Blábankinn hlaut Landstólpann
Blábankinn á Þingeyri hlaut samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar, Landstólpann, en alls bárust 12 tilnefningar vegnar viðurkenningarinnar og komu þær víðs vegar að af landinu. Landstólpinn var afhentur á ársfundi Byggðastofnunar og er þetta í níunda sinn sem viðurkenningin er veitt.
Blábankinn rekur öfluga ímyndarherferð sem leggur áherslu annars vegar á fjölbreytni og gildi mannlífs og náttúru Dýrafjarðar og hins vegar á möguleika og framtíð staðarins. Blábankinn er sameiningartákn og hreyfiafl í samfélaginu. Fjöldi viðburða og funda er haldinn innan veggja hans í hverjum mánuði en bæði heimaog aðkomufólk nýta sér aðstöðuna sem vinnurými, sköpunarrými, samfélagsmiðstöð og margt fleira.
Hefur áhrif á atvinnumynstrið
Þegar Blábankinn var stofnaður haustið 2017 voru um 80 störf á Þingeyri, en ekkert þeirra dæmigert skrifstofustarf. Nú vinna að jafnaði 3–6 aðilar hverju sinni innan veggja Blábankans, bæði tímabundið og til frambúðar, í skapandi greinum, stjórnsýslu og frumkvöðlastarfi. Á fyrstu 12 mánuðum starfseminnar dvöldu í Blábankanum 70 skapandi einstaklingar og unnu samtals 900 vinnudaga, m.a. gegnum nýsköpunarhraðal og vinnustofur. Þessir einstaklingar taka jafnan virkan þátt í því samfélagi sem fyrir er og hefur Blábankinn því á tiltölulega skömmum tíma og með lítilli fjárfestingu haft töluverð áhrif á atvinnumynstur staðarins.
Viðurkenningargripurinn í ár er listmunur úr rekavið af Skaga, sem er nesið á milli Húnaflóa og Skagafjarðar, hannaður og útskorinn af Erlendi Magnússyni, listamanni á Skagaströnd, en hann er m.a. þekktur fyrir skúlptúr úr stuðlabergi úr Spákonufelli.