Beit í Almenningum bundin við 60 tvílembur
Þann 1. apríl síðastliðinn var úrskurðað að nýju um beitarheimild á afréttinum Almenningum í Rangárþingi eystra, á landssvæði sem liggur norður af Þórsmörk. Meirihluti yfirítölunefndar úrskurðaði nú að beita megi 60 tvílembum á Almenninga frá og með næsta sumri. Það er tíu tvílembum meira en fyrri yfirítölunefnd úrskurðaði um í mars árið 2013.
Sá úrskurður var kærður af Skógrækt ríkisins og því var ný yfirítölunefnd skipuð; þeim Önnu Margréti Jónsdóttur ráðunauti, Ágústi H. Bjarnasyni plöntuvistfræðingi og Skarphéðni Péturssyni hæstarréttarlögmanni, sem einnig var formaður nefndarinnar. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni, líkt og fyrri nefnd, og var fyrrgreind niðurstaða þeirra Önnu Margrétar og Skarphéðins, en Ágúst skilaði séráliti. Þar kom fram að hann hefði verið tilbúinn til að fallast á að leyfa lausagöngu tíu lambáa eða jafngildi þeirra, en skynsamlegast væri að bændur kæmu sér upp 15-20 hektara beitarhólfi á Almenningum – ef til vill í samvinnu við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins – og fengu að beita það að eigin vild undir vökulu auga rannsóknastofnunar.
Talsverðar deilur hafa um nokkurt skeið staðið um beit á Almenningum. Frá fornu fari hafa Almenningar verið afréttur Vestur-Eyfellinga. Þórsmörk var á hinn bóginn í eigu bænda í Fljótshlíðarhreppi að hálfu á móti kirkjunni í Odda. Árið 1920 afsöluðu bændur í Fljótshlíðarhreppi og sóknarprestur í Odda sér beitarrétti á Þórsmörk.
Eins og fyrr segir er niðurstaða meirihluta nefndarinnar að heimildin til beitar næsta sumar er aukin frá fyrri úrskurði. Á móti kemur að ekki er lagt til að fjöldinn hækki í áföngum upp í 130 tvílembur eins og fyrri meirihluti lagði til. Miðað er við að talan sé föst við 60 tvílembur eða 180 fjár að hámarki og ekkert umfram það.
Nálgast má nýja úrskurðinn og sérálit Ágústs á vef hans ahb.is.