Blóðsjúgandi mítill fannst á villtum fugli
Fyrir skömmu greindist blóðsjúgandi mítill á smyrli sem fannst nær dauða en lífi og reyndist vera smitaður af gífurlegum fjölda mítla. Greining á mítlinum leiddi í ljós að um var að ræða tegundina Ornithonyssus sylviarum, mítil sem er algengur um allan heim en hefur ekki áður fundist í villtum fuglum hér á landi.
Tegundin getur verið alvarlegur skaðvaldur á alifuglabúum nái hún þar fótfestu en hingað til hefur mítillinn ekki fundist hér í hænsnum.
Karl Skírnisson, dýrafræðingur hjá Tilraunastöðinni á Keldum, segir að fundur mítilsins sé áhyggjuefni þar sem tegundin sé mikill skaðvaldur í alifuglaeldi erlendis.
„Mítillinn getur orðið verulegur skaðvaldur ef hann nær fótfestu á alifuglabúum hér á landi. Smitaðir fuglar verpa færri eggjum og stundum orsakar mítillinn fjöldadauðsföll. Fundur þessa mítils veldur áhyggjum, ekki hvað síst vegna þess að hér er á ferðinni sníkjudýr sem halda þarf í skefjum með notkun skaðlegra mítlalyfja sem geta fundist í afurðunum, auk þess sem smitið veldur hýslunum ómældri þjáningu.“
Gríðarlegur fjöldi mítla
Sýkti smyrillinn var afhentur Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði og hann reyndist vera smitaður af gífurlegum fjölda mítla sem sáust með berum augum skríða um á fiðri fuglsins. Smyrillinn var illa á sig kominn og drapst fljótlega þrátt fyrir að reynt væri að meðhöndla hann og hjúkra honum.
„Nokkrir tugir mítla voru sendir á Keldur til greiningar og leiddi hún í ljós að um tegundina Ornithonyssus sylviarum var að ræða.
Þrátt fyrir að mítillinn sé smátt sníkjudýr, tæplega eins millimetra langt, veldur það hýslinum miklum sársauka og skaða. Öll þroskastig í lífsferlinum lifa á honum og sjúga úr honum blóð. Lífsferillinn tekur ekki nema 5 til 7 daga þannig að smit getur magnast hratt og smit verður við snertingu,“ segir Karl.
Greindist í sóttkví
Í frétt á heimasíðu Mast frá 2018 segir að mítlar af sömu tegund hafi greinst á búrafuglum, spörfuglum, sem haldnir voru í sóttkví hjá innflytjanda skrautfugla. Þar segir, svipað og greint er frá hér að ofan, að um sé að ræða skaðlegt sníkjudýr sem getur haft alvarleg áhrif á heilsu og velferð fugla og var þetta í fyrsta sinn sem mítillinn var greindur hér á landi.
Greiningin var gerð á Tilraunastöðinni á Keldum. Skrautfuglum í þessari sendingu var eytt og húsnæðið sótthreinsað sem fuglarnir höfðu verið haldnir í meðan að þeir voru í sóttkvínni til að hindra að smitið dreifðist innanlands.
Til mikils að vinna
Ef vart verður við mítla er mikilvægt að grípa fljótt til aðgerða til að útrýma þeim því til mikils er að vinna að halda þessum skaðvaldi frá alifuglum og öðrum fuglum í haldi. Við kaup og sölu, og annan flutning fugla, er mikilvægt að gæta þess að fuglarnir séu heilbrigðir og lausir við sníkjudýr.
Fuglamerkingamenn og aðrir þeir sem handfjatla fugla hér á landi, hvort sem það eru villtir fuglar, alifuglar eða skrautfuglar, eru hvattir til að safna blóðmítlum sem kunna að finnast og koma þeim í greiningu þannig að hægt sé að fylgjast með því hvort þessi mítill sé að nema hér land. Auk þess sem fuglaeigendur ættu að setja sig strax í samband við dýralækni, vakni grunur um mítlasmit.