Búið að aflétta varúðarráðstöfunum gegn fuglaflensu
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur fellt úr gildi sérstakar reglur um varúðarráðstafanir gegn fuglaflensu, sem hafa verið í gildi frá því í mars á þessu ári, samkvæmt tillögum Matvælastofnunar.
Stofnunin hefur lækkað því lækkað viðbúnaðarstig þar sem hún metur smithættu núna lága. Það þýðir að leyfilegt er á ný að hleypa alifuglum út úr húsi eða út fyrir yfirbyggð gerði. Leyfilegt er að halda sýningar og aðrar samkomur með fugla.
Fuglaeigendur þurfa að vera áfram á varðbergi
Fuglaeigendur eru þó hvattir til að vera áfram á varðbergi gagnvart fuglaflensu og gæta fyllstu varúðar áður en fuglum er hleypt út.
Í upplýsingum á vef Matvælastofnunar kemur fram að fuglaflensuveiran geti lifað í margar vikur í smituðu umhverfi við ákveðnar aðstæður, svo sem kulda og raka. Því er mælt með því að gera eftirfarandi ráðstafanir til að forðast smit:
- gera umhverfið óaðlaðandi fyrir villta fugla, sér í lagi fyrir andfugla, máva, vaðfugla, ránfugla og hræætur, t.d. með fuglahræðum
- halda villtum fuglum fjarri fóðri og tryggja að ekki séu fóðurleifar sem laða að villta fugla
- huga að því að loka útisvæði með neti yfir gerði
- girða af óhrein svæði s.s. svæði sem hafa verið heimsótt af villtum fuglum undanfarið
- þrífa og sótthreinsa útisvæði með hörðu undirlagi ef hægt er
- nota sólarljós og þurrkur til að draga úr smithættu í umhverfi fugla sem ekki er hægt að þrífa
- nota spæni á blautum svæðum þar sem spænir hafa veirudrepandi eiginleika
- þurrka blaut svæði og polla
- halda áfram að takmarka aðgang fólks að fuglum í haldi og halda heimsóknum í lágmarki
H og N fuglaflensuveirur
Á sérstakri upplýsingasíðu á vef Matvælastofnunar, vegna fuglaflensu, kemur fram að fuglaflensuveirur eru flokkaðar eftir mótefnavökum á yfirborði þeirra, sem eru auðkenndir með bókstöfunum H og N.
„Veirurnar eru líka flokkaðar eftir því hversu alvarlegri sýkingu þær valda í fuglum. Veirur sem valda alvarlegum einkennum og hárri tíðni dauðsfalla í smituðum fuglahópi kallast skæð fuglaflensa (e. highly pathogenic avian influenza, HPAI). Fuglaflensuveirur sem valda yfirleitt litlum einkennum kallast væg fuglaflensa (e. low pathogenic avian influenza, LPAI). Eftir stökkbreytingu hafa einstaka fuglaflensuveirur, t.d. af gerðunum H5N1 og H7N9, öðlast eiginleika til að geta sýkt önnur dýr og fólk. Smitun verður aðallega við snertingu við fugla eða fugladrit, ekki við neyslu afurða,“ segir á síðunni.