Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Vísindalegar sannreyndar rannsóknir á áhrifum blóðtöku á fylfullum hryssum, eins og hún er framkvæmd í dag, skortir að mati skýrsluhöfunda. Þar segir þó að starfsemin byggi á áratuga reynslu, eftirlit sé margþætt og sýni að heilsufar hryssnanna sé gott, framleiðslusjúkdómar séu nær óþekktir og afföll afar lítil.
Vísindalegar sannreyndar rannsóknir á áhrifum blóðtöku á fylfullum hryssum, eins og hún er framkvæmd í dag, skortir að mati skýrsluhöfunda. Þar segir þó að starfsemin byggi á áratuga reynslu, eftirlit sé margþætt og sýni að heilsufar hryssnanna sé gott, framleiðslusjúkdómar séu nær óþekktir og afföll afar lítil.
Mynd / ghp
Fréttir 16. júní 2022

Blóðtaka úr fylfullum hryssum verður starfsleyfisskyld

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Blóðtaka úr fylfullum hryssum verður áfram leyfð hér á landi með skilyrðum, sem sett verða í nýrri reglugerð matvælaráðherra.

Aðdragandi hennar er nýútkomin skýrsla starfshóps á vegum ráðuneytisins sem fjallaði um blóðtökur úr fylfullum hryssum, regluverk og eftirlit með henni.

Starfshópurinn var skipaður í byrjun árs eftir að myndband svissneskra dýraverndarsamtaka var birt á vefnum, þar sem sjá mátti illa meðferð á hryssum í blóðtöku.. Í kjölfarið sköpuðust miklar umræður um blóðmerabúskap, tilgang blóðtökunnar og meðhöndlun hryssna sem nýttar eru í slíka starfsemi. Í vinnu sinni leitaði starfshópurinn umsagna og álits fjórtán hagaðila, s.s. fulltrúa dýraverndarsamtaka, dýralækna, hrossabænda, líftæknifyrirtækisins Ísteka og fleiri.

Reglugerð byggð á skilyrðum Matvælastofnunar

Í skýrslunni er rýnt í umfang starfseminnar, eftirlit, dýravelferð, löggjöf, sjónarmið hagaðila. Út frá þeim eru settar fram tillögur um framhald starfseminnar. Fram kemur að sjónarmið hagaðilanna séu ósamrýmanleg og skoðanir á báða vegu mjög afdráttarlausar. Valkostir um framhald málsins séu í meginatriðum tveir; að leyfa starfsemina áfram en með breyttum forsendum eða banna hana.

Svandís Svavarsdóttir matvæla­ ráðherra fór að fyrri tillögu hópsins og hefur nú sett reglugerð um starfsemina sem gilda mun til þriggja ára. Í henni verður kveðið á um að starfsemin sé leyfisskyld og að skýrt verði kveðið á um hvaða skilyrði hún þarf að uppfylla.

Samkvæmt skýrslunni geta skilyrði reglugerðarinnar byggst á þeim sem Matvælastofnun setur nú þegar en auk þess leggur hópurinn til að þau verði aukin með tilliti til þeirra sjónarmiða sem fram komu hjá þeim aðilum sem starfshópurinn ræddi við.

„Setja þarf ítarlegri ákvæði um aðbúnað og aðstöðu, eftirlit með ástandi hrossa varðandi heilbrigði, hófhirðu og skapgerðarmat, vinnuaðferðir við blóðtökuna sjálfa og um innra og ytra eftirlit með henni. Þá telur hópurinn nauðsynlegt að óháður aðili, svo sem Tilraunastöðin á Keldum, sannreyni mælingar á blóðbúskap hryssnanna að minnsta kosti tímabundið. Nauðsynlegt er einnig að skilyrði verði sett um aldursbil hryssna í blóðtöku, hámarksfjölda í stóðum og hámarksfjölda sem dýralæknir má hafa umsjón með í blóðtöku. Þá er eðlilegt að aðstoðarmaður undir stjórn dýralæknis sé til staðar við hvern blóðtökubás til að geta brugðist skjótt við ef vandamál koma upp,“ segir í skýrslunni.

