma og Víðir væru pabbi og mamma og framhald vísunnar væri sú að þjóðin í heild væri Gutti: Snúa mætti ýmsu úr kveðskapnum sem óþekkt Gutta var sögð vera þegar slakað var á sóttvörnum og bólgna nefið sem mætti hafa á tröll væri yfirfullar sjúkrastofnanir. Hvern á svo að flengja eins og ein línan í kvæðinu gefur til kynna? Það er ekki spurning hverja á að flengja. Það eru þeir sem ekki vilja fara að ráðum „pabba og mömmu“ (þríeykisins), þiggja ekki bólusetningu, nota ekki grímu o.fl. Svo er það ríkisstjórnin sem ekki er sammála um aðgerðir, þarf þá ekki bara að flengja „ræflana“ sem eru ósammála?