Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Oddný Anna Björnsdóttir.
Oddný Anna Björnsdóttir.
Fréttir 11. desember 2019

Brýn þörf fyrir samtök ólíkra smáframleiðenda

Höfundur: smh

Samtök smáframleiðenda matvæla (SSFM) voru stofnuð 5. nóvember síðastliðinn. Markmið samtakanna er meðal annars að stuðla að öflugra samstarfi og auknum samtakamætti smáframleiðenda matvæla um land allt.

Stjórn SSFM hefur ráðið Oddnýju Önnu Björnsdóttur, sjálfstæðan ráðgjafa og bónda, sem framkvæmdastjóra og segir hún langþráðan draum verða að veruleika með stofnun samtakanna. Fyrsta mál á dagskrá er að gera aðgerða- og kostnaðaráætlun.

Oddný Anna segir að samkvæmt samþykktum samtakanna verði hennar hlutverk að vinna að markmiðum þeirra í samræmi við aðgerðaráætlun. „Ég verð opinber málsvari samtakanna, mun kynna málefni þeirra í fjölmiðlum og vinna að öðru leyti í samræmi við samþykktir þeirra og aðalfundar.

Ég tók formlega við hlutverkinu mánudaginn 2. desember og átti minn fyrsta fund með stjórn daginn eftir. Næstu mál á dagskrá eru að gera tímasetta aðgerða- og kostnaðaráætlun, í samræmi við tilgang og markmið samtakanna. Við gerð aðgerðaáætlunarinnar verður meðal annars byggt á tillögum að aðgerðum sem voru ræddar á undirbúningsstofnfundi samtakanna þann 3. september og undirrituðum verksamningi við Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi.“

Þörfin kom fram í gegnum ólík verkefni

Oddný Anna segir að starfið leggist vel í sig. „Það er langþráður draumur að svona samtök komist á koppinn hér á landi. Í verkefnum mínum með Brynju Laxdal, verkefnastjóra Matarauðs Íslands, síðastliðin tvö ár kom berlega í ljós að þörf væri fyrir eins konar regnhlífarsamtök smáframleiðenda á Íslandi sem myndu vinna að hagsmunamálum  þeirra, vera málsvari þeirra og stuðla að framförum í
málefnum sem þá varða eins og fram kemur í tilgangi samtakanna.

Þörfin kom fyrst fram í þarfagreiningunni fyrir stjórn Beint frá býli (BFB) og í kjölfar hennar verkefninu um íþyngjandi regluverk. Þar kom í ljós að þarfir félagsmanna BFB væru að miklu leyti þær sömu og þarfir smáframleiðenda almennt, óháð því hvort þeir væru í borg, bæ, landsbyggð eða á lögbýlum – eins og félagsmenn BFB þurfa að vera. Þörfin kom svo berlega í ljós í verkefninu sem gekk út á að koma
á fót REKO-hópum um land allt, en REKO gengur út á milliliðalaus viðskipti milli smáframleiðenda og neytenda í gegnum Facebook og þar koma einmitt saman þessir ólíku smáframleiðendur. Þörfin var svo staðfest í formlegri úttekt síðastliðið vor og voru stjórn Landbúnaðarklasans og Samtök iðnaðarins einnig öflugir bakhjarlar á þeirri vegferð og fram að stofnfundi,“ segir Oddný Anna en hún situr í stjórn Landbúnaðarklasans.

Á undirbúningsstofnfundi SSFM var Oddný Anna kjörin formaður undirbúningsstjórnar. Lykilverkefni hennar voru að klára drögin að samþykktunum, halda áfram samtali við möguleg aðildarfélög, koma með tillögu að aðildargjaldi, afla og koma auga á mögulega styrki, auglýsa eftir framboðum í stjórn, ásamt því að undirbúa og halda stofnfund. Þrír úr undirbúningsstjórnsitja nú í stjórn, en tveir nýir bættust við. Karen Jónsdóttir, eigandi Kaja organic, Café Kaja og Matarbúrs Kaju, er formaður samtakanna. Með henni í stjórn eru Svava Hrönn Guðmundsdóttir, frá Sælkerasinnepi Svövu sem er varaformaður, Guðný Harðardóttir, frá Breiðdalsbita, Þórhildur M. Jónsdóttir, frá Kokkhúsi og Vörusmiðju BioPol og Þröstur Heiðar Erlingsson frá Birkihlíð Kjötvinnslu. Varamenn samtakannaeru Ólafur Oddsson, frá Súrkáli fyrir sælkera og Auður B. Ólafsdóttir, frá Pönnukökuvagninum.

