Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Forsvarsmenn líftæknifyrirtækisins Ísteka, Arnþór Guðlaugsson framkvæmdastjóri og Kristinn Hugason samskiptastjóri. Þeir segja að hagnýting PMSG hafi umhverfisvænan ávinning.
Forsvarsmenn líftæknifyrirtækisins Ísteka, Arnþór Guðlaugsson framkvæmdastjóri og Kristinn Hugason samskiptastjóri. Þeir segja að hagnýting PMSG hafi umhverfisvænan ávinning.
Mynd / ghp
Fréttir 8. mars 2024

Búgrein blóðnytja ekki svarthvít

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Sú ákvörðun matvælaráðherra að fella starfsemi blóðtöku úr fylfullum hryssum undir tilskipun ESB um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni á ekki við og er dæmi um gullhúðun, að mati forsvarsmanna líftæknifyrirtækisins Ísteka. Þeir segja bæði afurðavinnslu fyrirtækisins og frumframleiðslu blóðbænda siðferðislega ásættanlegt.

„Ef ESA-álitið héldi einhverju vatni þá væri allur íslenskur landbúnaður ein tilraun. Við teljum mikinn meinbug á að taka upp tilskipunina því túlkunin er svo bersýnilega röng. Blóðsöfnun úr fylfullum hryssum er afurðaframleiðsla og þar með búgrein. Afurðanytjarnar eru engin tilraunamennska, hvorki á stigi bóndans þar sem frumframleiðslan fer fram, né heldur á stigi Ísteka, sem er afurðastöð þessarar búgreinar þar sem fullvinnsla lyfjaefnisins fer fram,“ segir Kristinn Hugason, samskiptastjóri fyrirtækisins.

Starfsemi Ísteka byggist að sögn Arnþórs Guðlaugssonar framkvæmdastjóra á margreyndri rútínu sem hefur verið notast við í áratugi. „Það væri í fullkomu lagi að fá leyfi samkvæmt tilskipun ESA ef til stæði að breyta einhverjum ferlum sem tengjast dýrunum og hafa áhrif á líðan þeirra. En þetta er ferill sem hefur verið óbreyttur í 45 ár. Ég veit ekki hvenær nokkuð getur komist af tilraunastiginu ef ekki eftir fjörutíu ár.“

Ísteka lætur nú reyna á lögmæti þess að fella starfsemina undir reglugerð um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni fyrir dómi. Mál fyrirtækisins gegn íslenska ríkinu var þingfest þann 7. febrúar og er nú beðið greinargerðar frá lögmanni ríkisins sem væntanleg er um miðjan mars.

Aftur í hámæli

Þangað til annað verður ákveðið hefur Ísteka gild leyfi til starfsemi sinnar. Samkvæmt nýuppfærðri vefsíðu þess framleiðir líftæknifyrirtækið virkt lyfjaefni „til að bæta framleiðni og dýravelferð búfjár og draga úr kolefnisfótspori í nútíma landbúnaði“.

Í því felast kaup á blóði frá bændum sem halda stóðmerar, en árið 2023 voru slík stóð skráð á um 90 bæjum og heildarfjöldi hryssna um 4.700 talsins. Blóði er safnað úr fylfullum hryssum á grundvelli leyfis frá Matvælastofnun, en dýralæknar á vegum Ísteka sjá um blóðtökurnar. Úr blóðinu er svo framleitt virkt lyfjaefni, PMSG, í verksmiðju Ísteka í Reykjavík sem síðan er selt til lyfjaframleiðenda erlendis. Útflutningstekjur Ísteka vegna sölu efnisins námu um 1,9 milljörðum króna árið 2023.

Árið 2021 komst starfsemi Ísteka í hámæli eftir útgáfu myndbands frá dýraverndarsamtökunum AWF sem sýndu ámælisverð vinnubrögð við blóðtöku. Síðan þá hafa samtökin gefið út fleiri myndbönd sem fela í sér gagnrýni á notkun lyfjaefnisins PMSG í svínarækt. Í viðtali við Bændablaðið árið 2022 sögðu fulltrúar samtakanna, Sabrina Gurtner og York Ditfurth, daga blóðmerabúskapar talda.

Á dögunum fjallaði fréttaskýringaþáttur Ríkisútvarpsins, Kveikur, um starfsemina í tengslum við sögu Sæunnar Þóru Þórarinsdóttur, bónda á Lágafelli, sem sagðist hafa misst fjórar hryssur í tengslum við blóðtöku á sínum bæ. Að minnsta kosti eitt dauðsfallið er rakið til mistaka við verklag reynslulítils dýralæknis við framkvæmd blóðtöku.