Lagt er til að framleiðsluhvetjandi hvatakerfi, sem geta stefnt dýravelferð í hættu, verði óheimil.

Samkvæmt gæðahandbók Ísteka frá árinu 2017 eru greiðsluflokkar fyrir blóð hryssu þrír, F, H og H2. Borgað er fyrir bestu heimtur. Til að lenda í hæsta greiðsluflokki (H2) þarf hryssa að gefa af sér 5 lítra átta sinnum á blóðtökutímabili. Inntökumörk í flokk H eru 25 lítrar yfir sumar að meðaltali. Aðrar fara í lægri greiðsluflokk – F.

Fjögur meginsjónarmið

Í skýrslunni er farið yfir megin­ sjónarmið þeirra hagaðila sem starfshópurinn ræddi við. Sex hagaðilar töluðu fyrir banni á starfseminni en átta vildu leyfa með skilyrðum.

Meginsjónarmið sem aðilarnir byggðu afstöðu sína á lutu að dýravelferð, efnahagslegum sjónar­ miðum, ræktunarsjónarmiðum og rétt til atvinnu. Starfshópurinn dró fram heildarmynd hverra meginsjónarmiða þar sem dýravelferð fékk lengstu afgreiðsluna og ekki að ósekju, þar sem myndbandið sem varð til þess að umræða um starfsemina fór í gang beinir sjónum sínum sérstaklega að velferð dýranna.

Undir efnisflokknum er fjallað um útigöngu blóðmerastóða, blóðtöku, blóðmagn og tilgang blóðtökunnar.

Því er lýst að hross sem ganga úti allt árið verði ekki meint af því. Þvert á móti njóti þau þannig mest frelsis og hafa besta möguleika á að sýna sitt náttúrulega eðli, sem styður alþjóðleg sjónarmið um dýravelferð. Hins vegar þurfi að huga vel að fóðrun útigangshrossa og að þau séu í góðum holdum.

Aðgerð blóðtökunnar sjálfrar er enn fremur til umræðu en myndbandið sýndi að skelfileg atvik geti átt sér stað ef illa er að verki staðið við slíkar aðfarir. Fram kemur að blóðtakan sjálf sé íþyngjandi fyrir hryssur en þær jafni sig á tiltölulega skömmum tíma. Ekki hafi komið upp alvarleg frávik við blóðtöku við eftirlit Matvælastofnunar.

Ekki hægt að heimfæra rannsóknir á nagdýrum á hross

Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvað fylfullar merar þola að missa mikið magn af blóði, bæði við hverja blóðtöku og yfir blóðtökutímabilið. Í dag getur blóðtakan numið allt að 5 lítrum vikulega í 8 vikur, eða allt að 40 lítrum yfir blóðtökutímabil.

Við umfjöllun um blóðmagnið fékk starfshópurinn til sín Xavier Mateca Vilanova prófessor, sem er fyrsti höfundur vísindagreinar sem talsvert var vísað til í umræðu um hvað eðlilegt magn geti talist í blóðtöku. Grein hans fjallar um blóðtöku úr nagdýrum og sagði hann við starfshópinn að ekki væri hægt að heimfæra þær niðurstöður á hross án fyrirvara því grundvallar líffræðilegur munur er á milli nagdýra og hrossa. Þessi eðlismunur er skýrður í skýrslunni.

Vísað er í aðra rannsókn þar sem staðhæft er að áhrifin af því að taka 25% af blóðmagni úr hrossi í einu væru tímabundin og innan viðmiðunarmarka er varðar heilsu og velferð sem settar eru fram.