Skráning í samtökin í gegnum tölvupóst

Að sögn Oddnýjar Önnu verður rekstur samtakanna einfaldur í byrjun, enda hún eini starfsmaðurinn og eingöngu í hlutastarfi. „En það felst mikill styrkur og stuðningur í því að vera undir hatti Samtaka iðnaðarins sem vinna að hagsmunamálum sinna félagsmanna. Fókusinn verður til að byrja með á að safna félögum og tryggja fleiri styrki ásamt því að vinna að þeim málefnum sem verða sett á oddinn í aðgerðaáætluninni.

Við bjuggum til Facebook-hóp strax daginn eftir undirbúningsstofnfundinn, í honum eru nú ríflega 220 manns, bæði smáframleiðendur og velunnarar samtakanna. Í bígerð er að setja upp vefsíðu. Undirbúningsstjórn tryggði sér lénið ssfm.is sem er sú skammstöfun sem ákveðið var að nota fyrir samtökin. Þegar hún verður komin upp verður hægt að skrá sig í samtökin í gegnum hana, en þangað til er hægt að senda tölvupóst á netfangið samtok.smaframleidenda.matvaela@gmail.com.

Gjald fyrir fulla aðild eru 10.000 krónur en aukaaðild 5.000 krónur. Full aðild að samtökunum felur í sér aðild að Samtökum iðnaðarins og í gegnum þau Samtök atvinnulífsins. Aukaaðild er fyrir þá sem styðja markmið samtakanna en uppfylla ekki þau skilyrði að vera smáframleiðandi.

Í undirbúningsferlinu var rætt við samtökin Beint frá býli, VORverndun og ræktun, Landssamband smábátaeigenda og Slow Food um mögulega aðild að samtökunum. Félagsmenn BFB munu kjósa um það á næsta aðalfundi hvort samtökin verði formlegir aðilar að SSFM sem mun þýða að félagsmenn þeirra verði aðilar að SSFM í gegnum aðild sína að BFB. VOR og Slow Food ætla sér að verða aukaaðilar. Nýr formaður er tekinn við í Landssambandi smábátaeigenda og mun ég taka upp þráðinn við hann á næstunni,“ segir Oddný Anna.

Breytingin nær tvöföld losun landbúnaðarins
Fréttir 13. janúar 2025

Breytingin nær tvöföld losun landbúnaðarins

Skráð losun gróðurhúsa­lofttegunda frá votlendi lækkar um 1,3 milljónir tonna CO...

Bætur enn ógreiddar vegna kuldakastsins
Fréttir 13. janúar 2025

Bætur enn ógreiddar vegna kuldakastsins

Starfshópur ráðuneytisstjóra forsætis­, fjármála­ og matvæla­ráðuneyta fer yfir ...

Hrútarnir frá Ytri-Skógum vinsælastir
Fréttir 10. janúar 2025

Hrútarnir frá Ytri-Skógum vinsælastir

Góð þátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember, litlu minni en árið 2023, sem...

Vörslusviptu fé slátrað og kúabændur sviptir leyfi
Fréttir 10. janúar 2025

Vörslusviptu fé slátrað og kúabændur sviptir leyfi

Matvælastofnun hefur lagt stjórnvaldsákvarðanir á umráðamenn dýra undanfarna tvo...

Minnkun í sölu dráttarvéla milli ára
Fréttir 9. janúar 2025

Minnkun í sölu dráttarvéla milli ára

Á vef Samgöngustofu má sjá að 127 nýjar dísilknúnar dráttarvélar voru nýskráðar ...

Kostir og gallar við erlent kúakyn
Fréttir 9. janúar 2025

Kostir og gallar við erlent kúakyn

Á mánudaginn var haldinn fjarfundur um kosti og galla þess að flytja inn erlent ...

Ekki til setunnar boðið að hrinda verkefnum í framkvæmd
Fréttir 9. janúar 2025

Ekki til setunnar boðið að hrinda verkefnum í framkvæmd

Nýr ráðherra landbúnaðarmála er Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar í...

Svínabændur fá frest til aðlögunar
Fréttir 9. janúar 2025

Svínabændur fá frest til aðlögunar

Svínabændum hefur verið gefinn lengri frestur til aðlögunar að tilteknum skilyrð...