Arnþór segir að um leið og fyrirtækið harmi atvikin sem upp komu eigi þau sér skýringar, þó misljósar. Brugðist hafi verið við þeim með greiðslu bóta og innleiðingu á frekari þjálfun fyrir dýralækna sem koma nýir inn í starfsemina.

„Við byrjuðum reyndar strax með þjálfunarferli þegar við réðum þessa dýralækna árið 2022. Þeir komu þó með stuttum fyrirvara og þjálfunin var aðallega bókleg auk leiðsagnar með reyndari dýralæknum en í dag felur þjálfunin í sér ítarlegri leiðsögn, þeir kynna sér atferli skepnanna, hvernig eðlileg blóðsöfnun gengur fyrir sig og hvernig rétt er að standa að verki, allt frá því hvernig skepnurnar eru reknar, settar í bás, bandaðar og svo með leiðsögn við blóðtöku,“ segir Arnþór.

Kristinn bætir við að sú staða sem kom upp árið 2022 hafi verið óvenjuleg í sögulegu tilliti enda hafi venjan verið sú að dýralæknar lærðu með því að fylgja reyndari dýralæknum í lengri tíma áður en þeir tóku að sér blóðtöku.

„Vitaskuld þjálfuðust þessir dýralæknar líka fljótt upp á þessu blóðtökutímabili. Þannig gengu blóðtökur ársins 2023 betur en árið 2022 og úr þjálfuninni fengum við fært fólk til verka sem mun starfa áfram fyrir fyrirtækið,“ segir Arnþór.

Siðferðislega ásættanlegt dýrahald

Umfjöllun um blóðmerahald og blóðtökurnar eru margslungnar. Starfshópur matvælaráðherra rekur í skýrslu sinni, „Blóðtaka úr fylfullum hryssum. Starfsemi, regluverk og eftirlit“, mismunandi sjónarmið er fram hafa komið um starfsemina, sem snýr meðal annars að siðferðilegum álitamálum tengdum velferð dýra, eftirliti með starfseminni og atvinnufrelsi. Þegar talað er um siðferði þess að taka blóð úr fylfullum hryssum og vinna úr því efni sem notað er í gangsemislyf fyrir búfé í þaulræktun segir Arnþór:

„Þetta er tvívítt efni. Annars vegar siðferði þess að taka blóðið. Ég sé ekki meginmun á þessari brúkun hrossins miðað við aðra afurðaframleiðslu. Auðvitað er hún öðruvísi, þetta eru allt mismunandi greinar og byggja á mismunandi afurðum, sem teknar eru með mismunandi hætti. Aðrar afurðir og aðferðir þeirra eru betur þekktar. En þegar litið er til líðanar skepnanna, bæði á ársgrundvelli og síðan þennan stutta tíma þegar afurðin er tekin, þá sjáum við ekki að þetta sé verra á neinn hátt nema síður sé.

Á hinum endanum er spurningin um siðferði notkunar PMSG í búfjárhaldi í útlöndum. Við erum engir sérfræðingar í notkun efnisins, heldur framleiðsluaðili efnis fyrir markað. Engu að síður höfum við síðustu misseri farið að skoða betur hvar þetta er notað, hvernig og af hverju. Við höfum hitt fólk sem notar efnið. 

Meðal annars komu hingað franskir sauðfjárbændur sem nota það til að samstilla kindur og geitur til að fá ferska mjólk allt árið, sem þeir nota svo til að búa til ferskmygluosta á borð við Roquefort. Þeir fá betra verð þegar ostarnir eru búnir til úr ferskri mjólk og því er notkun PMSG mikilvægur hluti í þeirra keðju. Þannig er PMSG notað í ýmsum sérhæfðum mengjum, en það er líka notað víðar, til dæmis mikið í nautaeldi. En það eina sem virðist talað um hér er notkun þess í svínaeldi.

Okkur er sagt í Kveik að PMSG sé notað til að fjölga fjölda grísa í goti. Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að þetta sé ekki rétt lýsing á notkun efnisins í svínaeldi. Það er víst engin þörf á því að fjölga fjölda grísa í svínaeldi, kynbætt hefur verið fyrir þeim eiginleika í áratugi og staða þessara búfjárstofna er þannig að ekki sé þörf á fjölgun grísa. PMSG er fyrst og fremst notað í samstillingar, til þess að grísirnir komi í heiminn þegar það hentar framleiðslunni,“ segir Arnþór og segist meðvitaður um að margir séu mjög á móti hormónanotkun og þaulræktun í landbúnaðarframleiðslu.

