Birkið er víða illa farið eftir birkikembu
Birkitré eru víða mjög ljót eftir birkikembu, sem er skaðvaldur á trjánum, ekki síst þar sem hún hefur verið áður eins og á Suðurlandi, Vesturlandi og á stöku stað á Norðurlandi, t.d. er birkið illa farið á Akureyri.
„Við höfum síðan frétt af því að hún sé komin í Barðastrandarsýslu, en þar höfum við ekki haft fregnir af henni áður. Á Austurlandi eru engin ummerki um birkikembu en hins vegar hafa aðrar fiðrildalirfur verið að leika birkið grátt þar,“ segir Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðsstjóri rannsóknasviðs hjá Skógræktinni á Mógilsá.
Á heimasíðu Skógræktarinnar kemur fram að birkikemba er fiðrildategund og er það lirfan sem veldur skaða. Kvenfiðrildin verpa eggjunum undir yfirhúð laufblaða snemma sumars. Þar klekjast þau út í blaðholdinu og lirfurnar nærast á því. Fullvaxin lirfa púpar sig í jörðu og bíður næsta vors.