Bjartsýnn á góða uppskeru
Líkur eru á góðri uppskeru útiræktaðs grænmetis um allt land þrátt fyrir að vorið hafi verið kalt framan af. Fyrstu kartöflurnar og kálið er farið að sjást í verslunum og von á að útirækta grænmetið fari að streyma á markað undir næstu mánaðamót.
Helgi Jóhannesson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, er bjartsýnn á að uppskera á útiræktuðu grænmeti verði yfir meðaltali í ár. „Þetta er allt að koma og spretta eins og í meðalári eins og er. Það er sömu sögu að segja um allt land, bændur settu niður á nokkuð eðlilegum tíma en vorið var kalt framan af og sprettan því hæg fyrstu vikurnar. Lofthiti var lágur og kalt á nóttunni.“
Fyrstu kartöflurnar undan plasti eru komnar á markað og eitthvað af káli en fyrstu gulræturnar og gulrófurnar fara ekki að sjást í verslunum fyrr en eftir hálfan mánuð eða undir næstu mánaðamót.
„Tíðin hefur verið góð undanfarið, hlýindi og væta og ég heyri ekki betur á bændum en að sprettan sé góð og að þeir séu bjartsýnir bæði á uppskeruna og markaðinn í ár ef ekkert óvænt kemur upp á.