„Þetta er bara eitt af þessum tækjum sem við mennirnir höfum skapað til að geta lifað á jörðinni. Allir vita að við brauðfæðum ekki átta milljarða manna án tæknivædds landbúnaðar, það dugar ekki að gróðursetja bara gulrót. Við erum ekki þar. Græna byltingin var risastórt skref fyrir mannkyn og við þurfum samt að halda áfram til að geta nært alla.“

Kristinn bendir á að hægt sé að tengja blóðnytjar og notkun á PMSG við jákvæð loftslagsáhrif. „Hagnýting hormónsins hefur umhverfislegan ávinning á heimsvísu. Það leiðir af sér fóðursparnað, sem hefur áhrif á landnotkun og orkunotkun. Þá hefur þetta áhrif á notkun á húsunum sjálfum sem og vinnutíma starfsfólks. Það kom fram í viðtali við hollenskan bónda á dögunum, sem heldur fjögur hundruð gyltur, að hann telji sig spara þrjátíu þúsund evrur á ári með því að nota PMSG.“

Að því sögðu segist Arnþór ekki sjá tenginguna milli notkunar á PMSG og slæmum aðbúnaði og utanumhaldi á evrópskum svínabúum. „Ég neita að trúa því að í Evrópusambandinu standi ekki steinn yfir steini í kjötframleiðslumálum. En ef það væri svo þá hefur það ekkert með PMSG notkun að gera. Annaðhvort ferðu vel með dýrin þín eða ekki. Það er enginn þráður milli ætlaðs ömurlegs utanumhalds á svínabúum, eins og birtist í myndböndum dýraverndarsamtakanna AWF, og hormónanotkunar.

Ég get tekið þetta saman í afskaplega einföld orð sem eiga við um dýr, hvort sem við höldum þau til að borða þau eða sem gæludýr: Öll dýr eiga að eiga gott líf og í samræmi við þeirra náttúru eins vel og mögulegt er og fá svo snöggan dauðdaga. Ef við getum uppfyllt það, þá er dýrahaldið siðferðislega ásættanlegt.“

Íslenski hesturinn fjölnytjakyn

Kristinn starfaði lengi sem landsráðunautur BÍ í hrossarækt og er fæddur og uppalin í hrossarækt og hestamennsku og hefur stundað það alla sína ævi. Blóðmerabúskapur orkar tvímælis hjá mörgum ræktendum reiðhrossa sem endurspeglast m.a. í sjónarmiðum Landssambands hestamannafélaga, Félags tamningamanna og Alþjóðasambands Íslandshestafélaga (FEIF) í fyrrnefndri skýrslu starfshóps matvælaráðherra, en þar leggjast félögin gegn starfseminni og telja að banna eigi blóðmerahald.

Þrátt fyrir að tilheyra hópi hrossaræktenda hefur Kristinn beitt sér fyrir búgrein blóðnytja enda sé íslenski hesturinn svokallað fjölnytjakyn.

„Við erum með hesta sem við teljum vera virkilega góða hesta, gæðaframleiðslu. Þá gerir ekkert til þótt aðrir hestar séu í öðru. Þetta er engin staðgönguvara. Þetta er bara mismunandi notkun á einu og sama kyninu enda eina hrossakynið í landinu. Þess vegna þurfum við, sem ræktum reið- og keppnishesta, ekkert að hafa áhyggjur því blóðnytjabúskapur er stóðhald á allt öðrum grundvelli. Menn verða að átta sig á því að ef fólk vill fara í hágæðavöru þá borgar sig að kaupa slíka vöru. Hugsunin með blóðnytjunum er ekki sú að henda hrossunum inn á lífhrossamarkað, en ef einhverjir vilja kaupa hross fyrir lítinn pening, þá ryður það hinu ekkert brott.“

Arnþór bætir við að munurinn sé skýr. „Þetta er eins og með til dæmis Yaris og Land Cruiser, notkun þeirra og tilgangur er gerólíkur, eins og í því tilfelli sem við erum að tala um hér þá hefur önnur varan engin áhrif á sölu hinnar og öfugt.“

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...