BÍ sækir um aðild að WFO
Búnaðarþing hefur samþykkt tillögu þess efnis að Bændasamtök Íslands sæki um aðild að Alþjóðasamtökum bænda
World farmers organization ,WFO, eru alþjóðleg samtök búvöruframleiðenda sem hafa að markmiði að styrkja stöðu bænda í virðiskeðjunni með sérstakri áherslu á smábændur. Með því að tala fyrir hönd bænda og kynna hagsmuni þeirra á alþjóðavettvangi, styður WFO bændur til að takast á við verðsveiflur auka markaðstækifæri og að fá tímanlega aðgang að markaðsupplýsingum.
Erna Bjarnadóttir aðstoðarframkvæmdastjóri BÍ segir að vinna WFO tengist öllum áherslusviðum landbúnaðar hvort sem það er skógrækt, fiskeldi, fiskveiðar, umhverfismál, viðskipti, þjónusta eða rannsóknir og menntun.
„WFO var stofnað 2011 og hvetur til þátttöku bænda í sjálfbærri þróun dreifbýlis, verndun umhverfisins og að takast á við önnur vaxandi viðfangsefni, svo sem loftslagsbreytingar, kynslóðaskipti og jafnréttismál.“