Búist við að veltan á heimsmarkaði aukist um 578% fram til 2025
Virði iðnaðarhamps sem hráefnis á heimsmarkaði á árinu 2019 var áætlaður 4,6 milljarðar dollara. Stöðugur vöxtur er í þessari grein og á síðasta ári áætluðu markaðssérfræðingar að veltan á iðnaðarhampsmarkaði aukist um 578% og verði komin í 26,6 milljarða dollara á árinu 2025.
Þótt hamptrefjar sé stærsti hluti framleiðslunnar þá er vaxandi framleiðsla á iðnaðarhampi ekki síður knúin af mikilli eftirspurn eftir CBD-hampolíu og hampfræi sem fæðubótarefni.
Hampfræ í morgunverð
Samkvæmt frétt af vefsíðu Industrial Hemp Market er í auknum mæli farið að nota hampfræ í morgunverðarkorn sem ætlað er til daglegrar neyslu. Þá er einnig að stóraukast notkun á bæði hampfræi og hampolíu í margháttaða fæðu vegna hás próteininnihalds. Er farið að nota hampfræ m.a. í mjúkdrykki (smoothies), jógúrt og kornstangir. Neysla á slíkum vörum er t.d. orðin mjög mikil í Þýskalandi og Hollandi.
Yfirbyggingin á þessum Kestrel sportbíl var smíðuð úr hamptrefjaefni árið 2010.
Hampur nýttur í vefnað, bíla, húsgögn og byggingar
Tvenns konar trefjar eru í hampjurtinni, langar (bast 2-50 mm) og stuttar (hurds 0,5 mm) sem nýtast í margvíslega iðnaðarframleiðslu. Úr hampi er m.a. spunnið band til vefnaðar. Um 70–80% af hampstilkunum innihalda stuttar trefjar sem m.a. eru nýttar í byggingariðnaði, húsgagnaiðnaði, bílaiðnaði og sem undirlegg fyrir húsdýr. Hefur vaxandi umhverfisvitund vakið mikinn áhuga á að leysa af notkun á plasti með endurvinnanlegum hampi, m.a. í innréttingum bifreiða.
Múrsteinar úr hamptrefjasteypu.
Mörg stór hampfyrirtæki
Helstu söluaðilar á hampi í heiminum eru Hemco í Kanada, Ecofibre í Ástralíu, Hemp Inc í Bandaríkjunum, GenCanna í Bandaríkjunum, HempFlax í Hollandi, Konoplex Group í Rússlandi, Hemp Oil Canada, BAFA í Þýskalandi, Hemp Poland, Dun Agro í Hollandi, Colorado Hemp Works í Bandaríkjunum, Canah International í Rúmeníu, South Hemp Tecno á Ítalíu, Plain Industrial Hemp Processing í Kanada og MH Medical Hemp í Þýskalandi.