„Blóðtaka sem nemur 20 mL/ kg svarar því til 7,6–8,2 lítra sem er þriðjungi meira en tekið er úr hryssum hér á landi. Rannsóknin tekur ekki til endurtekinnar blóðtöku en fram kemur að flestir blóðþættirnir hafi endurnýjað sig á innan við viku. Þá var hún ekki framkvæmd á fylfullum hryssum og óvíst hvort það hafi einhver áhrif,“ segir í skýrslunni.

Jafnframt kemur fram að þrátt fyrir að vísindalega sannreyndar rannsóknir á áhrifum blóðtökunnar, eins og hún er framkvæmd í dag, skorti byggi starfsemin á áratuga reynslu. Eftirlitið sé margþætt og sýni að heilsufar hryssnanna sé gott, framleiðslusjúkdómar séu nær óþekktir og afföll afar lítil.

„Þá eru fyrirliggjandi mælingar á hemoglóbíni hjá 2.391 hryssu yfir 11 ára tímabil, sem gefa mynd af blóðbúskap hryssnanna viku eftir hverja blóðtöku. (...) Þær mælingar benda til þess að blóðtapið sé innan þeirra marka sem hryssurnar geta mætt með varabirgðum (til skamms tíma) og nýmyndun blóðs (til lengri tíma). Styrkur hemóglóbíns helst því innan viðmiðunarmarka allt blóðtökutímabilið,“ segir í skýrslunni.

Litlar ályktanir eru dregnar af umræðum um tilgang blóðtökunnar en að ekki sé hægt að réttlæta framleiðslu á hráefni í frjósemislyf sem notuð eru í þauleldi annarra húsdýra, ef aðstæður eldisdýranna séu ekki í samræmi við alþjóðleg viðmið um velferð dýra.

„Því verði að réttlæta hana á eigin forsendum, sem dýrahald í atvinnuskyni sem skapar eigandanum tekjur,“ segir í skýrslunni.

Erfitt að mæla áhrif á ímynd

Þá er velt upp möguleikum þess að banna starfsemina, en starfshópurinn telur að ekki sé hægt að gera það á grundvelli laga um velferð dýra. Til þess skorti málefnalegri sjónarmið.

„Ef banna á starfsemina á grundvelli dýravelferðar þyrfti auk þess að líta til jafnræðis milli mismunandi dýrahalds í atvinnuskyni en starfshópurinn fór ekki í slíkan samanburð. Að auki yrðu að koma til sterkari málefnaleg sjónarmið byggð á mögulegum breytingum á niðurstöðum eftirlits og rannsókna. Annar möguleiki væri að banna starfsemina á grundvelli óbeinna efnahagslegra hagsmuna, s.s. ímyndar íslenska hestsins og hugsanlegra neikvæðra áhrifa á hestatengda starfsemi í landinu.“

Hins vegar komi fram að erfitt sé að mæla eða sýna fram á slík áhrif en það yrði óhjákvæmilegt áður en ákvörðun yrði tekin með tilliti til slíkra sjónarmiða.

„Slík sjónarmið kunna að falla undir skilyrðið um að almannahagsmunir krefjist þess að starfsemi þessi verði bönnuð en slík ákvörðun verður að auki að samrýmast þeim kröfum sem gerðar eru til skerðingar á stjórnarskrárvörðum réttindum,“ segir í skýrslunni.

Í viðauka skýrslunnar kemur fram að blóðmerahald sé ekki bannað í dýraverndarlögum Evrópuríkja og ekki sé að finna ákvæði í almennri dýraverndunarlöggjöf Evrópuríkja þar sem lagt sé bann við blóðtöku úr fylfullum merum til framleiðslu á PMSG.

Þriggja manna starfshópur

Í starfshópnum voru Iðunn Guðjónsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega­ og nýsköpunarráðu­ neytinu, sem var formaður hópsins, Sigríður Björnsdóttir, yfirdýralæknir í hrossasjúkdómum hjá Matvælastofnun og Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands.

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...