Bora fyrir heitu vatni við Laugarvatn
Í sumar hefur verið unnið að borun svokallaðra hitastigulshola á Laugarvatni.
Um er að ræða rannsóknarboranir til að ákvarða hvar vænlegast sé að bora eftir heitu vatni. ÍSOR hefur unnið með Bláskógaveitu að kortlagningu jarðhita á Laugarvatni og mun gera tillögu að staðsetningu borholu eftir mat á niðurstöðum umræddra rannsóknarborana.
„Nauðsynlegt er að tryggja nægilegt magn af heitu vatni, enda er þörf á því, bæði vegna fjölgunar íbúða á Laugarvatni og fyrirhugaðrar stækkunar Fontana, auk þess sem sumarhúsafélög í nágrenni Laugarvatns hafa sýnt áhuga á að tengjast hitaveitu,“ segir Kristófer Tómasson, sviðsstjóri framkvæmda- og veitusviðs Bláskógabyggðar.