Boðað til fundar um stofnun hagsmunafélags
Boðað er til fundar um stofnun hagsmunafélags hrossabænda, sem halda blóðmera, í kvöld, föstudagskvöldið 8. apríl kl. 20 í Gunnarshólma í Austur-Landeyjum að er fram kemur í tilkynningu frá Sigríði Jónsdóttur, sem skrifar fyrir hönd stjórnar Í-ess bænda og starfshóps hrossabænda á Norðurlandi.
„Hagsmunafélagið Í-ess bændur var stofnað árið 2004 í Austur-Landeyjum af hrossabændum. Félagssvæði þess er Rangárvalla- og Árnessýsla. Markmið félagsins er að hámarka verðmæti afurða hryssa í blóð- og kjötframleiðslu. Þetta félag er enn starfandi og hefur reynst afar mikilvægt. Nú er hins vegar tímabært að sameina stóðbændur af öllu landinu í eitt félag til að standa vörð um hagsmuni búgreinarinnar. Af því tilefni er boðað til funda bæði sunnanlands og norðan.
Fundur Í-ess bænda og annarra stóðbænda, sem vilja tilheyra suðurdeild Hagsmunafélags stóðbænda, verður haldinn í Gunnarshólma í Austur-Landeyjum föstudagskvöldið 8. apríl kl. 20.
Fundur stóðbænda, sem vilja tilheyra norðurdeild Hagsmunafélags stóðbænda, verður auglýstur síðar. Sá fundur verður haldinn við fyrsta tækifæri, líklegast á Blönduósi.
Einhverjum bændum mun reynast ómögulegt að sækja þessa fundi og æskilegast væri að bjóða upp á fjarfundi fyrir þá sem langt eiga að sækja. Því miður verður ekki af því að þessu sinni en í stað þess reynum við að ná til sem allra flestra eftir öðrum leiðum.
Við sem stöndum að þessum fundum höfum sent stóðbændum samþykktir félagsins og fundarboð í tövupósti. Þeir sem telja sig tilheyra þessum hópi og hafa ekki fengið nein slík boð, gerið svo vel að hafa samband við Sigríði Jónsdóttur í netfanginu gkot@mi.is eða síma 822-8421."